Heyrnarsvið

 

1Þú átt erfitt með að skilja hvað aðrir segja

Þú heyrir hljóðin en greinir ekki orðin


2Þú átt erfitt með að heyra í hávaða

Veislur, veitingahús, samkvæmi, erfið hlustunarskilyrði sem geta reynst heyrnarskertum erfið


3Þú skilur illa raddir barna og kvenna

Heyrnarskertir eiga oft erfitt með að greina raddir sem eru á hærra tíðnisviði eða veikari


4Þú skiptir oft um eyra í símtölum

Að skipta í sífellu um eyra þegar hlustað er í síma getur bent til erfiðleika og þreytu vegna heyrnarskerðingar


5Þú ert með suð eða són í eyrum

Eyrnasuð(tinnitus)er algengt meðal heyrnarskertra


6Þú þreytist fljótt í samræðum

Ef mikil einbeiting við að hlusta á samræður leiðir til líkamlegrar og andlegrar þreytu er ástæðan skert heyrn


7Þú ert með sjónvarp of hátt stillt fyrir aðra

Ef þú þarft sífellt að hækka í sjónvarpinu eða aðrir biðja þig um að lækka í því ert þú líklega með skerta heyrn


8Aðrir segja þig tala of hátt eða óskýrt

Skert heyrn breytir því hvernig þú skynjar og heyrir hljóð og jafnvel eigin rödd og eigin framburð


Algengar spurningar

 

header adhear

Líma plástur bak við eyra - Smella tækinu á plásturinn - Heyra
adhear systemADHEAR er byltingi í beinleiðni heyrnartækjum (bone conduction technology) sem veitir notanda heyrn án skurðaðgerðar. Límdur er lítill plástur á bak við eyrað, með festingu fyrir ADHEAR tækið. Síðan er heyrnartækinu smellt á plásturinn og notandi heyrir strax hljóð sem leidd eru um bein höfuðs og inn í innra eyrað.  ADHEAR er eina beinleiðnitækið sem ekki setur neinn þrysting á húðina. Það er einstaklega þægilegt að bera og nota.

 • Áreynslulaus heyrn - Engin skurðaðgerð nauðsynleg
 • Áreiðanleg hlustun - 
  Helst örugglega á sínum stað og veitir góð hljómgæði
 • Þægindi allan daginn - 
  Enginn þrýstingur á húðina
 • Falleg hönnun - tækið má fela með hári 
 • Fyrir alla aldurshópa - kjörmeðferð fyrir smábörn

Hvernig virkar ADHEAR beinleiðnitæki?
ADHEAR er hannað fyrir fólk með mikla heyrnarskerðingu. Við þessa tegund heyrnarskerðingar skemmist ytra eða mið eyrað sem stöðvar hljóð frá því að berast innra eyra. En ADHEAR gefur fólki möguleika á að heyra hljóð án þess að nota ytri og mið eyra. Þess í stað titrar ADHEAR beinið fyrir aftan eyrað og sendir hljóð beint inn í innra eyrað og veitir náttúruleg hljóðgæði.

Að auki er ADHEAR einnig hægt að nota sem lausn fyrir einhliða heyrnarleysi, til að senda hljóð frá hliðinni sem ekki heyrir til „góðu hliðarinnar“.

Hvert ADHEAR kerfi er í tveimur hlutum: segul millistykki og hljóð örgjörvi. Þunnur segull festist við húðina rétt fyrir aftan eyrað, þar sem þú ert ekki með neitt hár. Hljóðgjörvinn smellir á þetta millistykki. Hljóðnemar þess taka upp hljóðin í kringum þig og síðan titrar það millistykkið til að senda þessi hljóð í innra eyrað. Báðir hlutar ADHEAR eru þægilegir í notkun og geta auðveldlega falist undir hári þínu.

Lærðu meira um hvernig ADHEAR virkar með því að horfa á þetta myndband.


 

Frekari upplýsingar hjá framleiðanda: https://www.medel.com/hearing-solutions/bone-conduction-system

 

Samkvæmt könnun frá 2011, sem lögð var fyrir heyrnarfræðinga í Svíþjóð, Noregi og á Íslandi, bendir margt til þess að íslenskir heyrnarfræðingar séu fastari í tæknihugsun en kollegar þeirra í Svíþjóð og Noregi. Ástæða þess getur verið margþætt en helst ber að nefna óskýrt lagaumhverfi í þessum málaflokki. Bæði í Svíþjóð og í Noregi er regluverk mun skýrara hvað varðar endurhæfingu heyrnarskertra en á Íslandi. Í Svíþjóð hafa hagsmunasamtök heyrnarlausra og heyrnarskertra til að mynda lagt fram skýra hugmynd um alla þá þætti sem mikilvægir eru við endurhæfinguna (Sjá www.hrf.se). Samkvæmt þeirri hugmynd er mikilvægt að endurhæfingin byggist á ýmsum öðrum þáttum en notkun heyrnartækja.

Heyrnarskerðing sem á rætur að rekja til innra eyrans flokkast undir krónískan (ólæknanlegan) sjúkdóm. Í innra eyranu eru tugir þúsunda af litlum hárfrumum sem gegna því hlutverki að breyta hljóðbylgjum í rafboð sem síðan berast með heyrnartauginni upp í heila. Þegar hárfrumurnar deyja hætta þær að geta sent þessi rafboð.

Krónískir sjúkdómar eiga það sameiginlegt að breyta lífsgæðum og lífsformi einstaklinga og þá oft til frambúðar. Endurhæfing heyrnarskertra á að fela í sér margþættar aðgerðir sem allar eiga að bæta stöðu hins heyrnarskerta í samfélaginu og stuðla að því að hann læri að lifa með heyrnarskerðingunni. Aðgerðirnar eiga að vera einstaklingsmiðaðar og leiða til þess að einstaklingurinn verði sjálfstæður og virkur þátttakandi í samfélaginu. Í gegnum tíðina hefur endurhæfing heyrnarskertra einstaklinga, bæði hér á landi og erlendis, í meginatriðum falist í notkun á heyrnartækjum og öðrum hjálpartækjum. Sú hugsun er að breytast hratt og áherslan á heildræna endurhæfingu er að ryðja sér til rúms á mörgum stöðum.

Í sænskum lögum stendur til að mynda að sjúklingar eigi rétt á endurhæfingu sem byggð sé á heildstæðri sýn. Einstaklingsmiðuð endurhæfing sem samanstendur af félagslegum, sálfræðilegum, læknisfræðilegum og tæknilegum inngripum, þar sem sjúklingurinn tekur virkan þátt í endurhæfingu, er bundin í lög. Þegar heyrnarskertur einstaklingur leitar sér aðstoðar á samkvæmt lögum að gera endurhæfingaráætlun fyrir hann þar sem heyrnarfræðingurinn og hinn heyrnarskerti setja í sameiningu niður raunhæf markmið. Norsk viðtalsrannsókn, sem var gerð í 15 sveitarfélögum árið 2006, sýnir að einstaklingum sem unnið var með í einstaklingsbundinni endurhæfingaráætlun fannst að þeir hefðu meiri stjórn á lífi sínu.

Í íslenskri löggjöf er ekki skýrt kveðið á um einstaklingsbundna endurhæfingaráætlun fyrir þá sem búa við heyrnarskerðingu. Umfjöllun um endurhæfingu heyrnarskertra og mikilvægi hennar er af skornum skammti. Á Íslandi hefur fyrst og fremst verið lagt upp úr notkun heyrnartækja sem er vissulega mikilvægur þáttur í endurhæfingunni en getur ekki staðið einn og sér. Það að láta einstakling fá heyrnartæki án frekari endurhæfingar og stuðnings er eins og að láta einstakling fá gervifót án þess að þjálfa hann í að nota hann. Heyrnartæki gefa einstaklingum með heyrnarskerðingu ekki eðlilega heyrn og það tekur oft langan tíma að aðlagast þeim. Því er nauðsynlegt að grípa til annarra skipulagðra aðgerða samhliða því að nota heyrnartæki.

eyraEðlileg heyrn byggist á því að allir hlutar eyrans og heyrnarbrautir heilans starfi eðlilega (mynd). Lögun ytra eyrans er þannig að það fangar hljóðbylgjur og beinir þeim inn í hlustina. Hljóðbylgjan skellur á hljóðhimnunni og setur hana á hreyfingu. Titringur hljóðhimnunnar hreyfir miðeyrnabeinin; hamar, sem er áfastur hljóðhimnunni, steðja og ístað. Ístaðið situr á himnu egglaga glugga sem er op á milli miðeyrans og innra eyrans. Innra eyrað samanstendur af kuðungi sem þjónar heyrninni og þrennum bogagöngum sem þjóna jafnvægisskyni og eru eins konar hallamælir líkamans. þegar ístaðið hreyfist myndast bylgja í vökvafylltum kuðungnum. Við hreyfingu vökvans sveigjast þúsundir hárfruma sem líkja má við hreyfingu þörunga á sjávarbotni þegar alda gengur yfir þá. Þegar hárfrumurnar hreyfast verða til rafboð sem flytjast til heyrnartaugarinnar. Heyrnartaugin sendir rafboðin til heilans sem túlkar boðin sem hljóð. Til þess að eyrað starfi eðlilega og veiti okkur eðlilegan aðgang að hljóðum þurfa allir hlutar þess að vera til staðar og starfa eðlilega.
 

Hvað er hljóð?

Hljóð er bylgjuhreyfing sem breiðist út í öreindum efnis eins og til dæmis lofts eða vatns. Tíðni hljóðs (sveiflutími) er mæld í hertzum (Hz). Styrkur hljóðsins er mældur í desibelum (dB). Tal samanstendur af hljóðum af mismunandi tíðni. Samhljóðar eru oftast á hærra tíðnisviði en sérhljóðar. Flest hljóð sem við heyrum í daglegu lífi eru samsett af mismunandi tíðni og mismiklum styrk. Heyrnarskerðing getur verið jöfn yfir allt tíðnisviðið eða komið fram á mismunandi tíðni.
Taktu heyrnarpróf!
Heyrnarskerðing á sér oft stað yfir lengri tíma og því tekur maður ekki alltaf eftir því þegar heyrninni fer að hraka. Hægt er að taka hljóðpróf með því að smella á hlekkinn hérna fyrir neðan. Heyrnarprófið er á ensku verið er að vinna í þýðingu. 
 

Heyrnarmælingar – hvað er prófað, hvernig og til hvers?

Hvernig er heyrnarmæling framkvæmd? Heyrnarfræðingar nota mismunandi aðferðir og tæki til að mæla heyrn þína. Þessar mælingar geta skorið úr um það hvort að heyrn þín er skert og þá hversu mikið.

 

Viðtal

Heyrnarmæling hefst með viðtali við heyrnarfræðing sem spyr þig spurninga sem tengjast heyrn þinni s.s:

Hvernig upplifir þú heyrn þína?

Er heyrnin betri á öðru eyranu?

Hefur þú  unnið í hávaða?

Hefur þú orðið fyrir slysum sem gætu hafa haft áhrif á heyrnina?

Þá er spurt um fjölskyldusögu, eru ættingjar þínir heyrnarskertir? o.s.frv.

 

Skoðun

Rannsókn hefst með skoðun á eyrum með sérstöku áhaldi sem kallast eyrnasjá (otoscope).
Með tækinu getur heyrnarfræðingur kannað ástand hlustar og hljóðhimnu. Að lokinni skoðun er heyrnin síðan mæld. Heyrnarmæling fer fram í hljóðeinangruðu rými eða sérstökum hljóðeinangruðum heyrnarklefa.

Loftleiðnimæling

Loftleiðnimæling  (pure tone test) kannar hversu vel eyru þín nema mismunandi tíðni og styrk hljóða. Hljóðin eru spiluð í sérstök heyrnartól. Hvort eyra fyrir sig er prófað og með því að styðja á hnapp gefur þú til kynna hvaða hljóð þú heyrir. Út frá svörun þinni er gerð mynd (heyrnarrit) af því hvernig þú heyrir.  Markmið mælingarinnar er að fá fram heyrnarþröskuld, þ.e.a.s. lægsta tón sem þú nemur.

Beinleiðnimæling

Í mörgum tilvikum gera heyrnarfræðingar einnig beinleiðnimælingu (bone conduction test).
Lítið beinleiðnitæki er sett við höfuðkúpubeinið aftan við eyrað. Beinleiðnimælingar eru notaðar til að meta ástand kuðungsins, farið er framhjá miðeyranu. Ef miðeyrað er eðlilegt þá er enginn munur á loftleiðni- og beinleiðnimælingu. Hinsvegar ef miðeyrað er skert þá er beinleiðni betri en loftleiðni. Beinleiðnitækið kemur titringi á höfuðkúpuna sem kemur af stað bylgjuhreyfingunum í kuðungi innra eyrans. Líkt og við loftleiðnimælingu  ýtir þú á hnapp við hvert hljóð sem þú nemur.

Niðurstöður heyrnarmælingar

Heyrnarritið (audiogram) sýnir niðurstöður heyrnarmælinga (sjá mynd). Á ritinu má sjá heyrnartap á mismunandi tíðni heyrnarinnar. Lóðréttu tölurnar á ritinu tákna hljóðstyrkinn (dB HL) og tölurnar á lárétt ásnum tákna tíðni hljóðsins (Hz). Rautt O er tákn fyrir hægra eyra og blár X er tákn fyrir vinstra eyra. Heyrnarfræðingur mun skýra fyrir þér niðurstöður og ráðleggur um mögulegar aðgerðir.

heyrnarmaeling

Talgreining

Talgreining eru hluti af mælingarferlinu. Markmið talgreiningar er að athuga hversu vel þú greinir talað mál í kjöraðstæðum. Röð orða eru spiluð á þæginlegum hljóðstyrk og þú endurtekur öll orð eftir bestu getu.

Þrýstimæling

Þrýstimæling (tympanometry) er notuð til að meta ástand miðeyrans. Þessi mæling er framkvæmd þannig að tappi er settur í hlust og loftþrýstingi breytt í hlustinni. Hljóðhimna hreyfist við breytingu á loftþrýstingi, fyrst inn og svo út ef allt er eðlilegt. Þessi mæling krefst ekki svörunar frá þér.  

Aðstaða og hernarklefar sjá mynd

 

 

Heyrnarskerðing á sér oftast stað á löngu tímabili. Í byrjun reynist æ erfiðara að heyra lág hljóð sem og hljóð í umhverfi þar sem umhverfishljóð eru mikil. Það að greina talað mál getur einnig orðið erfitt. Viðkomandi heyrir en á í erfiðleikum með að greina það sem sagt er.

Heyrnarskerðing getur leitt af sér einangrun vegna þess að sá heyrnarskerti fer að forðast umhverfi og aðstæður þar sem hann á erfitt með að heyra. Heyrnarskerðingu er sjaldnast hægt að lækna en heyrnartæki geta komið að verulegu gagni og létt viðkomanda lífið.

Áreiðanlegar tölur um heyrnarskerta Íslendinga liggja ekki fyrir en ef miðað er við erlendar rannsóknir má gera ráð fyrir að allt að 10% þjóðarinnar sé heyrnarskert og þar af um 5% (um 16 þúsund manns) séu það mikið heyrnarskertir að þeir hafi gagn af því að nota heyrnartæki. Með hækkandi lífaldri fjölgar í hópi heyrnarskertra þar sem heyrnarskerðingu flestra má rekja til öldrunar.
Árlega fæðast 6 til 10 heyrnarskert börn á landinu. Rúmlega 200 börn á aldrinum 0-18 ára eru undir eftirliti hér á Heyrnar- og talmeinastöð og nota tæplega 170 þeirra heyrnartæki.

eyra  heyrnarskerding

 


Hvernig get ég heyrt betur? Hvaða þjónusta stendur til boða ef heyrnin versnar?

Miklu skiptir að bíða ekki of lengi eftir að þú finnur að heyrn er farið að hraka. Því fyrr sem þú leitar aðstoðar, þeim mun betur er hægt að hjálpa þér aðlagast versnandi heyrn.

Heyrn hrakar oft með hækkandi aldri og af ýmsum öðrum orsökum. Ef hljóðheimur þinn er þegar orðinn verulega skertur eru minni líkur á að þú sættist við þann nýja hljóðveruleika sem heyrnartæki geta veitt þér. Viðbrigðin gætu einfaldlega orðið of mikil.Ef þú bregst snemma við hrakandi heyrn eru líkur á að hægt sé að aðlaga heyrn þína jafnt og stöðugt yfir lengri tíma og viðbrigðin verði minni. Þú munt þá eiga auðveldar með að nýta þér heyrnartæki og önnur úrræði.Hér á eftir fylgir lýsing á því sem gerist ef þú ákveður að leita þér aðstoðar við heyrnarskerðingu:

 • Finndu áreiðanlega þjónustuaðila með sérþekkingu á heyrn og heyrnarskerðingu.
  Þetta geta verið heyrnarstöðvar s.s. Heyrnar-og talmeinastöð Íslands, heyrnarfræðingar og háls-nef og eyrnalæknar. Vertu viss um að þjónustuaðilinn bjóði upp á alla þjónustu og hafi yfir að ráða starfsfólki og tækni sem uppfyllir allar kröfur heilbrigðisyfirvalda. Söluaðilar heyrnartækja skulu hafa starfsleyfi heilbrigðisyfirvalda, slíkt starfsleyfi á að tryggja að þjónustan sem í boði er uppfylli allar kröfur.
 • Pantaðu tíma í heyrnarmælingu og aðstoð
  • Heyrnarfræðingur (og í sumum tilvikum læknir) munu skoða þig og taka sjúkrasögu þína. Þeir leita orsaka heyrnarskerðingarinnar, hvort hún sé af völdum of mikils eyrnamergs, sýkingar, afbrigðilegs vaxtar í eyra, aldurstengds heyrnartaps eða af öðrum orsökum. Heyrnarmæling er síðan framkvæmd til að mæla viðbrögð þín við ýmsum hljóðum á víðu tíðnissviði og á mismunandi hljóðsstyrk. Mæling og viðtal tekur u.þ.b. 1 klst og er algjörlega sársaukalaus. Útkoman hjálpar heyrnarfræðingi að finna lausn sem hentar þér best.
  • Ekki hika við að spyrja allra þeirra spurninga sem á þig leita og geta aukið skilning þinn og þekkingu á heyrn þinni. Því betur sem heyrnarfræðingurinn kynnist þér, umhverfi þínu og ástandi, þem mun betur getum við hjálpað þér.
 • Veldu heyrnartæki eða aðrar lausnir
  Heyrnarfræðingur notar niðurstöður mælingarinnar til að meta hvaða úrræði standa þér til boða og eru líklegust til að gagnast þér og þinni heyrnarskerðingu best. Ekki hika við að leita upplýsinga á eigin spýtur og gera vandlegan samanburð á þjónustu og tækni sem í boði er. Einkum skalt þú gera verðsamanburð því að oft getur miklu munað í verði sambærilegra tækja á markaðnum.
  Heyrnarfræðingur skal einnig upplýsa þig um hver greiðsluþátttaka almannatrygginga er í hverju tilviki. Við hvetjum þig einnig til að kanna hvort að stéttarfélög eða vinnuveitendur taka þátt í kostnaði við heyrnartæki eða aðrar lausnir.
  Mundu, að ekki er víst að dýrustu tækin á markaðnum séu endilega bestu tækin og að dýrustu og flóknustu tækin gagnast ekkert endilega sem lausn við þinni heyrnarskerðingu! Heyrn og heyrnarskerðing er afar persónubundin og sumum gagnast einfaldari tæki jafnvel betur en flókinn hátæknibúnaður.
  Við gefum þér ráð og upplýsingar en endanlegt val á lausn er alfarið í þínum höndum. Vandaðu því valið.
 • Mótataka og hlustarstykki
  Stundum er nauðsynlegt að sérsníða heyrnartæki fyrir þig og þá þarf að taka mót af eyranu og hlustinni svo hægt sé að smíða hlustarstykki sem fellur fullkomlega að hlust þinni. Þá tökum við mót af eyranu og hlustinni, mótið er síðan skannað í þrívíddar-skanna og eftir því móti er síðan smíðað hlustarstykki úr plasti eða sílikoni, sérsniðið að þínum þörfum. Þetta tekur nokkra daga og er gert á meðan heyrnartækin sjálf eru pöntuð.
 • Afhending heyrnartækja og fyrsta stilling
  Þegar heyrnartækin eru tilbúin er þér boðið í viðtal hjá heyrnarfræðingi sem fer vandlega yfir allt sem lýtur að notkun, viðhaldi og hreinsun nýju tækjanna. Tækin eru mátuð, tryggt að þau sitji rétt og valdi engum óþægindum. Þá eru tækin still í gegnum tölvu og stillingin er gerð í samræmi við útkomu heyrnarmælingarinnar til að tryggt sé að tækin bæti sérstaklega þau tíðnisvið sem veikust eru og dragi jafnvel úr óþægindum vegna annarra hljóða sem gera þér erfiðara með að greina þau hljóð sem skipta mestu máli. Miklu skiptir að t.d. talgreining, greining og skilningur á mannsröddum og tali, sé sem best með nýju tækjunum.
 • Heyrnarfræðingurinn lætur þig æfa ísetningu og meðferð tækjanna og hvernig best er að meðhöndla þau, viðhald, þrif o.s.frv. Vertu viss um að þú hafir fengið allar þær upplýsingar sem þú telur nauðsynlegar áður en þú gengur út með nýju heyrnartækin.
 • Að lokum er ákveðinn tími fyrir endurkomu og endurstillingu að loknu reynslutímabili (oftast 3-4 vikur).
 • Endurkoma/endurstilling
  Notaðu nýju tækin sem allra mest til að venjast þeim. Notaðu þau við sem fjölbreytilegastar aðstæður og hlustunarskilyrði til að prófa hvernig þau nýtast þér. Skráðu gjarnan hjá þér athugasemdir í dagbók á meðan á reynslutíma stendur svo að þú munir betur hvað er gagnlegt og hvað þú telur miður fara við daglega notkun. Í endurkomutíma er gott að fara yfir öll slík atriði með heyrnarfræðingnum til að tryggja að vankantar séu slípaðir af og þú sért sátt(ur) við tækin.
 • Heyrnarfræðingurinn endurstillir tækin ef þörf er á og fer yfir alla notkun til að tryggja að tækin nýtist þér sem best. Heyrnartæki eru töluverð fjárfesting og því er það sjálfsögð krafa að þau virki eins vel og mögulegt er hverju sinni.
  Mundu að það er 30 daga skilafrestur á öllum nýjum heyrnartækjum. Þú getur því skilað inn tækjum eða fengið ný tæki til prófunar ef að þú telur að tækin henti þér ekki einhverra hluta vegna.
 • Regluleg þjónusta tækja
  Þú getur ávallt leitað til okkar ef einhverjar spurningar vakna eða ef vandamál koma upp með heyrnartæki. Hægt er að mæta í opna tíma hjá Heyrnar- og talmeinastöð fyrir minniháttar aðstoð og stillingar en stundum þarf að bóka tíma ef talin er þörf á flóknari aðstoð. Hægt er að fá gert við biluð heyrnartæki, jafnvel samdægurs. Athugið að heyrnartæki koma með a.m.k. 2ja ára ábyrgð. Á vefsíðu okkar er hægt að fá upplýsingar um tímapantanir, opnunartíma, ýmsa fylgihluti og þjónustu (www.hti.is ).
 • Lærðu að njóta hljóðheimsins upp á nýtt !
  Það getur tekið dálítinn tíma að venjast heyrnartækjum, einkum ef heyrnartap hefur verið orðið verulegt áður en þú fékkst fyrstu heyrnartækin. Það getur tekið á þolinmæðina að venjast nýjum og ólíkum hljóðheimi sem tækin veita þér. Stilltu væntingum í hóf, engin heyrnartæki geta veitt þér fullkomlega náttúrulega heyrn við öll hlustunarskilyrði.

Þér er velkomið að hafa samband við okkur ef þú óskar frekari upplýsinga og allir söluaðilar heyrnartækja veita fjölbreytta þjónustu við viðskiptavini sína.

 

Gangi þér vel !


     

Aðlögunartími

Það getur tekið nokkurn tíma að venjast því að vera með heyrnartæki. Þess vegna skiptir miklu máli strax í upphafi að gera sér grein fyrir því að það er fyrirhöfn að byrja að nota heyrnartæki. Það krefst vinnu og þolinmæði, bæði fyrir þann sem notar tækin og ekki síður fyrir þá sem hann umgengst daglega.
Þegar einstaklingur hefur fengið heyrnartæki fer hann að heyra aftur ýmis hljóð sem við viljum heyra en líka þau sem við oft og tíðum viljum ekki heyra. Það að heyra eigin rödd með heyrnartækjum eru mikil viðbrigði í fyrsta sinn. Það venst þó fljótt. Mikilvægt er að reyna markvisst að nota tækin allan daginn, við allar aðstæður.ánægðir heyrnartækjanotendur

Samskipti eru samvinna

Heyrnartæki nýtast best í samtölum við einstaklinga þar sem ekki er mikill annar hávaði. Þá geta tækin einnig nýst vel við að horfa á sjónvarp og hlusta á útvarp. Þegar þú færð heyrnartæki í fyrsta sinn er gott að láta vini og vandamenn vita að nú sért þú búin(n) að fá heyrnartæki og því þurfi ekki að hækka róminn þegar talað er til þín.
Sjónin er mikilvægur stuðningur fyrir þá sem eru heyrnarskertir og því skiptir miklu máli að snúa andlitinu að fólki þegar talað er við það og þess gætt að birta sé góð.

Æfingin skapar meistarann. Vertu því dugleg(ur) að nota tækin við mismunandi aðstæður. Farðu út að ganga og hlustaðu á hljóðin í náttúrunni. Æfðu þig í að lesa upphátt. Smátt og smátt finnurðu við hvaða aðstæður tækin hjálpa þér að heyra betur.
Skrifaðu hjá þér punkta um allar þær aðstæður eða hljóð sem þér finnst óþægileg og ræddu í næstu komu til heyrnarfræðings. Það er hægt að endurstilla heyrnartækin og einnig er nú hægt að setja upp sérstök kerfi fyrir mismunandi hlustunarskilyrði. Þá getur þú með einfaldri aðgerð skipt á milli kerfa, allt eftir því hvort að þú ert á eintali innanhúss, í fjölmenni eða t.d. að hlusta á tónlist.

 

Með öllum nýjum heyrnartækjum fylgja leiðbeiningar um notkun og umhirðu. Kynntu þér vandlega meðferð heyrnartækjanna þinna. Ending þeirra ræðst af umhirðu og hreinsun. Mikilvægt er að hreinsa þá hluti sem fara inn í hlustina því að í tækið getur safnast mergur og ýmis óhreinindi.

Nauðsynlegt er að skipta um slöngur, mergsíur og jafnvel fleiri hluti.

Hér að neðan má sjá hlekk á leiðbeiningar um hvernig hreinsa skal hlustarstykki.

Að hreinsa hlustarstykki.

Þá er hægt að smella á hlekkinn hér að neðan til að skoða einföld myndbönd frá Widex heyrnartækjaframleiðandanum, sem segja hvernig skipta skal um rafhlöður o.fl.

http://www.widex.com/en/products/maintenance/

 

Að skipta um rafhlöður:

Með því að smella á þennan hlekk: https://www.youtube.com/embed/YWeqg7f-dY0

getur þú skoðað myndband sem lýsir því hvernig skipt er um rafhlöðu í "bak-við-eyrað" heyrnartækjum.

 

Þessi hlekkur: https://www.youtube.com/embed/iEEeRCgng_w

sýnir hvernig skipt er um rafhlöður í "Inn-í-eyra" heyrnartækjum

 

 

Það þarf að þrífa hlustarstykki reglulega til að hreinsa burtu raka og eyrnarmerg.

Leiðbeiningar um hvernig hreinsa á hlustarstykki.

 1. Hlustarstykkið og slangan eru losuð frá heyrnartækinu.
 2. Hlustarstykkið er skolað með volgu vatn.
 1. Hlustarstykkið og slangan eru lögð í skál með mildu sápuvatni.
 2. Látið liggja í 5 - 10 mínútur, þannig að óhreinindi og eyrnarmergur leysist upp. Notið ekki oddhvassa hluti við að hreinsa hlustarstykkið.
 1. Skolið hlustarstykkið undir rennandi vatni.
 1. Þurrkið hlustarstykkið með mjúkum klút. Best er að fjarlæga vatn með því að nota belg. Oddinum á belgnum er stungið inn í slönguna og blásið þar til allir vatnsdropar eru horfnir. Ef það er loftrás  hlustarstykkinu þarf að einnig að blása í gegnum hana.
 2. Hlustarstykkinu með slöngunni er komið fyrir á heyrnartækinu aftur. Slangan sem tengir saman heyrnartækið og hlustarstykkið á alltaf að vera mjúk. Ef slangan er hörð eða farin að gulna þarf að skipta um hana.