Skip to main content

Greinar

Þjónusta Heyrnar- og talmeinastöðvar

Stefna HTÍ er að hjálpa heyrnarskertum og heyrnarlausum til að njóta þess skynfæris sem heyrnin er sem og að aðstoða börn og fullorðna með talmein sem flokkast undir þjónustusvið HTÍ.

Starfssvið HTÍ markast af lögum um stofnunina (frá 2005) og starfsemin fellur undir heilbrigðismál.  Fjöldi starfsmanna á árinu 2024 var 23 í u.þ.b. 19,8 stöðugildum.
Starfsstöðvar eru í Reykjavík og á Akureyri ásamt móttöku á Sauðárkróki. Mannekla og langvinnur niðurskuður hefur leitt til þess að stofnunin hefur ekki geta boðið reglulega móttöku á öðrum stöðum síðustu ár.

Stofnunin er miðstöð heyrnarfræðiþjónustu í landinu og eina opinbera heyrnarþjónustustofnun landsins. HTÍ ber að sinna öllum landsmönnum. Undir heyrnarsvið falla 12,5 stöðugildi heyrnarfræðinga, lækna, heyrnartækna og aðstoðarfólks.

Á Talmeinasviði starfa nú aðeins 3 talmeinafræðingar og annast fjölbreytta þjónustu við heyrnarskerta, börn og fullorðna, skarðabörn, kuðungsígræðsluþega o.m.fl.

Mikil þörf er að auka við bæði talmeina- og heyrnarþjónustu HTÍ, bæta forvarnir, mennta fleiri fagaðila og auðvelda heyrnarskertum aðgengi um land allt. Þá þarf að bæta verulega fræðslustarf til foreldra, kennara og umönnunaraðila heyrnarskertra barna, fræðslu og þjálfun þeirra sem sinna öldruðu fólki með heyrnarskerðingu sem og almenna fræðslu til almennings og yfirvalda.

Sálfræðiþjónusta

Sálfræðiþjónusta á Heyrnar- og talmeinastöð

Sálfræðingur Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands veitir heyrnarskertum börnum og aðstandendum þeirra stuðning og ráðgjöf eftir þörfum hvers og eins, bæði í kjölfar greiningar sem og síðar í ferlinu. Auk þess tekur sálfræðingurinn þátt í fræðslustarfi, námskeiðahaldi og þverfaglegu starfi innan stofnunarinnar.

Þegar barn greinist með heyrnarskerðingu getur foreldrum fundist sem fótunum hafi verið kippt undan þeim. Öryggisleysi og áhyggjur af eigin getu til að fullnægja þörfum barnsins og áhyggjur af framtíðinni geta gert vart við sig. Vanmáttartilfinning, viðkvæmni, pirringur, reiði, sektarkennd, depurð og kvíði eru tilfinningar sem margir finna fyrir. Einnig geta samskiptaerfiðleikar, erfiðleikar við að takast á við álag og einbeita sér að verkefnum í kjölfar greiningarinnar orðið áberandi.

Algeng viðbrögð barna eru ótti og öryggisleysi og ýmsar hegðunarbreytingar. Barnið getur virkað ósjálfstæðara, haft aukna þörf fyrir nálægð og athygli og hangið utan í foreldrunum. Vanlíðan barna getur einnig birst sem tilfinninga- og skapsveiflur, pirringur, depurð eða leiði, svefntruflanir, einbeitingarörðugleikar eða kvartanir um líkamlegt ástand, til dæmis höfuð- og magaverk.

Slíkir erfiðleikar eru þó ekki eingöngu bundnir við fyrstu mánuðina eftir greiningu heldur geta þeir komið upp síðar í ferlinu, til dæmis í tengslum við aukinn þroska og breyttar aðstæður. Markmið sálfræðiþjónustu HTÍ er að veita fjölskyldum og aðstandendum heyrnarskertra barna fræðslu og stuðning við að aðlaga sig að breyttum aðstæðum og draga úr erfiðleikum sem þeim geta fylgt.


Hægt er að bóka tíma hjá sálfræðingi í síma 581 3855.