Sálfræðiþjónusta á Heyrnar- og talmeinastöð
Sálfræðingur Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands veitir heyrnarskertum börnum og aðstandendum þeirra stuðning og ráðgjöf eftir þörfum hvers og eins, bæði í kjölfar greiningar sem og síðar í ferlinu. Auk þess tekur sálfræðingurinn þátt í fræðslustarfi, námskeiðahaldi og þverfaglegu starfi innan stofnunarinnar.Þegar barn greinist með heyrnarskerðingu getur foreldrum fundist sem fótunum hafi verið kippt undan þeim. Öryggisleysi og áhyggjur af eigin getu til að fullnægja þörfum barnsins og áhyggjur af framtíðinni geta gert vart við sig. Vanmáttartilfinning, viðkvæmni, pirringur, reiði, sektarkennd, depurð og kvíði eru tilfinningar sem margir finna fyrir. Einnig geta samskiptaerfiðleikar, erfiðleikar við að takast á við álag og einbeita sér að verkefnum í kjölfar greiningarinnar orðið áberandi.
Algeng viðbrögð barna eru ótti og öryggisleysi og ýmsar hegðunarbreytingar. Barnið getur virkað ósjálfstæðara, haft aukna þörf fyrir nálægð og athygli og hangið utan í foreldrunum. Vanlíðan barna getur einnig birst sem tilfinninga- og skapsveiflur, pirringur, depurð eða leiði, svefntruflanir, einbeitingarörðugleikar eða kvartanir um líkamlegt ástand, til dæmis höfuð- og magaverk.
Slíkir erfiðleikar eru þó ekki eingöngu bundnir við fyrstu mánuðina eftir greiningu heldur geta þeir komið upp síðar í ferlinu, til dæmis í tengslum við aukinn þroska og breyttar aðstæður. Markmið sálfræðiþjónustu HTÍ er að veita fjölskyldum og aðstandendum heyrnarskertra barna fræðslu og stuðning við að aðlaga sig að breyttum aðstæðum og draga úr erfiðleikum sem þeim geta fylgt.
Hægt er að bóka tíma hjá sálfræðingi í síma 581 3855.