Skip to main content

Heyrnarskerðing

Heyrnarskerðing á sér oftast stað á löngu tímabili. Í byrjun reynist æ erfiðara að heyra lág hljóð sem og hljóð í umhverfi þar sem umhverfishljóð eru mikil. Það að greina talað mál getur einnig orðið erfitt. Viðkomandi heyrir en á í erfiðleikum með að greina það sem sagt er.

Heyrnarskerðing getur leitt af sér einangrun vegna þess að sá heyrnarskerti fer að forðast umhverfi og aðstæður þar sem hann á erfitt með að heyra. Heyrnarskerðingu er sjaldnast hægt að lækna en heyrnartæki geta komið að verulegu gagni og létt viðkomanda lífið.

Áreiðanlegar tölur um heyrnarskerta Íslendinga liggja ekki fyrir en ef miðað er við erlendar rannsóknir má gera ráð fyrir að allt að 10% þjóðarinnar sé heyrnarskert og þar af um 5% (um 16 þúsund manns) séu það mikið heyrnarskertir að þeir hafi gagn af því að nota heyrnartæki. Með hækkandi lífaldri fjölgar í hópi heyrnarskertra þar sem heyrnarskerðingu flestra má rekja til öldrunar.
Árlega fæðast 6 til 10 heyrnarskert börn á landinu. Rúmlega 200 börn á aldrinum 0-18 ára eru undir eftirliti hér á Heyrnar- og talmeinastöð og nota tæplega 170 þeirra heyrnartæki.

eyra  heyrnarskerding

 


Hvernig get ég heyrt betur? Hvaða þjónusta stendur til boða ef heyrnin versnar?

Miklu skiptir að bíða ekki of lengi eftir að þú finnur að heyrn er farið að hraka. Því fyrr sem þú leitar aðstoðar, þeim mun betur er hægt að hjálpa þér aðlagast versnandi heyrn.

Heyrn hrakar oft með hækkandi aldri og af ýmsum öðrum orsökum. Ef hljóðheimur þinn er þegar orðinn verulega skertur eru minni líkur á að þú sættist við þann nýja hljóðveruleika sem heyrnartæki geta veitt þér. Viðbrigðin gætu einfaldlega orðið of mikil.Ef þú bregst snemma við hrakandi heyrn eru líkur á að hægt sé að aðlaga heyrn þína jafnt og stöðugt yfir lengri tíma og viðbrigðin verði minni. Þú munt þá eiga auðveldar með að nýta þér heyrnartæki og önnur úrræði.Hér á eftir fylgir lýsing á því sem gerist ef þú ákveður að leita þér aðstoðar við heyrnarskerðingu:

  • Finndu áreiðanlega þjónustuaðila með sérþekkingu á heyrn og heyrnarskerðingu.
    Þetta geta verið heyrnarstöðvar s.s. Heyrnar-og talmeinastöð Íslands, heyrnarfræðingar og háls-nef og eyrnalæknar. Vertu viss um að þjónustuaðilinn bjóði upp á alla þjónustu og hafi yfir að ráða starfsfólki og tækni sem uppfyllir allar kröfur heilbrigðisyfirvalda. Söluaðilar heyrnartækja skulu hafa starfsleyfi heilbrigðisyfirvalda, slíkt starfsleyfi á að tryggja að þjónustan sem í boði er uppfylli allar kröfur.
  • Pantaðu tíma í heyrnarmælingu og aðstoð
    • Heyrnarfræðingur (og í sumum tilvikum læknir) munu skoða þig og taka sjúkrasögu þína. Þeir leita orsaka heyrnarskerðingarinnar, hvort hún sé af völdum of mikils eyrnamergs, sýkingar, afbrigðilegs vaxtar í eyra, aldurstengds heyrnartaps eða af öðrum orsökum. Heyrnarmæling er síðan framkvæmd til að mæla viðbrögð þín við ýmsum hljóðum á víðu tíðnissviði og á mismunandi hljóðsstyrk. Mæling og viðtal tekur u.þ.b. 1 klst og er algjörlega sársaukalaus. Útkoman hjálpar heyrnarfræðingi að finna lausn sem hentar þér best.
    • Ekki hika við að spyrja allra þeirra spurninga sem á þig leita og geta aukið skilning þinn og þekkingu á heyrn þinni. Því betur sem heyrnarfræðingurinn kynnist þér, umhverfi þínu og ástandi, þem mun betur getum við hjálpað þér.
  • Veldu heyrnartæki eða aðrar lausnir
    Heyrnarfræðingur notar niðurstöður mælingarinnar til að meta hvaða úrræði standa þér til boða og eru líklegust til að gagnast þér og þinni heyrnarskerðingu best. Ekki hika við að leita upplýsinga á eigin spýtur og gera vandlegan samanburð á þjónustu og tækni sem í boði er. Einkum skalt þú gera verðsamanburð því að oft getur miklu munað í verði sambærilegra tækja á markaðnum.
    Heyrnarfræðingur skal einnig upplýsa þig um hver greiðsluþátttaka almannatrygginga er í hverju tilviki. Við hvetjum þig einnig til að kanna hvort að stéttarfélög eða vinnuveitendur taka þátt í kostnaði við heyrnartæki eða aðrar lausnir.
    Mundu, að ekki er víst að dýrustu tækin á markaðnum séu endilega bestu tækin og að dýrustu og flóknustu tækin gagnast ekkert endilega sem lausn við þinni heyrnarskerðingu! Heyrn og heyrnarskerðing er afar persónubundin og sumum gagnast einfaldari tæki jafnvel betur en flókinn hátæknibúnaður.
    Við gefum þér ráð og upplýsingar en endanlegt val á lausn er alfarið í þínum höndum. Vandaðu því valið.
  • Mótataka og hlustarstykki
    Stundum er nauðsynlegt að sérsníða heyrnartæki fyrir þig og þá þarf að taka mót af eyranu og hlustinni svo hægt sé að smíða hlustarstykki sem fellur fullkomlega að hlust þinni. Þá tökum við mót af eyranu og hlustinni, mótið er síðan skannað í þrívíddar-skanna og eftir því móti er síðan smíðað hlustarstykki úr plasti eða sílikoni, sérsniðið að þínum þörfum. Þetta tekur nokkra daga og er gert á meðan heyrnartækin sjálf eru pöntuð.
  • Afhending heyrnartækja og fyrsta stilling
    Þegar heyrnartækin eru tilbúin er þér boðið í viðtal hjá heyrnarfræðingi sem fer vandlega yfir allt sem lýtur að notkun, viðhaldi og hreinsun nýju tækjanna. Tækin eru mátuð, tryggt að þau sitji rétt og valdi engum óþægindum. Þá eru tækin still í gegnum tölvu og stillingin er gerð í samræmi við útkomu heyrnarmælingarinnar til að tryggt sé að tækin bæti sérstaklega þau tíðnisvið sem veikust eru og dragi jafnvel úr óþægindum vegna annarra hljóða sem gera þér erfiðara með að greina þau hljóð sem skipta mestu máli. Miklu skiptir að t.d. talgreining, greining og skilningur á mannsröddum og tali, sé sem best með nýju tækjunum.
  • Heyrnarfræðingurinn lætur þig æfa ísetningu og meðferð tækjanna og hvernig best er að meðhöndla þau, viðhald, þrif o.s.frv. Vertu viss um að þú hafir fengið allar þær upplýsingar sem þú telur nauðsynlegar áður en þú gengur út með nýju heyrnartækin.
  • Að lokum er ákveðinn tími fyrir endurkomu og endurstillingu að loknu reynslutímabili (oftast 3-4 vikur).
  • Endurkoma/endurstilling
    Notaðu nýju tækin sem allra mest til að venjast þeim. Notaðu þau við sem fjölbreytilegastar aðstæður og hlustunarskilyrði til að prófa hvernig þau nýtast þér. Skráðu gjarnan hjá þér athugasemdir í dagbók á meðan á reynslutíma stendur svo að þú munir betur hvað er gagnlegt og hvað þú telur miður fara við daglega notkun. Í endurkomutíma er gott að fara yfir öll slík atriði með heyrnarfræðingnum til að tryggja að vankantar séu slípaðir af og þú sért sátt(ur) við tækin.
  • Heyrnarfræðingurinn endurstillir tækin ef þörf er á og fer yfir alla notkun til að tryggja að tækin nýtist þér sem best. Heyrnartæki eru töluverð fjárfesting og því er það sjálfsögð krafa að þau virki eins vel og mögulegt er hverju sinni.
    Mundu að það er 30 daga skilafrestur á öllum nýjum heyrnartækjum. Þú getur því skilað inn tækjum eða fengið ný tæki til prófunar ef að þú telur að tækin henti þér ekki einhverra hluta vegna.
  • Regluleg þjónusta tækja
    Þú getur ávallt leitað til okkar ef einhverjar spurningar vakna eða ef vandamál koma upp með heyrnartæki. Hægt er að mæta í opna tíma hjá Heyrnar- og talmeinastöð fyrir minniháttar aðstoð og stillingar en stundum þarf að bóka tíma ef talin er þörf á flóknari aðstoð. Hægt er að fá gert við biluð heyrnartæki, jafnvel samdægurs. Athugið að heyrnartæki koma með a.m.k. 2ja ára ábyrgð. Á vefsíðu okkar er hægt að fá upplýsingar um tímapantanir, opnunartíma, ýmsa fylgihluti og þjónustu (www.hti.is ).
  • Lærðu að njóta hljóðheimsins upp á nýtt !
    Það getur tekið dálítinn tíma að venjast heyrnartækjum, einkum ef heyrnartap hefur verið orðið verulegt áður en þú fékkst fyrstu heyrnartækin. Það getur tekið á þolinmæðina að venjast nýjum og ólíkum hljóðheimi sem tækin veita þér. Stilltu væntingum í hóf, engin heyrnartæki geta veitt þér fullkomlega náttúrulega heyrn við öll hlustunarskilyrði.

Þér er velkomið að hafa samband við okkur ef þú óskar frekari upplýsinga og allir söluaðilar heyrnartækja veita fjölbreytta þjónustu við viðskiptavini sína.

 

Gangi þér vel !


     

Heyrn, Heyrnarskerðing;

Vista
Vefkökur samþykki og yfirlit
Við notum vefkökur til að betrumbæta notendaupplifun vefsins. Ef þú samþykkir ekki notkun vefkaka getur það bitnað á virkni og notkun hans.
Samþykki allar
Neita öllum
Lesa skilmála
Functional
Forrit sem eru notuð til að veita þér fleiri möguleika eins og til dæmis tengingu við samfélagsmiðla.
Osano
Vefkaka sem geymir tímabundið samþykki þitt á þessari vefsíðu
Samþykkja
Neita
Analytics
Forrit sem skráir og mælir skilvirkni vefsíðunnar. Greinir notkun gesta. Við notum þessar upplýsingar til að betrumbæta upplifun notenda.
Google Analytics
Rýnir í vefumferð á vefnum svo hægt sé betrumbæta hann.
Samþykkja
Neita