Dagur Heyrnar 2021 - Heyrn og lífsgæði
Á degi heyrnar þann 3. Mars er ekki úr vegi að benda á þau lífsgæði sem felast í því að heyra vel. Við tökum því flest sem sjálfsögðum hlut að geta farið í leikhús eða á tónleika, að geta talað án vandræða í síma, fylgst með samfélagsumræðu í sjónvarpi eða útvarpi, hlustað á hljóðbækur og almennt notið þess að vera innan um fólk og spjalla um daginn og veginn.
Góð heyrn er ekki sjálfgefin og því þarf að leiða hugann að henni eins og öðrum lífsgæðum. Herynarskerðing gerist sjaldan á einni nóttu. Oftast er um að ræða hægfara ferli og því á fólk oft erfitt með að átta sig á að það sé farið að heyra illa. Við erum þeim hæfileikum búin að aðlagast breyttum aðstæðum og þá sérstaklega breytingum sem gerast hægt og rólega. Að lokum kemur þó að því að heyrnarskerðingin fer að hafa veruleg áhrif á daglegt líf fólks, bæði líkamleg og sálræn. Stoðkerfisvandamál eins og höfuðverkur og vöðvabólga eru oft fylgikvillar þess að heyra illa. Það stafar af því að fólk með heyrnarskerðingu þarf oft að einbeita sér meira til þess að heyra og skilja það sem fram fer í kringum það og úrvinnsla upplýsinganna krefst einfaldlega meiri orku en þegar heyrn er góð. Talað er um að sálræn áhrif heyrnarskerðingar geti verið kvíði og einangrun. Einstaklingar með heyrnarskerðingu njóta þess síður en aðrir að vera innan um annað fólk.
Það er til mikils að vinna að grípa inn í það ferli sem heyrnarskerðing er og leita sér hjálpar en frá því að fólk verður fyrst vart við að heyrn þess sé að skerðast líða gjarnan tíu ár þar til það gerir eitthvað í málunum. Oft eru það ættingjar eða vinir sem fyrst verða varir við heyrnarskerðingu viðkomandi. Fyrstu merki heyrnarskerðingar geta verið margs konar en ástæða er til að leita sér aðstoðar ef:
- þér finnst erfitt að tala í síma;
- þér finnst eins og annað fólk sé almennt óskýrt eða þvoglumælt;
- þér finnst erfitt að skilja það sem þú heyrir;
- þú þarft að biðja aðra um að endurtaka það sem sagt var;
- þú verður þreytt/ur eftir að hafa verið innan um fólk;
- þú átt erfitt með að átta þig á því hvaðan hljóð berst
- þú reynir að forðast margmenni.
Dagur heyrnar er hvatning til okkar að huga að heyrn okkar og taka henni ekki sem sjálfsögðum hlut. Það fylgja því mikil lífsgæði að hafa góða heyrn.
Höfundur:Kristbjörg Gunnarsdóttir, Heyrnarfræðingur
heyrnartæki, Heyrnarskerðing;, dagur heyrnar, who, lífsgæði, #worldhearingday, #safelistening, #hearingcare, #hearathon2021