Skip to main content

Greiðsluþátttaka ríkisins í hjálpartækjum

REGLUGERÐ

um greiðsluþátttöku ríkisins í hjálpartækjum

sem Heyrnar- og talmeinastöð útvegar.

 

1. gr.

Þátttaka ríkisins í kostnaði við hjálpartæki.

Einstaklingar sem eru sjúkratryggðir hér á landi samkvæmt lögum um sjúkratryggingar eiga rétt á greiðsluþátttöku ríkisins í kostnaði vegna hjálpartækja sem Heyrnar- og talmeinastöð útvegar sem hér segir:

  1. Fyrir börn yngri en 18 ára eru heyrnartæki greidd að fullu.
  2. Fyrir þá sem eru 18 ára og eldri og hafa tónmeðalgildi á betra eyranu ≥ 30 dB < 70 dB við tíðnina 0,5, 1,0, 2,0 og 4,0 kHz eða við tíðnina 2,0, 4,0 og 6,0 kHz greiðast 50.000 kr. fyrir hvert heyrnartæki, þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur kaupverði tækis.
  3. Fyrir þá sem eru 18 ára og eldri og hafa tónmeðalgildi á betra eyranu ≥ 70 dB við tíðnina 0,5, 1,0, 2,0 og 4,0 kHz, er greitt 80% af verði heyrnartækis, þó ekki lægri fjárhæð en 50.000 kr. nema kaupverð tækis sé lægra.
  4. Fyrir þá sem eru 18 ára og eldri og þurfa sérstök heyrnartæki sem krefjast skurðaðgerðar er greitt samkvæmt eftirfarandi:
    • Fyrir kuðungsígræðslutæki 90% af verði heyrnartækis.
    • Fyrir beinskrúfutæki og önnur sambærileg heyrnartæki 80% af verði heyrnartækis.
  5. Fyrir hjálpartæki önnur en heyrnartæki, sbr. fylgiskjal I, til þeirra sem um getur í 1., 3. og 4. tölul. fer um greiðsluþátttöku samkvæmt þeim töluliðum.
  6. Fyrir hjálpartæki önnur en heyrnartæki, sbr. fylgiskjal I, til þeirra sem hafa tónmeðalgildi á betra eyranu > 50 dB við tíðnina 0,5, 1,0, 2,0, og 4,0 kHz, fer um greiðsluþátttöku eins og um getur í 3. tölul.

Einstaklingur getur mest notið greiðsluþátttöku eða styrkja, sbr. reglugerð um veitingu styrkja vegna kaupa á heyrnartækjum hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöð, vegna tveggja heyrnar­tækja, einu fyrir hvort eyra, skv. 1. tölul. 1. mgr. á hverju tveggja ára tímabili og skv. 2., 3. og 4. tölul 1. mgr. á hverju fjögurra ára tímabili. Einstaklingur skv. 1. tölul. 1. mgr. á til viðbótar við framan­greint rétt á allt að tveimur pörum af hlustarstykkjum á ári. Einstaklingur skv. 3. tölul. 1. mgr. á rétt á pari af hlustunarstykkjum á tveggja ára fresti. Heimilt er að víkja frá þessu ef heyrn breytist umtalsvert að mati sérgreinalæknis í heyrnarfræði (háls-, nef- og eyrnalækningum) þannig að talin er nauðsyn á nýju heyrnartæki. Sjúkratryggingar Íslands skulu miðla upplýsingum til Heyrnar- og talmeinastöðvar um styrki vegna heyrnartækja sem veittir eru á grundvelli reglugerðar um styrki vegna kaupa á heyrnartækjum hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöð.

Heyrnar- og talmeinastöð er heimilt að útvega heyrnartæki fyrir þá einstaklinga sem ekki uppfylla skilyrði til að njóta greiðsluþátttöku skv. 2., 3. eða 4. tölul. 1. mgr. eða 2. mgr. Gjald fyrir heyrnar­tæki sem útveguð eru án greiðsluþátttöku ríkisins skal taka mið af kostnaði við útvegun þeirra. Tryggt skal að þessir einstaklingar njóti ekki forgangs við úthlutun heyrnartækja umfram þá ein­stak­linga sem uppfylla skilyrði til að njóta greiðsluþátttöku skv. 1.-4. tölul. 1. mgr. og 2. mgr.

2. gr.

Útvegun Heyrnar- og talmeinastöðvar á hjálpartækjum öðrum en heyrnartækjum.

Heyrnar- og talmeinastöð aðstoðar sjúkratryggða einstaklinga við að útvega nauðsynleg hjálpar­tæki önnur en heyrnartæki, sbr. fylgiskjal II. Í þeim tilvikum er tækið eign Heyrnar- og talmeina­stöðvar og skal sjúkratryggður greiða hæfilegt leigugjald sem tekur mið af kostnaði við öflun tækis­ins og áætluðum endingartíma þess.

3. gr.

Söfnun upplýsinga.

Heyrnar- og talmeinastöð skal safna upplýsingum um alla þá sem eru heyrnarskertir, heyrnarlausir eða eru með heyrnar- og talmein og öðrum tölfræðilegum upplýsingum sem nýtast við rannsóknar- og þróunarstörf. Um söfnun upplýsinga skal fara samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og lögum um landlækni og lýðheilsu, eftir því sem við á.

4. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 5. gr., 3. mgr. 6. gr. og 8. gr. laga um Heyrnar- og talmeinastöð, nr. 42/2007, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 1118/2006, um greiðsluþátttöku ríkisins í hjálpartækjum sem Heyrnar- og talmeinastöð útvegar, með síðari breytingum.

Velferðarráðuneytinu, 8. október 2015.

Kristján Þór Júlíusson
heilbrigðisráðherra.

 

 

Fylgiskjal I.

Listi yfir hjálpartæki.

Barnavakt

Tæki til að heyrnarskert foreldri verði vart við barnsgrát.

Dyra-/símasendir

Tæki sem sendir dyrabjölluhringingu og símhringingu í móttakara sem notandi hefur.

Vekjaraklukka

Klukka með titrara sem m.a. er geymd undir kodda.

Reykskynjari

Reykskynjari með innbyggðum sendi sem sendir boð í móttakara notanda.

Tónmöskvi með púða

Færanlegur púði með segulsviði sem notandi situr á. Heyrnartæki notanda er stillt sérstaklega til að heyra betur í sjónvarpi/útvarpi og útiloka um leið truflandi hljóð frá umhverfinu.

Tónmöskvi, 150 fm

Snúra lögð um herbergi sem gegnir sama hlutverki og tónmöskvi með púða, en er ekki færanleg.

FM tæki

Sérstök tæki, sem gegna sama hlutverki og tónmöskvar en til notkunar í skólastofum.

Titrari og CH - hleðslutæki

Titrari í vasa og hleðslutæki.

Hleðslutæki

Hleðslutæki fyrir önnur hjálpartæki.

Tengibox fyrir heimilislampa

Móttökutæki, tengt lampa/ljósi fyrir boð frá dyrabjöllu, síma o.fl. Unnt er að tengja tvo heimilislampa við eitt tengibox.

Blikkljós

Stakt blikkljós m.a. í baðherbergi, eldhús eða gang.

Tactum - armbandsúr með titrara og hleðslutæki

Armbandsúr með titrara og hleðslutæki, tengt búnaði eins og dyrabjöllu, síma o.fl.

Rafhlöður

Rafhlöður í heyrnartæki.


 

Fylgiskjal II.

Listi yfir hjálpartæki.

Borðmagnari

Búnaður til notkunar á fundum.

FM tæki

Sérstök tæki, sem gegna sama hlutverki og tónmöskvar en til notkunar á fyrirlestrum í skólastofum.

Talmagnari

Tæki til að magna upp veika rödd.

Heyrnarmagnari

Tæki til að magna upp hljóð.

__________

 

B-deild – Útgáfud.: 29. desember 2006

 

Hér fylgir eyðublað um umsókn fyrir Samskiptastyrk

beidnir Umsókn um styrk til kaupa á samskiptatæki.

 


REGLUGERÐ

um styrki vegna kaupa á heyrnartækjum hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöð.

1. gr.

Styrkir til kaupa á heyrnartækjum.

Einstaklingar 18 ára og eldri sem eru sjúkratryggðir hér á landi samkvæmt lögum um sjúkra­tryggingar og hafa tónmeðalgildi á betra eyranu ≥ 30 dB < 70 dB við tíðnina 0,5, 1,0, 2,0 og 4,0 kHz eða við tíðnina 2,0, 4,0 og 6,0 kHz eiga rétt á styrk að fjárhæð 50.000 kr. frá Sjúkra­trygg­ingum Íslands vegna kaupa á heyrnartækjum hjá rekstrarleyfishöfum, sbr. reglugerð um sölu heyrnartækja, nr. 148/2007.

Hver einstaklingur getur mest notið styrkja hjá Sjúkratryggingum Íslands eða greiðsluþátttöku hjá Heyrnar- og talmeinastöð, sbr. reglugerð um greiðsluþátttöku ríkisins í hjálpartækjum sem Heyrnar‑ og talmeinastöð útvegar, fyrir tvö heyrnartæki, eitt fyrir hvort eyra, á hverju fjögurra ára tíma­bili. Heimilt er að víkja frá þessu ef heyrn breytist umtalsvert að mati háls-, nef- og eyrna­læknis þannig að talin er nauðsyn á nýju heyrnartæki. Framvísa skal vottorði því til stað­fest­ingar.

Heyrnar- og talmeinastöð skal miðla upplýsingum til Sjúkratrygginga Íslands um greiðsluþátttöku í heyrnartækjum sem Heyrnar- og talmeinastöð útvegar.

2. gr.

Umsóknir til Sjúkratrygginga Íslands.

Sækja skal um styrk vegna kaupa á heyrnartækjum hjá rekstrarleyfishöfum til Sjúkratrygginga Íslands. Með umsókn um styrk skal fylgja greiðslukvittun frá söluaðila og niðurstöður heyrnar­mælinga, framkvæmdar af háls-, nef- og eyrnalækni eða heyrnarfræðingi sem hlotið hefur full­nægj­andi menntun sem slíkur, sem sýna að umsækjandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 1. gr. Sé heyrnar­mæling ekki framkvæmd af háls-, nef- og eyrnalækni eða heyrnarfræðingi þarf jafnframt vottorð háls-, nef- og eyrnalæknis þar sem staðfest er að viðkomandi hafi þörf fyrir heyrnartæki.

Sjúkratryggingar Íslands geta ákveðið að umsóknir skuli gerðar á sérstökum eyðublöðum sem stofn­unin útbýr.

3. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem er sett með stoð í 5. gr. laga um Heyrnar- og talmeinastöð, nr. 42/2007, og 26. sbr. 55. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, öðlast þegar gildi. Við gildistöku hennar fellur úr gildi reglugerð nr. 146/2007, um styrki vegna kaupa á heyrnartækjum hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöð.

Velferðarráðuneytinu, 8. október 2015.

Kristján Þór Júlíusson
heilbrigðisráðherra.

 

 

Save
Cookies user preferences
We use cookies to ensure you to get the best experience on our website. If you decline the use of cookies, this website may not function as expected.
Accept all
Decline all
Read more
Functional
Tools used to give you more features when navigating on the website, this can include social sharing.
Osano
Vefkaka sem geymir tímabundið samþykki þitt á þessari vefsíðu
Accept
Decline
Analytics
Tools used to analyze the data to measure the effectiveness of a website and to understand how it works.
Google Analytics
Rýnir í vefumferð á vefnum svo hægt sé betrumbæta hann.
Accept
Decline