Kynning á heyrnarfræði
Háskólamenntaðir heyrnarfræðingar á Íslandi – Kynning: Urður Björg Gísladóttir
Heyrnar- og talmeinastöð Íslands hefur áhuga á því að kynna heyrnarfræði og störf heyrnarfræðinga fyrir landsmönnum og í þetta skiptið höfum við kallað til okkar ungan heyrnarfræðinga, Urði Björgu Gísladóttur, sem starfar sem heyrnarfræðingur hjá HEYRN í Kópavogi.
HTÍ: Sæl Urður, við ætlum aðeins að ræða upplifun þína af starfinu og hvað leiddi til þess að þú namst heyrnarfræði ?
Urður (UBG): Já, ég fór til Gautaborgar 2018 og hóf þar nám í heyrnarfræði við háskólann þar í borg. Það var mjög gaman, þetta voru mínar æskuslóðir, foreldrar mínir stunduðu nám í Gautaborg og því mjög gaman að koma til baka þó að stökkið úr leikskóla-sænskunni, sem enn var til staðar og yfir í háskóla-sænsku og byrja að nota sænsku á akademísku stigi, væri nokkuð mikið en hjálpaði samt. Síðan er mjög sterkt íslensk samfélag í Gautaborg og flestir Íslendingar fljótir að ná sænskunni og aðlagast samfélaginu.
Fyrirlestrar voru að mestu á sænsku en lesefni bæði á ensku og sænsku.
HTÍ: Var þetta stór hópur í árgangi?
UBG: Það eru svona 30 sem byrja en ekki endilega 30 sem klára, segir Urður og hlær. Bekkurinn heldur vel saman út allt námið og systur-nám þeirra er talmeinafræði og þeir hópar fylgjast nokkuð vel að.
HTÍ: Nú er heyrnarfræði kennd í ýmsum Evrópulöndum. Skoðaðir þú aðra háskóla eða var þetta augljóst val í þínum huga?
UBG: Nokkuð augljóst, já. Það var í raunar ekki annað sem kom til greina. Móðir mín nam heyrnarfræði við þennan háskóla svo að valið var frekar einfalt.
HTÍ: Nú er heyrnarfræðinám aðeins mismunandi eftir löndum. Við hjá HTÍ höfum mikið ráðið inn heyrnarfræðinga frá Norðurlöndum þar sem við teljum námið í t.d. Noregi og Svíþjóð mjög sterkt. Vissir þú nákvæmlega hvað þú varst að fara út í eða kom eitthvað þér á óvart þegar þú varst komin á leið með námið ?
UBG: Svosem ekki margt sem kom á óvart. Auðvitað var dálítið snúið að vera að læra nýtt tungumál samhliða náminu. Ég átti von á að námið snerist að miklu leyti um líffræði og tækni og sálfræði en mér kom kannski mest á óvart hvað tækni-þátturinn var skemmtilegur. Þetta nám er skemmtilega blanda af ólíkum greinum sem allar nýtast þó vel og tengist vel.
HTÍ: Hvað er tæknihlutinn stór ? Er þetta nær verkfræði eða nær sálfræði og félagsþjónustu ? Er tækni flókin?
UBG: Þetta er hljóðtækni og maður er ekkert mikið í reikningj eða tölfræði en þetta er svo áhugavert þó að þarna sé einn reiknikúrs. En það er farið svo mikið inní í hvernig hljóð virkar. Við fórum t.d. í heimsókn inn í Chalmers, tækni- verkfræðiháskólann í Gautaborg, og skoðuðum þar sérstakt hljóðeinangrað herbergi þar sem hljóðið er í raun alveg dautt. Þú gengur inn á neti svo að allt hljóð er drepið. Ef maður er skilinn þarna eftir í smá stund er þögnin svo alger að maður fer að heyra suð í eyrum og eiginn hjartslátt o.s.frv. Heilinn skrúfar upp í ,,viðtækinu“ ef svo má segja og fólk þolir ekki lengi við. Það var mjög gaman að koma í vettvangsheimsókn þangað en þá sá maður líka hvað heyrnarfræðinámið er í raun langt frá hljóðverkfræði.
HTÍ: Nú fer fólk ýmist í heyrnarfræði úr öðrum heilbrigðistengdum greinum eða beint eftir stúdentsnám. Hvaða leið fórst þú? Hafði þú e-ja aðra menntun til að byggja á?
UBG: Ég var búin að prófa eitt og annað, fór t.d. í læknisfræði í 1 og ½ ár, prófaði síðan lyfjafræði eftir að hafa skoðað verkfræði aðeins. Svo að ég var búin að viða að mér ýmsu áður en ég ákvað að prófa heyrnarfræðina.
HTÍ : Læknisfræðin og lyfjafræðin hafa nú mögulega byggt grunn í vissum greinum sem þú kynntist síðan í heyrnarfræðinni?
UBG: Já, þannig að þegar ég byrjaði í heyrnarfræðinni voru áfangar í eðlisfræði og líffræði sem ekki var farið mjög djúpt í og þar hafði ég þegar góðan grunn og hjálpaði mér mikið.
HTÍ: Hvað þykir þér skemmtilegast við heyrnarfræðingsstarfið?
UBG: Ég held að það sé endurhæfingin, að koma fólki af stað til að heyra á nýjan leik. Það er áskorun en jafnframt skemmtileg áskorun. Hvers konar hljóð hentar þessari manneskju, að sérsníða heyrnartæki að hverri manneskju.
HTÍ: Heyrnarskerðing er einmitt mjög einstaklingsbundið og getur verið krefjandi að útskýra það fyrir fólki, ekki satt? Þykir þér þekking fólks nægileg?
UBG: Sumir eru vel upplýstir en mjög margir koma alltof seint og væntingarnar kannski of miklar. Fólk heldur að það geti labbað út með fullkomna heyrn. En það er ekki svo, maður þarf að þjálfa upp það sem hefur tapast á löngum tíma yfirleitt.
Kannski er mest nauðsyn á að efla fræðslu og forvarnir gegn hávaða hér á landi. Í Svíþjóð eru mjög skýrar reglur um t.d. hávaðamörk til að vernda heyrn almenning en mér þykir ekki nóg að gert hér heima til að fræða unga og fullorðna um forvarnir gegn hávaða. En hávaði er einmitt ein helsta orsök heyrnartaps hjá bæði unglingum og fullorðnum.
HTÍ: Alveg sammála þarna. Það þarf að auka verulega þekkingu almennings, ungmenna, foreldra, kennara, viðburðahaldara o.s.frv. á mikilvægi þess að gæta að hávaðavörnum. WHO gaf nýlega út leiðbeiningar í þessa veru og Vinnueftirlitið hefur sömuleiðis unnið að þessu en yfirvöld þurfa að ganga lengra. Ungt fólk t.d. er stöðugt með hávaða í eyrum og þar gæti verið tifandi tímasprengja. Eruð þið farin að sjá ungmenni með merki um skerta heyrn vegna hávaða?
UBG: Nei ekkert mynstur, þessi kynslóð er kannski ekki komin með nógu mikla skerðingu og flestir leita sér ekki hjálpar fyrr en einkenni hafa verið viðvarandi og lengi.
HTÍ: Hvernig gekk Svíum að bera fram hið forna og al-íslenska nafn Urður ?
UBG: (hlær) Það gekk nú bara ágætlega hjá þeim, svona á sinn hátt. Mér þótti bara skemmtilegt að heyra aftur nafnið mitt einsog ég hafði vanist því að heyra það sem barn ,,Urdur“.
HTÍ: Námið er eitt en raunveruleikinn en starfið kannski annað. Fannst þér starfið eðlilegt framhald af náminu eða kom eitthvað á óvart?
UBG: Í raun fannst mér starfið vera ,,meira“ en ég bjóst við, ef satt skal segja. Það sem ég hafði kynnst í starfsnámi úti var miklu rólegra heldur en blasti síðan við manni hér. Það er mikill skortur á heyrnarfræðingum hér og því verður vinnan kannski aðeins meiri og meira krefjandi en ég átti von á. En hún er skemmtileg og fjölbreytt og við Íslendingar eru vön því að þurfa að vinna einsog þörf er á. Svíarnir eru kannski aðeins meira ,,ósveigjanlegir“ hvað varðar vinnutíma og vinnuálag. Ég hélt að ég þekkti sænskan kúltúr ágætlega en þetta kom kannski einna mest á óvart, hversu reglufastir þeir eru miðað við íslenska vinnustaðamenningu. Mér finnst íslenski mátinn heldur skemmtilegri (hlær).
HTÍ: Hversu langt nám var þetta?
UBG: Ég tók BSc gráðu sem er 3ja ára nám.
HTÍ: Hefur þú hug á að bæta e-ð frekar við þig námi í framtíðinni? Eru e-jir þættir innan heyrnarfræðinnar sem þig mundi langa að dýpka þekkingu þína í ?
UBG: Sko, já. Ég byrjaði núna í haust í Mastersnámi í Öldrunarfræðum og hef hug á því að helda því áfram . Síðan er hægt að taka staka sérstaka áfanga og ætla t.d. að taka kúrs um eyrnamerg í háskólanum í Lundi, spennandi námsefni (skellihlær). Ég er mjög spennt fyrir því og hlakka til að heimsækja Lund, sem ég hef ekki komið til áður.
HTÍ: En hvernig sérð þú þróun heyrnarfræðinnar ? Persónubundin heyrnarhjálpartæki eru t.d. í umræðunni núna og komin lög og reglugerðir um slíkt í Bandaríkjunum. Heldur þú að t.d. gervigreind muni leysa heyrnarfræðinga af hólmi að e-ju leyti í framtíðinni?
UBG: Ja, það er góð spurning. En ég held að tæknin muni aldrei leysa manneskjuna af hólmi í þessum geira frekar en í almennri heilsugæslu. Við getum mælt og greint heyrnarskerðingu mun betur en sjálfs-mælingar eða einfaldar skimanir með tölvum og síðan eru heyrnarvandamál fólks oft svo margslungin og flókin og þurfa jafnvel inngrip annarra s.s. háls-nef og eyrnalækna o.s.frv. Stundum er fólk með heyrnartap út af orsökum sem hægt er að laga með öðru en heyrnartækjum o.s.frv. Við getum greint mismunandi tegundir og orsakir heyrnarskerðingar sem tæknin mun seint geta séð um sjálf. Einföld skimun sér ekki mun á loftleiðni og beinleiðni og talgreiningarpróf geta sagt okkur mikið um úrvinnslu heilsans á hljóði og gefur okkur vísbendingu um hvernig heyrnartæki geti eða muni nýtast viðkomandi einstaklingi, nokkuð sem erfitt er að sjá fyrir sér að gervigreind muni leysa. Saga sjúklinga og lýsing þeirra á skerðingu og afleiðingum skerðingar er síðan annar þáttur sem krefst þekkingar mannlegs meðferðaraðila að mínu mati.
HTÍ: Heldur þú að við munum sjá heyrnarfræðinám á Íslandi ? (Viðtalið var tekið áður en að gengið var frá samningum um fjarnám í heyrnarfræði við Örebro háskóla í samvinnu við Símenntun Háskólans á Akureyri)
UBG: Vonandi, til þess þarf auðvitað að fjölga heyrnarfræðingum og sérfræðingum sem geta kennt þessi fræði hér. Hér eru til staðar ýmsar háskóladeildir þar sem sumir kúrsar eru kenndir sem við lærðum úti svo að það ætti ekki að vera ómögulegt að færa heyrnarfræðinám inn í landið með tíð og tíma.
HTÍ: Ef að Ísland væri með sama hlutfall heyrnarfræðinga og t.d. Svíþjóð, þá þyrftu að vera um 40-45 háskólamenntaðir heyrnarfræðingar hér á landi. Fjöldi þeirra nær varla einum tug og þar af nokkrir gisti-heyrnarfræðingar erlendir! Hvað mundir þú segja við ungt fólk sem er að spá í hvort að heyrnarfræði gæti verið áhugavert nám ?
UBG: Ef fólk hefur áhuga á svona samanblöndu einsog heyrnarfræðistarfið er, þá mundi ég bara segja þeim að skella sér í námið. Starfið er svo fjölbreytt, við gerum mælingar og tæknilega hluti, við ræðum mikið við fólk og veitum ráðgjöf í samræmi við þarfir þeirra, nándin er töluverð, sálfræðilegi hlutinn er mikilvægur, síðan þarf að forrita tækin og finna ýmsar lausnir til að heyrnarskertir geti tekið fullan þátt og missi ekki af neinu í hljóðumhverfi sínu. Þetta snýst mikið um að kenna og fræða. Og sá þáttur eykst stöðugt eftir því sem tæknilausnum fjölgar. Þá þarf að finna réttu lausnina fyrir hvern og einn, unga og aldraða. Samskipti við fólk og lausnamiðað starf er a.m.k. eitthvað sem ég finn mig vel í.
HTÍ: Hver er mesta áskorunin í starfinu ?
UBG: (hugsar sig aðeins um): Það er þá helst flóknari tilfelli svo sem einhliða skerðing eða heyrnarleysi eða eitthvað sérstakt. Sumir sjúkdómar valda sveiflukenndri heyrn og geta verið snúnir að glíma við. Smæð stéttarinnar er líka vandamál, hvert getur maður snúið sér. Aukin samvinna innan stéttar væri til bóta.
HTÍ: Einn hópur á erfitt með að nýta þjónustu okkar en það er mjög fullorðið heyrnarskert fólk eða jafnvel með bæði sjón- og heyrnarskerðingu. Þetta fólk er oft á þjónustustofnunum fyrir aldraða, á erfitt með að sækja þjónustu utan stofnan og á erfitt með að nota örsmá heyrnartæki og engir í umhverfi þeirra sem kunna eða geta aðstoðað. Rekið þið á einkastöðvunum ykkur á þetta vandamál?
UBG: Já, það er oft áskorun ef aldraðir geta ekki sett tækin í eyrun, ekki skipt um rafhlöður, ekki hreinsað tækin o.s.frv. Sum eru svo heppin að þau eiga aðstandendur sem mæta með þeim í tíma og stillingar og læra á tækin og hvernig er hægt að aðstoða eldri ættingja sína. En því miður hittum við oft einstaklinga með takmarkaðar fínhreyfingar eða skerta sjón og þá getur verið snúið að finna lausnir sem gagnast þeim til að fá betri heyrn. Best er ef að ábyrgðin er ekki bara í höndum þess heyrnarskerta og að fólk í umhverfi þeirra geti aðstoðað og lært að umgangast hinn heyrnarskerta, hvernig er best að eiga samskipti svo að heyrnin nýtist best.
HTÍ: Við óskum stundum eftir því að ekki aðeins börn mæti heldur jafnvel barnabörn því að tæknin er stundum orðin nokkuð flókin, uppsetning appa í snjallsíma o.s.frv. Okkar reynsla er sú að barnabörnin vilja mjög gjarnan læra og kenna afa eða ömmu á tæknina.
UBG: Já, það er snjöll lausn og öll aðstoð skyldmenna, barna og barnabarna getur sparað endurkomur til að kenna á tæki og tækni.
HTÍ: Nú er heyrnarskerðing oft kölluð „Falda fötlunin“ og henni oft fylgt einhver skömm eða þöggun. Einkum er það eldra fólk sem telur heyrnartap vera öldrunarmerki og vill ekki viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum að það sé heyrnarskert. Og við erum kannski ekki að hjálpa með því að hamra stöðugt á því að við bjóðum sífellt minni og ósýnilegri heyrnartæki og lausnir. Þannig erum við í raun að halda fötluninni ósýnilegri! Hvernig telur þú að við getum unnið bug á þessari skömm og gert fólki auðveldara með að viðurkenna fötlunina fyrir sjálfum sér og öðrum?
UBG: Mér finnst þetta vera að snúast örlítið við. Líkt og snjallsímarnir voru sífellt að minnka þá eru þeir farnir að stækka aftur og nú eru að koma fram heyrnarlausnir sem eru stærri og sýnilegri, líta nánast út einsog hljómflutnings-heyrnartól en vinna eins og heyrnartæki. En við höfum vissulega verið dálítið að viðhalda þessu að ,,fela“ heyrnarskerðinguna en það þarf enginn að skammast sín fyrir að vera með heyrnartæki og það er miklu skemmtilegra og betra að geta tekið þátt í umræðum og félagslífi og fjölslkyldusamveru heldur en að heyra ekki
HTÍ: Finnst þér nóg að gert í að bæta umhverfi heyrnarskertra, reglugerðir og slíkt ef við t.d. miðum við önnur lönd eða getum við bætt eitthvað í aðgengi heyrnarskertra að umhverfi, heyrnarlausnum, greiðsluþátttöku og slíku ?
UBG: Ja, það er mikill munur á t.d. Svíþjóð og Noregi hvað heyrnarþjónustu varðar og þ.á.m. kostnaður sem heyrnarskertir þurfa að bera sjálfir. Aðgengi er ekki gott fyrir marga hér á landi og stuðningur mætti vera meiri á ýmsum sviðum. Fræðslu þarf að auka og það mundi hjálpa samfélaginu öllu ef að fólk fær stuðning til að heyra betur. Heyrnarskertir fjarlægjast fjölskyldu, hætta í vinnu og valda samfélaginu miklum kostnaði og það er alvarlegt. Við þurfum líka að hjálpa fólki til að átta sig á því að ástand þeirra er ekki eðlilegt. Ástæðan fyrir bágri félagslegri stöðu er oft vegna slæmrar heyrnar þó að viðkomandi átti sig ekki á því. Heyrnarskertir draga sig smátt og smátt í hlé og lífsgæði versna stöðugt og það getur verið dýrt fyrir samfélagið allt.
HTÍ: Þakka þér kærlega fyrir spjallið, Urður, og gangi þér vel í þínu mikilvæga starfi. Bestu þakkir.
Birt: Apríl 2024