Hvað er eyrnasuð?
- Eyrnasuð (tinnitus) er hvers kyns hávaði eða hljóð sem heyrist "inni í eyranu" eða "í höfðinu" og stafar ekki frá umhverfinu.
- Vægt eyrnasuð er mjög algengt fyrirbæri. Næstum allir finna fyrir eyrnasuði eftir mikinn, hvellan hávaða eða jafnvel upp úr þurru. Yfirleitt hverfur svo suðið eftir smátíma.
- Eyrnasuð er ekki sjúkdómur heldur einkenni einhvers sem truflar starfsemi eyrans eða heyrnartaugarinnar.
- Orsakir geta verið fjölmargar. Sumar eru þekktar, aðrar óþekktar.
- Langflestir þeir sem leita hjálpar vegna eyrnasuðs eru alheilbrigðir og suðið ekki einkenni um neitt alvarlegt heilsufarsvandamál.
- Ýmiss konar próf eru notuð til að reyna að greina eðli og orsök vandamálsins.
Hvað er til ráða?
- Stundum getur læknismeðferð komið að gagni, en því miður er oft erfitt að uppræta eyrnasuðið sjálft.
- Stundum geta lyf dregið úr styrk suðsins eða hjálpað mönnum að umbera það. Slík lyf hafa hins vegar oft hliðarverkanir og er því varasamt að nota þau lengi.
- Með viðeigandi greiningu er oft hægt að komast að uppruna eyrnasuðs. Getur greiningin ráðið miklu um hugsanlega meðferð.
- Ef eyrnasuði fylgir heyrnartap er oft mælt með notkun heyrnartækis. Tækið magnar umhverfishljóð og deyfir yfirleitt eyrnasuðið um leið.
- Stöku sinnum er mælt með notkun "suðara", þ.e. tækis sem drekkir eyrnasuðinu í stöðugum nið.
- Margir hafa gagn af því að sofna út frá tónlist eða öðrum hljóðum ef eyrnasuð heldur fyrir þeim vöku. Einnig er hægt að fá sérstaka "suðara" á náttborðið til að deyfa eyrnasuðið.