Heyrnar-og talmeinastöð sinnir reglubundnu eftirliti heyrnarskertra barna, sé heyrnarskerðingin ekki til komin vegna vökva í eyrum (ekki vegna leiðnitaps).  Barninu er vísað í málþroska-og eða framburðarmat af læknum eða heyrnarfræðingum Heyrnar-og talmeinastöðvar. Sé barnið mjög ungt er um ráðgjöf til foreldra að ræða.

Talmeinafræðingur hittir foreldra og ræðir möguleg áhrif heyrnarskerðingar á máltöku barnins. Allt fer þetta eftir heyrnarskerðingunni og hversu vel barnið nýtir heyrnartækin. Mikilvægt er að hefja strax öfluga málörvun þar sem lögð er áhersla á hlustun. Því fyrr sem barnið byrjar að hlusta og því er veitt heyrnræn málörvun því fyrr byrjar málið, talið og hlustunin að þroskast hjá barninu. Eldri börnum býðst talþjálfun hjá talmeinfræðingi,- talþjálfunin fer fram á Heyrnar-og talmeinstöð Íslands. Sett eru upp viðeigandi markmið í talþjálfun. Árangur talþjálfunar ákvarðast af heyrnarskerðingunni, áhuga barnins, samskiptamáta og stuðningi foreldra (tekið af www.aussiedeafkid.org.au).

 

Áhrif heyrnarskerðingar á málþroska ungra barna:  

Þróun heyrnarinnar tengist þróun heilans. Þegar boð frá eyrunum berast ekki til heilans fær barnið ekki þá málörvun sem það þarf. Þó að eyrað sé fullþroskað við fæðingu eru taugabrautir innan heilans ekki fullmótaðar. Það sama á við um þau svæði heilans sem sjá um málskilning og þróun talmáls. Heyrnin þróast þegar í móðurkviði og hljóðupplifun barnsins heldur áfram eftir fæðingu. Því fyrr sem byrjað er að meðhöndla barnið vegna heyrnarskerðingarinnar því meiri eru möguleikarnir á að málþroski barnsins verði aldurssvarandi. 

Tenglar: 

Aussie deaf kids - https://www.aussiedeafkids.org.au/

Hearing first - https://hearingfirst.org/

Ear foundation - https://www.earfoundation.org.uk/

Little ears - http://littleears.com.au/