Skip to main content

Dagur Heyrnar 2021 - Heyrn og lífsgæði

Dagur Heyrnar 2021 m greinum
Á degi heyrnar þann 3. Mars er ekki úr vegi að benda á þau lífsgæði sem felast í því að heyra vel. Við tökum því flest sem sjálfsögðum hlut að geta farið í leikhús eða á tónleika, að geta talað án vandræða í síma, fylgst með samfélagsumræðu í sjónvarpi eða útvarpi, hlustað á hljóðbækur og almennt notið þess að vera innan um fólk og spjalla um daginn og veginn.

Góð heyrn er ekki sjálfgefin og því þarf að leiða hugann að henni eins og öðrum lífsgæðum. Herynarskerðing  gerist sjaldan á einni nóttu. Oftast er um að ræða hægfara ferli og því á fólk oft erfitt með að átta sig á að það sé farið að heyra illa. Við erum þeim hæfileikum búin að aðlagast breyttum aðstæðum og þá sérstaklega breytingum sem gerast hægt og rólega. Að lokum kemur þó að því að heyrnarskerðingin fer að hafa veruleg áhrif á daglegt líf fólks, bæði líkamleg og sálræn. Stoðkerfisvandamál eins og höfuðverkur og vöðvabólga eru oft fylgikvillar þess að heyra illa. Það stafar af því að fólk með heyrnarskerðingu þarf oft að einbeita sér meira til þess að heyra og skilja það sem  fram fer í kringum það og úrvinnsla upplýsinganna krefst einfaldlega meiri orku en þegar heyrn er góð. Talað er um að sálræn áhrif heyrnarskerðingar geti verið kvíði og einangrun. Einstaklingar með heyrnarskerðingu njóta þess síður en aðrir að vera innan um annað fólk.

Það er til mikils að vinna að grípa inn í það ferli sem heyrnarskerðing er og leita sér hjálpar  en frá því að fólk verður fyrst vart við að heyrn þess sé að skerðast líða gjarnan tíu ár þar til það gerir eitthvað í málunum. Oft eru það ættingjar eða vinir sem fyrst verða varir við heyrnarskerðingu viðkomandi. Fyrstu merki heyrnarskerðingar geta verið margs konar en ástæða er til að leita sér aðstoðar ef:

  • þér finnst erfitt að tala í síma;
  • þér finnst eins og annað fólk sé almennt óskýrt eða þvoglumælt;
  • þér finnst erfitt að skilja það sem þú heyrir;
  • þú þarft að biðja aðra um að endurtaka það sem sagt var;
  • þú verður þreytt/ur eftir að hafa verið innan um fólk;
  • þú átt erfitt með að átta þig á því hvaðan hljóð berst
  • þú reynir að forðast margmenni.

Dagur heyrnar er hvatning til okkar að huga að heyrn okkar og taka henni ekki sem sjálfsögðum hlut. Það fylgja því mikil lífsgæði að hafa góða heyrn.

 

#WorldHearingDay

#safelistening
#hearingcare

#hearathon2021

Höfundur:Kristbjörg Gunnarsdóttir, Heyrnarfræðingur

Kristbjorg Gunnarsdottir passamynd

Dagur Heyrnar 2021 - Heyrnarheilsa fyrir alla!

Dagur Heyrnar 2021 m greinum
3. mars er Alþjóðadagur heyrnar, dagur sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin tileinkar heyrn. Í ár er dagurinn tileinkaður heyrnarheilsu fyrir alla. Þá mun fyrsta alþjóðlega skýrsla um heyrn verða birt en tilgangur hennar er að hvetja stjórnvöld í hverju landi til að móta stefnu innan heilbrigðiskerfisins um heyrnarheilsu.

Góð samskipti eru mikilvæg á öllum stigum ævinnar, þar getur heyrnarheilsa haft mikil áhrif. Ýmsar ástæður eru fyrir heyrnarskerðingu og sumar þeirra er hægt að fyrirbyggja með góðri heilbrigðisþjónustu og fræðslu. Í því samhengi má nefna bólusetningar fyrir sýkingum eins og hettusótt, mislingum, rauðum hundum o.fl, fræðslu um skaðsemi hávaða í umhverfi okkar, hávaðavarnir og hvernig ber að forðast heyrnarskemmandi hávaða.
Aðrar ástæður heyrnarskerðingar er erfiðara að fyrirbyggja og eru arfgengar heyrnarskerðingar stærsti hluti þeirra. Mikilvægt er að hafa heyrnarheilsu í huga allt lífshlaupið, við þurfum að kenna börnum okkar frá unga aldri hversu mikilvæg heyrnin er og hvernig á að passa upp á hana og vera meðvituð um ábyrgð okkar á eigin heyrnarheilsu.

Hávaði í umhverfi okkar er svo algengur að margir eru hættir að taka eftir honum og þeim áhrifum sem hann getur haft á líðan og heilsu. Hávaðinn getur leitt til hægt vaxandi heyrnarskerðingar sem einstaklingurinn verður ekki var við í fyrstu. Styrkur hljóðsins sem fer til eyrans hefur mest að segja um þær skemmdir sem geta orðið en einnig sá tími sem dvalið er í of miklum hávaða. Næmni innra eyrans fyrir hávaða er mismikil á milli einstaklinga, og getur þannig leitt til að þeir tapi ekki jafnmikilli heyrn þrátt fyrir að dvelja jafnlengi í sama umhverfi. Heyrnartap af völdum hávaða getur komið fyrir á öllum aldri, því fylgir oft eyrnasuð sem mörgum reynist jafnvel erfiðara að sætta sig við en heyrnartapið og skerta talgreiningu. Heyrnartap af völdum hávaða er óafturkræft en við hávaða verður skemmd á hárfrumum í kuðungi innra eyrans og þær frumur endurnýja sig ekki. Ennþá er ekki til aðferð til að lækna þennan skaða s.s. með lyfjum. Vonandi verður það hægt í framtíðinni en þangað til eru það fyrirbyggjandi aðgerðir sem gilda. Umhverfishávaði getur haft margvísleg áhrif á heilsu okkar og má þar nefna áhrif á svefn, erfiðleika við að sofna, truflun á djúpsvefni og að hrökkva upp af svefni. Streituáhrif hávaða geta komið fram í aukningu streituhormóna í blóði, hækkun blóðþrýstings, truflun á athygli og minnkaðri framsetningar- og einbeitingarhæfni. Það er því til mikils að vinna að draga úr hávaða í okkar daglega lífi.

Börn eru einnig útsett fyrir hávaða og þurfum við sem eldri erum að standa okkur betur í að huga að andlegri og líkamlegri heilsu barna sem dvelja í hávaða. Vaxtarskeiðið er viðkvæmur tími, heyrn er að þroskast og börnin skilja ekki alltaf þá hættu sem hávaði er. Þau hafa síður stjórn á umhverfi sínu og hegðun þeirra gerir þau oft meira útsett fyrir hávaða og afleiðingum hans. Börn eru í áhættuhópi vegna vanhæfni til að meta aðstæður og verja sig.

Margir hljóðgjafar eins og símar og önnur snjalltæki sem börn og unglingar hlusta á geta gefið frá sér hljóðstyrk sem getur verið heyrnarskemmandi. Foreldrar og aðrir fullorðnir eru mikilvægar fyrirmyndir barna. Þú getur verið góð fyrirmynd fyrir heilbrigða heyrnarheilsu með því að leiðbeina barni hvernig á að umgangast hljóð og njóta t.d. fuglasöngs og annarra hljóða í náttúrinni, tónlistar sem flutt er innan öruggs tónstyrks og ef styrkurinn er of mikill að nota heyrnarhlífar eða færa sig frá hljóðgjafanum. Upplýsum þau um hverjar afleiðingar það getur haft fyrir heyrnina þegar dvalið er í of miklum hávaða. Heyrnarskerðing af völdum hávaða hjá börnum getur haft áhrif á málþroska, námshæfni, kvíða og hegðun. Að vera útsettur fyrir miklum hávaða sem barn og unglingur getur síðar á ævinni leitt til heyrnarskerðingar sem m.a. getur átt þátt í minni félagslegum samskiptum, einangrun og andlegri færni.

Talið er að 50% þeirra sem hlusta á tónlist í gegn um heyrnartól noti hljóðstyrk sem getur verið heyrnarskemmandi. 5–10 % hlustenda er talinn líklegur til að þróa með sér heyrnarskerðingu vegna hlustunar gegn um persónuleg heyrnartól.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Alþjóða fjarskiptasambandið (ITU) sameinuðust árið 2019 um gerð staðals og leiðbeininga, WHO-ITU H.87, fyrir örugga hlustun frá persónulegum hljóðgjöfum (tækjum) með það að markmiði að koma í veg fyrir heyrnarskemmdir af völdum hávaða. Ráðlagt hámark er að fara ekki yfir 80 dB í 40 klst á viku fyrir fullorðna og 75 dB í 40 klst á viku fyrir börn. Til að fá upplýsingar um notkun þarf tækið að geta mælt á hvaða styrk og hversu lengi er hlustað á tækið, einnig er ráðlagt að foreldrar geti sett inn í tækið hámarksstyrk sem börnin mega hlusta á. Leiðbeiningarnar má finna á veg Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar

Verum samtaka um að minnka hljóðmengun í umhverfi okkar og stuðlum þannig að meiri lífsgæðum og betri heyrnarheilsu fyrir alla.

#WorldHearingDay

#safelistening

#hearingcare

#hearathon2021

Höfundur:: Ingibjörg Hinriksdóttir, yfirlæknir Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands

 

 

Vista
Vefkökur samþykki og yfirlit
Við notum vefkökur til að betrumbæta notendaupplifun vefsins. Ef þú samþykkir ekki notkun vefkaka getur það bitnað á virkni og notkun hans.
Samþykki allar
Neita öllum
Lesa skilmála
Functional
Forrit sem eru notuð til að veita þér fleiri möguleika eins og til dæmis tengingu við samfélagsmiðla.
Osano
Vefkaka sem geymir tímabundið samþykki þitt á þessari vefsíðu
Samþykkja
Neita
Analytics
Forrit sem skráir og mælir skilvirkni vefsíðunnar. Greinir notkun gesta. Við notum þessar upplýsingar til að betrumbæta upplifun notenda.
Google Analytics
Rýnir í vefumferð á vefnum svo hægt sé betrumbæta hann.
Samþykkja
Neita