Tölum (og tölum…) við barnið.
Öflug málörvun er alltaf af hinu góða. Það þarf að gefa sér tíma til að spjalla við barnið hvort sem um er að ræða í leik eða daglegum störfum hversdagsins. En barnið verður líka að hafa svigrúm til að nema það sem við segjum og við þurfum að gefa því tíma til að svara.
Notum sömu orðin – í mismunandi samhengi.
Börn læra stöðugt ný orð og til að auðvelda þeim að víkka orðaforðann þurfum við að vera þeim góð fyrirmynd. Dæmi: „Sjáðu boltann. Hann er sko aldeilis fínn þessi rauði bolti. Þú átt næstum alveg eins bolta. Eigum við að setja litla rauða boltann oní kassann?“ „Er þér heitt? Já, ég veit, það er sjóðheitt hér inni!“ „Ertu svöng? Ég er líka sársvöng / Ég er líka glorhungruð.“
Nefnum athafnir.
Tölum um það sem við gerum á hverjum degi, innan heimilis sem utan. Til dæmis þegar við erum að elda („nú set ég vatn í pottinn og svo fiskinn ofan í. Mmm… mér finnst fiskur svo góður.“), kaupum í matinn, þvoum bílinn, hengjum upp þvott o.s.frv. Tölum þegar við leikum við barnið án þess að spyrja beinna spurninga sem krefjast já/nei svars („Hvar ætli rauði kubburinn sé? Hérna er hann, nú set ég hann ofan á græna kubbinn.“).
Tölum um atburði í nútíð, þátíð og framtíð.
Ung börn lifa í núinu. Við þurfum smátt og smátt að byggja ofan á, tala um það sem gerst hefur og það sem á eftir að gerast. Þannig lærir barnið að skynja tímann og við leggjum grunn að skipulagningu frásagnar. Tölum um það sem ætlum að gera á eftir („fyrst ætlum við að fara í sund og svo að heimsækja ömmu. Hún gefur okkur kannski ís.“). Síðan er hægt að rifja upp skemmtilega atburði („Manstu hvað við gerðum í gær? Fyrst fórum við í sund og svo til ömmu. Manstu hvað amma gaf okkur góðan ís?“). Ekki er verra að hafa myndir til að styðjast við þegar skemmtilegir atburðir eru rifjaðir upp.
Verum barninu skýr málfyrirmynd.
Reynum að öðlast tilfinningu fyrir málskilningi barnsins. Notum setningar sem við vitum að barnið skilur en bætum stöðugt við nýjum orðum og hugtökum. Notum bendingar til skýringar (t.d. benda á hluti eða myndir) og útskýrum orð eða notum samheiti („veistu að drengur þýðir það sama og strákur?“). Gætum þess að tala ekki of hratt.
Kynnum ný orð og hugtök til sögunnar.
Í leik eða daglegum athöfnum er gott að nefna liti, tölur og bókstafi þegar slíkt á við. Tölum um afstöðuhugtök (t.d. undir, yfir, kringum, við hliðina o.s.frv.), lýsandi hugtök (t.d. þessi pollur er grunnur en þessi er djúpur, eða, þessi bolti er stærri en þessi og þessi er minnstur). Nefnum líkamshluta, t.d. þegar verið er að baða eða hátta. Tölum um mismunandi áferð t.d. fatnaðar (mjúkur, hrjúfur) o.s.frv. Allt sem okkur dettur í hug!
Bergmálun.
Oft er talað um að beinar leiðréttingar á málfari skili ekki árangri, a.m.k. ekki þegar barnið er ungt að árum. Höfum „rétt“ mál fyrir barninu með því að endurtaka það sem þau segja á réttan hátt. Dæmi: Barnið segir, „dúkkan sofaði með mér í rúmið í nóttina.“ Við segjum við barnið, „svaf dúkkan hjá þér í rúminu í alla nótt?“ Endurtökum jafnvel orðin eða setninguna í öðru samhengi.
Lesum á hverjum degi.
Það er deginum ljósara að lestur fyrir börn felur í sér mikla og góða málörvun. Við lestur örvum við orðaforða barna, þau kynnast annarskonar málfari en við notum venjulega og það er hollt og gott að lesa sömu bækurnar aftur og aftur. Börnin skynja uppbyggingu frásagnar, skipulag atburðarásar, orðaröð og setningagerð. Við upphaf lestrar ættum við að skoða bókarkápuna með barninu, spá í nafnið á bókinni og íhuga efni bókarinnar út frá titlinum. Þegar við lesum þurfum við að hafa orðaskil greinileg, ýkja örlítið blæbrigði, benda á myndir um leið og lesið er, útskýra orð og hugtök í stuttu máli ef þörf krefur eða nefna önnur orð til skýringar. Byrjum að lesa fyrir börn um leið og þau geta fylgst með stórum og einföldum myndum (vanalega upp úr þriggja mánaða aldri).
Hvetjum barnið til að segja frá.
Það er gott fyrir barnið að læra að skipuleggja frásögn og segja frá atburðum. Við þurfum að vera góð fyrirmynd. Segjum frá okkar degi áður en við spyrjum hvað þau hafi verið að gera í leikskólanum. Rifjum sameiginlega upp skemmtilega atburði. Fyrir börn sem skynja illa atburðarás og eiga í erfiðleikum með að segja frá er gott að nota dagbækur sem ganga t.d. á milli heimilis og leikskóla. Flestum hentar vel að láta myndir (t.d. úr „Pictogram“ eða „Board maker“ eða jafnvel raunverulegar myndir t.d. úr stafrænum myndavélum) fylgja með til að örva barnið til frásagnar.
Búum til sögur saman.
Segjum sögur upp úr okkur eða eftir myndum. Hvetjum barnið til þess sama. Skrifum niður sögur sem barnið segir. Hægt er að búa til litla bók með auðum blaðsíðum, skrá sögur og leyfa barninu að skreyta bókina. Einnig er sniðugt að klippa út teiknimyndasögur úr dagblöðum, raða í rétta röð og líma í bók. Barnið er þá hvatt til að „lesa“ söguna og rekja hana frá vinstri til hægri (líkt og texta í bókum).
Málörvun í bílnum.
Flestir eyða töluverðum tíma á degi hverjum í bíl. Notum þennan tíma til að örva mál barnsins, t.d. rifja upp atburði dagsins, nefna kennileiti, syngja eða fara með vísur, hvað sem er. Látum það þó ekki trufla okkur við aksturinn!
Syngjum saman.
Syngjum fyrir eða með barninu alveg frá fæðingu þess. Kynnum okkur hvað verið er að syngja í leikskólanum. Hlustum á spólur eða geisladiska með skemmtilegum lögum sem hægt er að syngja. Börnum finnst gaman að setja nýja (bulltexta) við gömul lög. Gott er að lesa fyrir barnið skemmtilegar rímaðar vísur eða kvæði með söguþræði, t.d. Tótu tætibusku, En hvað það var skrítið!, Handagúndavél o.s.frv. Leikum okkur með rím og hvetjum barnið til að „bullríma“. Sum börn hafa ekki gaman að söng vegna þess að þau ráða ekki við orðin eða taktinn (hrynjandina). Með þessum börnum er hentugt að nota tákn (sbr. Tákn með tali) og syngja hægt og taktvisst . Flest börn hafa gaman af að syngja – fyrr eða síðar!
Þykjustuleikir.
Förum í þykjustuleiki með börnunum. Það geta verið dúkku-, búðar-, löggu- eða læknisleikir eða þykjast að tala í síma. Verum dugleg að nota þykjustuhluti til að virkja og efla ímyndunarafl barnsins.
Brandarar.
Börn fá fljótt tilfinningu fyrir kímni. Frá unga aldri er hægt að bulla með þeim og búa til skrítin hljóð og orð. Seinna er hægt að leika sér með orð og setningar. Oft eru heimatilbúnir, einfaldir brandarar skemmtilegastir.
Gátur.
Leggjum fyrir börnin einfaldar gátur, t.d. Hvað er lítið og loðið og geltir voff, voff? Hvað er rautt og vex á trjám? Einnig er hægt að fara í leiki eins og Ég sé… (lýsa hlut og barnið reynir að geta upp á).
Teiknimyndir í sjónvarpi.
Horfum með barninu á leikna mynd eða teiknimynd sjónvarpi eða á myndbandi. Tölum um myndina og rifjum upp söguþráðinn. Veltum fyrir okkur með barninu hvernig sagan hefði getað endað á annan hátt. Spyrjum opinna spurninga (ekki spurninga sem krefjast þess að svarað er eingöngu með já eða nei). Hvetjum barnið til að sitja ekki lengi í einu fyrir framan sjónvarpsskjáinn.
Tölvuleikir.
Til eru á geisladiskum alls konar málörvandi leikir eins og t.d. A-Ö, Leikskólinn og Leikver, Stafakarlarnir og fleiri. Ekki gleyma því að við örvum barnið með því að vera í návist þess og tala við það – og umfram allt, leyfa því að tjá sig.
Málþroski barna