Barnið mitt er 2 ára og mig grunar að það heyri ekki nógu vel. Er hægt að heyrnarmæla svona ungt barn?
Börn frá 6 mánaða til 3 1/2 árs eru mæld þannig að þau sitja í kjöltu foreldris og fá að hlusta á hljóð, annað hvort úr hátölurum eða með heyrnartólum. Þegar hljóð heyrist bregðast flest börn við með því að líta til hliðar. Þegar barnið lítur til hliðar fær það að sjá dýr skoppa í kassa, flestum börnum finnst þetta mjög spennandi. Miklu máli skiptir að foreldri bregðist sjálft ekki við hljóðunum en gott er að foreldri haldi athygli barns frá kassanum milli hljóða.
Þegar börn eldast, eða svona um 3 1/2 árs aldur, er hægt að láta þau kubba. Leikurinn virkar þannig að þegar þau heyra hljóð taka þau kubb úr einum kassa og setja ofan í annan. Við 6 ára aldur er hægt að nota sömu mælingar og notaður eru til að mæla heyrn fullorðinna en þá ýtir barnið á takka þegar það heyrir hljóð.