
Í dag er dagur talþjálfunar 6. mars.
Heyrnar og talmeinastöð Íslands (HTÍ) hefur sinnt talþjálfun frá stofnun hennar árið 1979. Í dag starfa þrír talmeinafræðingar á HTÍ og veita greiningu, ráðgjöf og íhlutun til sérhópa, auk þess að sinna kennslu og starfsþjálfun nema í talmeinafræðum við Háskóla Íslands. Árlega er haldið upp á dag talþjálfunar undir ólíkum yfirskriftum sem endurspegla fjölbreytileika í starfi talmeinafræðinga.
Yfirskrift þemans í ár er ,,eflum málumhverfi barna“. Ríkulegt málumhverfi barna og gott ílag leikur lykilhlutverk í því að efla málþroska barna. Aðkoma talmeinafræðinga HTÍ er stór þáttur í hæfingu heyrnarskertra barna og endurhæfingu kuðungsígræðsluþega. Talmeinafræðingar HTÍ starfa náið með sérfræðingum innan sem utan stofnunarinnar í þágu skjólstæðinga okkar. Annar sérhópur stofnunarinnar eru börn með skarð í góm og/eða vör. Á stofnuninni er lögð rík áhersla á að fræða aðstandendur barnsins og þá sem eru í nærumhverfi þess til þess að stuðla að því að efla hljóðamyndun og málþroska barnsins.