Skip to main content

Fyrir kennara

Kennarar sem koma á móts við nemendur með heyrnarskerðingu geta haft mikil jákvæð áhrif á stöðu barnanna í skólanum. Hvort sem barnið notar heyrnartæki eða ekki þá hefur heyrnarskerðingin áhrif á aðgengi barnsins að námi. Fræðsla er lykilþáttur í því að námsaðstæður og skólaumhverfi sé nemandanum í hag. Með litlum tilfæringum má hafa mikil áhrif á hljóðumhverfi skólastofunnar. Kennsluhættir sem stuðla að góðri hljóðvist og fjölbreyttum leiðum til þess að afla sér upplýsinga eru lykill að námi barnanna. Hér á síðunni er að finna fróðleikskorn og krækjur sem geta stutt kennara barna með heyrnarskerðingu. Á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og í Hlíðaskóla í Reykjavík starfa kennsluráðgjafar með reynslu af kennslu barna með heyrnarskerðingu sem geta stutt kennarana í starfi sínu.  Á leikskólanum Sólborg má sækja ráðgjöf fyrir starfsfólk leikskóla. 

 

Hildur Heimisdóttir

Kennsluráðgjafi HTÍ – Hildur Heimisdóttir er kennsluráðgjafi á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Hún getur heimsótt skólann og rætt við kennara um kennsluaðstæður og leiðir til þess að bæta þær, eða rætt við þá í síma eða netspjalli. Kennsluráðgjafi getur einnig komið í heimsókn í skólann og flutt þar erindi fyrir allt starfsfólk. Ef þú vilt hafa samband við Hildi getur þú sent henni póst á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða hringt í síma

Skólinn og heyrnarskerðing

Börn með heyrnarskerðingu eru jafn ólík og þau eru mörg. Þrátt fyrir það eru ákvæðnir þættir sem starfsfólk skóla ætti að gæta að í tilfellum allra barna með heyrnarskerðingu, þættir sem gagnast reyndar öllum börnum. Það auðveldar kennurum að gera kennsluna og aðstæður barnsins sem bestar að hugsa með sér að allur hópurinn sé með heyrnarskerðingu. Öll börnin þurfa að sjá þau sem tala við hópinn, hvort sem er inni í skólastofunni sjálfri eða utan hennar. Skilaboð og nýr orðaforði er á vísum stað í skólastofunni. Námsumhverfi og kennsla byggja jafnt á sjónrænum þáttum og yrtum.  Allir þessir þættir henta öllum börnum vel en geta skipt sköpum í upplifun barns með heyrnarskerðingu af skólanum. 

Ekki hika við að biðja foreldra um nákvæma lýsingu á heyrnarskerðingu barnsins og umgengni við tækin þeirra. Það er allur gangur á því hversu sjálfstætt barnið er í umgengni við tækin, hvort það vekur athygli á því ef rafhlöður klárast eða slekkur í tíma og ótíma á tækjunum sínum. Kennari sem talar um heyrnartæki barnsins af öryggi og handleikur þau fumlaust veitir nemandanum styrk og sýnir þannig með atgervi sínu að heyrnartæki eru hvorki feimnismál né vandamál. This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. getur verið kennurum innan handar við að fá nánari fræðslu um það hvernig þeir geta mætt nemendum með heyrnarskerðingu.  

Gátlistar

Þegar nemandi með heyrnarskerðingu hefur nám við skólann er margt sem þarf að hafa í huga. Gátlistar geta reynst vel við undirbúning skólagöngu barns með heyrnarskerðingu. 

gátlisti deildarstjóra 

gátlisti kennara 

Skólinn og heyrnarskerðing

Kennsluráðgjöf

Á heyrnar- og talmeinastöð Íslands og í Hlíðaskóla starfa kennsluráðgjafar, kennarar með langa reynslu af kennslu barna með heyrnarskerðingu. Þeir veita starfsfólki skóla og  foreldrum ráðgjöf og stuðning með það að leiðarljósi að skólaganga barnanna verði jákvæð reynsla og heyrnarskerðingin hafi sem minnst áhrif á tækifæri þeirra til náms. Ef um leikskóla er að ræða veitir ráðgjafi á leikskólanum Sólborg stuðning.  

Vel upplýst starfsfólk skóla getur haft afgerandi áhrif á námsárangur barna með heyrnarskerðingu. Það er mikilvægt að deildarstjóri stoðþjónustu og umsjónarkennari setji sig vel inn í aðstæður barnsins og gæti þess að allt starfsfólk skólans þekki til heyrnarskerðingarinnar. Þegar upplýsingar skortir getur heyrnarskerðingin haft þau áhrif að barnið virki utan við sig eða dónalegt (svarar ekki þegar á það er yrt) eða að það hundsi fyrirmæli.  

Mörg börn með heyrnarskerðingu stunda nám í Hlíðaskóla meðan önnur sækja hverfisskóla, þá eru þau ósjaldan eina barnið í skólanum með heyrnartæki. Umsjónarkennarar þeirra upplifa sig eina, því þó allir kennarar séu með fjölbreyttan nemendahóp þá eru ekki fleiri í sömu stöðu. Börn með heyrnarskerðingu eru ekki með áberandi sérþarfir en ef ekki er komið á móts við þær sérþarfir hefur það veruleg áhrif á stöðu barnsins í skólanum. Þess vegna er mikilvægt að kennarar hafi aðgang að ráðgjafa á HTÍ til þess að ræða málin. Til þess að panta samtal eða annan stuðning ráðgjafa má senda póst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. 

Hlustunarskilyrði 

Hávaði eða hljóð í umhverfinu hafa áhrif á hversu vel við heyrum og hvernig okkur gengur að greina talað mál. Ef hlustunarskilyrði eiga að vera sem best þarf áreynslulaust tal að geta yfirgnæft umhverfishljóð.  

Þrír þættir hafa einkum áhrif á hversu vel hljóðneminn í heyrnartækjum barnanna getur skilað til þeirra töluðu máli. Það er fjarlægð frá hljóðuppsprettu, ómtími og hávaði. Kennarar geta haft áhrif á alla þessa þætti með því að velja nemandanum stað í samræmi við verkefni, vinna markvisst að góðri hljóðvist og vera meðvitaður um uppsprettur truflandi hljóða og ekki síst með því að kenna nemendum markvissa hlustun og hvernig þeir geta haft áhrif hljóðumhverfið 


Uppröðun í kennslustofu

Staðsetning barns með heyrnarskerðingu í skólastofu hefur mikil áhrif á möguleika þess til þátttöku. Mikilvægast er að velja barninu sæti í samræmi við starfið sem fram fer. Þegar heimakrókur er notaður markvisst eða borðum raðað í U og barni með heyrnarskerðingu valinn staður með bakið í gluggann, fjarri opnanlegu fagi og tækjum sem gefa frá sér hljóð, nærri kennaranum og á snúningsstól hefur barnið mikla möguleika á því að fylgjast með því sem fram fer þegar um beina kennslu er að ræða, en í skólastofum nútímans er það ekki alltaf kennarinn sem stendur við töfluna sem þarf athygli, því er hér farið yfir nokkrar leiðir til þess að raða borðum í stofuna og börnunum í sæti. 

Innlögn eða bein kennsla. – Þegar öll athygli á að beinast að töflu og því sem þar fer fram er best að barnið sitji þannig að það sjái þann sem talar og það sem er á töflunni. Ljós þarf að beinast framan á þann sem talar en ef ljósið er bara aftan við ræðumann s.s. af skjánum kemur skuggi á andlitið sem gerir varalestur mun erfiðari. Öll börn með heyrnarskerðingu reiða sig að nokkru leyti á varalestur. Kennari þarf að gæta þess að ekkert skyggi á varirnar, bók, hálsklútur sem hylur munninn eða mikið skegg, varalitur getur hins vegar verið til bóta! 

Þegar umræður verða í hópnum samhliða þess konar kennslu er mikilvægt að kennari ávarpi þau börn sem taka til máls með nafni svo barnið með heyrnarskerðinguna hafi tækifæri til þess að snúa sér að þeim sem talar. Stólar sem geta snúist hjálpa nemandanum við þessar aðstæður. 

Kennari ætti að leitast við að gefa nemendum nokkrar sekúndur til þess að horfa á glærur eða annað efni á skjá eða töflu án þess að þurfa að hlusta á sama tíma.  

Ef Roger búnaður er notaður í kennslustofunni ætti alltaf að nota hann þegar innlögn eða bein kennsla fer fram. 

Heimakrókur sem staðsettur er framan við töflu leysir mörg vandamál í einu. Öll börnin sjá á töfluna og fjarlægð milli allra í samtali helst jafn. Með því að hafa alla beina kennslu í heimakrók er kennari aldrei meira en 2m frá nemendum sínum. 

Einstaklingsvinna. – Hljóð í umhverfinu þreyta barn með heyrnartæki meira en önnur börn, því skyldi leitast við að finna barninu stað þar sem hljóð frá gangi eða glugga trufla lítið. Gott er að hafa í huga að ef gagnasafn nemendanna er á einum stað þá fylgja truflandi hljóð þegar sóttur er blýantur eða skæri. Það má draga úr slíkum hljóðum með einföldum hætti en þó er gott að staðsetja barn með heyrnarskerðingu langt frá slíkum hljóðuppsprettum.  

Hópvinna  – Hópur heyrnarskerta barnsins þarf vinnufrið. Hljóðeinangrandi skilrúm geta hjálpað við að skipta skólastofu í minni vinnurými. Vinna á ganginum (ef þar er vinnufriður), á bókasafninu eða hliðarherbergi er þó alltaf betri lausn. Ef Rogerbúnaður er notaður í stofunni er rétt að leggja kennaratækið á mitt vinnuborð hópsins. 

U - Uppröðun í U er sú uppröðun í kennslustofu sem hentar börnum með heyrnarskerðingu hvað best í almennu skólastarfi. Þá ætti nemandinn að sitja framarlega í boganum með ljós frá glugga í bakið svo birtan nýtist til þess að sjá framan í aðra.  

Dregið í sæti – Þegar dregið er um sæti í skólastofu geta börn með heyrnarskerðingu lent í vandræðum og orðið svo óheppin að heyra bara stundum það sem fram fer í skólastofunni. Kostir þess að nemendur læri að vinna með fleirum og festist ekki á einum stað í stofunni eru ótvíræðir, en geta haft skaðleg áhrif á nám þessara barna. Til þess að koma í veg fyrir það má hagræða útkomunni lítillega, velja 2-4 staði í stofunni í samstarfi við barnið og gæta þess að það lendi alltaf á góðum stað. Í sumum tilfellum borgar sig að velja nokkur börn til þess að vera staur. Þau sitja í sama sætinu nokkur tímabil en hin börnin hreyfast á milli. Þannig er hægt að festa nemendur sem hafa neikvæð áhrif á hvern annan en hreyfa hin börnin.  

Trap up er Erasmus verkefni sem hafði það að markmiði að safna saman upplýsingum um bestu mögulegu skólaaðstæður fyrir börn með heyrnarskerðingu. Hér er fjallað um uppröðun í skólastofu á heimasíðu TrapUp. 

Kennsluráðgjöf

Hljóðvist

Hljóðvist í skólum var yfirskrift málþings á Degi heyrnar 2024. Þar var fjallað um mikilvægi þess að huga að hljóðumhverfi barna í skólanum. Öll erindi málþingsins má nálgast á youtube síðu HTÍ. Í kjölfar málþingsins sendi Embætti umboðsmanns barna bréf til allra sveitarfélaga þar sem hvatt er til þess að gefa hljóðvist í skólum aukinn gaum. 

Nemendahópur barns með heyrnarskerðingu ætti alltaf að fá þá kennslustofu í skólanum sem býður upp á bestu mögulegu hljóðvist. 

Margir verkfræðilegir þættir hafa áhrif á hljóðvist í skólastofu, þættir sem heyra undir umsjónarmenn bygginga eða jafnvel arkitekta skólanna. Það má engu að síður hafa áhrif á hljóðvistina í skólastofunni, án mikils tilkostnaðar en til mikilla bóta fyrir öll þau sem stunda nám og vinnu í skólastofunni. 

Umhverfisstofnun hefur gefið út leiðbeiningar sem varða hljóðvistarkröfur í umhverfi barna og árið 2014 kom út handbók um rödd og hlustun í kennsluumhverfi eftir Dr. Valdísi Ingibjörgu Jónsdóttur. Þó efnið sé komið til ára sinna eru þar ráð og leiðbeiningar sem seint falla úr gildi. 

Bætt hljóðvist í skólum

Bætt hljóðvist í kennslustofu 

Ef þú vilt bæta hljóðumhverfið í kennslustofunni þinni er fyrsta verk að hlusta á stofuna, bæði þegar nemendur eru í stofunni en ekki síður þegar stofan er tóm. Gakktu um stofuna og staldraðu við á ólíkum stöðum og hlustaðu. Í hverju heyrist? Er hægt að draga úr aukahljóðum í stofunni, minnka ómtíma og gera hljóðvistina betri? Hér eru dæmi um hljóð í kennslustofu og hvernig mögulega megi draga úr þeim. 

Húsgögnin. Þegar valin eru ný húsgögn í skólastofu ætti að athuga hvort þau eru hönnuð með hljóð í huga. Mikið af nýjum skólahúsgögnum eru sérstaklega hugsuð út frá hljóðvist. Ef ekki á að endurnýja öll húsgögnin má þó ýmislegt gera með litlum tilkostnaði. Tennisboltar undir stólfætur breyta hljóðinu í kennslustofunni umtalsvert. Skrifborðsmottur draga úr hljóði frá borðplötum, bútar af mjúkum gólfdúk eru öndvegis skrifborðsmottur sem bæta hljóðvist. Ef stólfætur slást í borðfætur með látum má setja einangrun sem ætluð er á rör eða núðlur eins og notaðar eru í sundkennslu á fætur borðanna. Skellir í skáphurðum minnka til muna með dempurum eða plasttöppum. Filttappar á hliðar borða sem rekast oft saman draga úr hljóðinu. Allir þessir þættir geta haft mikil áhrif á hljóðumhverfið án þess að kosta mikið.  

Hljóð í viftum. Í sumum tilfellum má draga úr hávaða í viftum með því að ryksuga viftuna! Óhreinindi á viftuspöðunum auka hljóðin í viftunni. Ef tæki í kennslustofu eru með háværum viftum er ástæða til þess að athuga hvort endurnýjun er tímabær. 

Hávaði frá ganginum. Ef hávaði berst inn í stofuna frá ganginum getur skýringin verið óþétt hurð, þunnir veggir eða þil milli skólastofu og gangs eða hár ómtími á ganginum sjálfum. Þessa þætti getur umsjónarmaður fasteigna lagað með þéttilistum, einföldum hljóðeinangrandi plötum, gúmmímottum á steingólf og fleiru í þeim dúr. 

Hávaði frá skólalóðinni. Nemandi með heyrnarskerðingu ætti ekki að sitja nálægt opnanlegu fagi, því þaðan berast mestu hljóðin að utan ef mikill hávaði berst að utan og loftið í stofunni er þungt, mætti íhuga að setja bekkjarreglu um að opna alla glugga í stofunni upp á gátt, alltaf þegar stofan er tóm. 

Smáhljóðin. Fjölmörg smáhljóð tilheyra lifandi kennslurými og eiga heima þar. Það má engu að síður hafa áhrif á þau hljóð þannig að þau valdi síður hávaða eða truflun í stofunni. 

Í Montessori stefnunni eru gjarnan notaðar mottur til þess að afmarka vinnusvæði, þær draga um leið úr hávaða. Diskamottur eða filtbútar til þess að setja á borðin þegar notaðir eru teningar, eða jafnvel í nestistíma draga úr skellum þegar nestisbox er hreyft á borðinu. 

Víða í kennslustofum eru fallegar krúsir með gögnum sem nemendur geta gengið að. Glasamotta úr korki í botninum eða filtklæðning innan í krúsunum getur gjörbreytt hljóðunum sem fylgja því að börnin sæki sér gögn. 

Hljóðvist

Kennsla á hljóðumhverfi

Á málþingi í Salnum í tilefni af Degi heyrnar 2024 fjallaði Sigurður Einarsson sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu um hávaðamælingar í skólum og umhverfi barna. Í máli hans kom fram að það sem mest áhrif hefur á hávaða í skólastofum er reynsla kennara! Það reynir sem sagt á kennara sem eru reynsluminni að leitast við að læra af reynslu hinna sem lengur hafa starfað á vettvangi. Reyndir kennarar eru gjarnan með mikið safn af bókum í kringum sig eða böngsum, púðum og öðrum hlutum sem hafa áhrif á hljóðumhverfi, en þeir búa líka yfir fjölmörgum leiðum til þess að halda aga og hjálpa börnunum við að gera umhverfi skólastofunnar betra.  

Vantar myndir

Ef nemendum er kennt á hljóðvistina og þau læra hvaða áhrif þau geti haft á hljóðin í stofunni er auðveldara að óska eftir vinnufrið eða hljóði. Ef börnin vita að sum hljóð eru truflandi er hægt að biðja þau um að láta af hegðun sem veldur truflandi hljóði.  

Margir reyndir kennarar hér og þar um heiminn deila reynslu sinni á netinu. Þeirra á meðal er Christina Brauner sem segir frá ólíkri gerð af ró í kennslustofu og hvernig hún kennir börnunum á ólíkar hlustunaraðstæður.  Það er hugmynd sem hefur reynst mörgum kennurum vel.  

Hljóðkerfi

Fjarðlægð frá hljóðuppsprettu og truflandi umhverfishljóð eru þeir þættir sem hvað mest áhrif hafa á möguleika barns með heyrnarskerðingu til þess að heyra og skilja talað mál. Með því að nota hljóðkerfi í kennslustofunni má hafa áhrif á báða þessa þætti. Hljóðkerfi er ekki frekar en annað nein töfralausn, en sé slíkur búnaður notaður af ábyrgð getur hann haft mjög jákvæð áhrif á skólastarfið og möguleika allra nemenda til náms. 

Hefðbundin raddverndandi búnaður sem finna má í mörgum skólum hefur fyrst og fremst það markmið að hefja rödd kennarans (eða þess sem búnaðinn notar) uppfyrir önnur hljóð og gera það að verkum að röddin berist lengra án þess að kennarinn þurfi að brýna raustina. Þess konar búnaður kemur einnig í veg fyrir að nemendur þurfi að greina hvaðan röddin berst, þar sem hún berst alltaf úr sama hátalaranum og reynist því mörgum börnum með einhliða heyrnarskerðingu mikil hjálp. 

Á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er seldur Roger búnaður frá heyrnartækjaframleiðandanum Phonak, sá búnaður hefur það umfram annan að hægt er að tengja sendinn beint við heyrnartæki. Þannig geta börn sem nota heyrnartæki fengið raddir þeirra sem búnaðinn nota beint í tækin sín, líkt og þau væru með heyrnartól að hlusta á útvarp. Hljóðin í umhverfinu hafa þá minni áhrif á það hvernig raddirnar berast til barnanna. Auk þess má fá Soundfield hátalara í kennslustofuna svo sendirinn verði öllum börnum í stofunni til gagns.  

Kennsla á hljóðumhverfi

Tenglar 

Decibel eru dönsk samtök fyrir aðstandendur barna með heyrnarskerðingu. Þau gefa fjölbreytt ráð fyrir skólafólk. 

Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra – Félag fyrir foreldra barna með heyrnarskerðingu. 

Hlíðaskóli – grunnskóli þar sem íslenska og íslenskt táknmál eru samskiptamálin, þar eru kennarar sem hafa sérhæft sig í kennslu barna með heyrnarskerðingu. 

Hljóðvistarkröfur í umhverfi barna – bæklingur frá Umhverfisstofnun 

Kennsluumhverfið-hlúum að rödd og hlustun – Handbók eftir Dr. Valdísi Ingibjörgu Jónsdóttur 

Roger búnaður myndband sem sýnir vel hvernig búnaðurinn virkar. 

Soundfield -heimasíða á vegum Phonak þar sem möguleikar hljóðkerfis í skólastofu eru vel útskýrðir. 

Sólborg – Leikskólinn Sólborg er ráðgjafaskóli vegna barna með heyrnarskerðingu. 

Trap up er verkefni á vegum Erasmus þar sem þátttakendur sameinuðust um að útbúa fræðsluefni og gátlista sem gætu nýst í skólum barna með heyrnarskerðingu. 

Tenglar
Vista
Vefkökur samþykki og yfirlit
Við notum vefkökur til að betrumbæta notendaupplifun vefsins. Ef þú samþykkir ekki notkun vefkaka getur það bitnað á virkni og notkun hans.
Samþykki allar
Neita öllum
Lesa skilmála
Functional
Forrit sem eru notuð til að veita þér fleiri möguleika eins og til dæmis tengingu við samfélagsmiðla.
Osano
Vefkaka sem geymir tímabundið samþykki þitt á þessari vefsíðu
Samþykkja
Neita
Analytics
Forrit sem skráir og mælir skilvirkni vefsíðunnar. Greinir notkun gesta. Við notum þessar upplýsingar til að betrumbæta upplifun notenda.
Google Analytics
Rýnir í vefumferð á vefnum svo hægt sé betrumbæta hann.
Samþykkja
Neita