Ígrædd heyrnartæki
Kuðungsígræðslutæki (CI) er hjálpartæki sem gefur alvarlega heyrnarskertu og heyrnarlausu fólki möguleika á að heyra hljóð. Tækið framkallar hljóðáhrif með því að örva heyrnartaugina með rafmagni. Kuðungsígræðslutækið er samsett úr innri hluta, sem er græddur í eyrað með aðgerð, og ytri búnaði, sem borinn er aftan við eyrað. Hlutinn sem græddur er í eyrað er samsettur úr viðtæki og rafskauti með mörgum rásum, en ytri hlutinn úr hljóðnema, sendi og talgervli sem er stilltur fyrir hvern og einn notanda. Talgervillinn er annað hvort vasatæki eða staðsettur bak við eyrað, svipað og hefðbundin heyrnartæki.Hvernig vinnur kuðungsígræðslutækið?
Kuðungsígræðslutækið vinnur þannig að hljóðneminn nemur hljóð og sendir það til talgervilsins sem greinir það og kóðar. Þaðan berst hið kóðaða hljóð til sendisins og flyst gegnum húðina til viðtækisins. Viðtækið breytir kóðanum í rafboð sem send eru til hinna ýmsu rafrása í rafskaut sem grætt er í kuðunginn. Rafboðin örva taugafrumur í kuðungi innra eyrans, sem og taugaenda heyrnartaugarinnar. Boðin sem berast eftir heyrnartauginni til heilans skynjar notandinn sem hljóð.Hér má sjá myndband um hvernig kuðungsígræðslutæki virka.