Algengar spurningar og svör - Tal - Efnisflokkar

Algengar spurningar - Tal - Efnisflokkar

Upplýsingar um almenna málörvun má til dæmis finna á heimasíðu Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar; Almenn málörvun barna (grein). Einnig eru góð ráð á vef heilsugæslunnar; Málörvun - góð ráð á heilsuvera.is

 

Sérvalin orð: málþroski

 

Gríðarlegu máli skiptir að heyrnarmæla börn sem allra fyrst svo að nauðsynleg

meðhöndlun geti hafist ef eitthvað athugavert kemur í ljós. Algengur misskilningur er að ekki sé hægt að heyrnarmæla ung börn. Sjá upplýsingar um heyrnarmælingar barna á heimasíðu Heyrnar-og talmeinastöðvarinnar; Heyrnarmælingar

Sérvalin orð: börn, heyrnarmæla, Mæla

Tjáningarmátinn Tákn með tali er einkum ætlaður börnum sem eru með eðlilega heyrn en ná ekki að tileinka sér skilning á máli og/eða talmáli á hefðbundinn hátt. Einstaklingar á öllum aldri geta nýtt sér TMT og börn sem eru sein til máls, þótt annar þroski virðist eðlilegur, eru oft fljót að tileinka sér táknin. Það er auðveldara að tala með höndunum en talfærunum og barnið getur því tjáð þarfir sínar og óskir burtséð frá erfiðleikum við að beita tali. Táknin styðja barnið í myndun setninga, notkun TMT hefur því í för með sér meiri og markvissari boðskipti og eflir sjálfstæði og lífsgæði aukast. (Stuðst við upplýsingar af tmt.is.) Sjá nánar: Tákn með tali - sjá grein á vefsíðunni greining.is;  http://www.tmt.is/

 

Mikilvægt er að ganga úr skugga um að heyrn barnsins sé eðlileg. Hægt er að panta tíma í heyrnarmælingu á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Einnig er gott að ræða við heilsugæsluna sem sinnir eftirliti með almennum þroska barnsins. Það er eðlilegt að málskilningur sé meiri en máltjáning, það er barnið skilji mun meira en það getur tjáð sig um. Til að fá upplýsingar um hvernig hægt er að örva tjáningu er hægt að skoða síðuna: Almenn málörvun barna (grein). Ef verulegar áhyggjur eru af málþroskanum er hægt að senda beiðni til talmeinafræðings sem metur hvort þörf sé á íhlutun.

 

Sérvalin orð: heyrnarmælingu, málskilningur

Mikilvægt er að ganga úr skugga um að heyrn barnsins sé eðlileg. Hægt er að panta tíma í heyrnarmælingu á Heyrnar-og talmeinastöð Íslands. Einnig er gott að ræða við heilsugæsluna sem sinnir og hefur eftirlit með almennum þroska barnsins. Það er eðlilegt að málskilningur sé meiri en máltjáning, það er að barnið skilji mun meira en það getur tjáð sig um. Til að fá upplýsingar um hvernig hægt er að örva tjáningu er hægt að skoða síðuna: Almenn málörvun barna (grein).

Örvið eftirhermu hjá barninu, til dæmis með því að byrja á að herma eftir einföldu látbragði eins og ,,svona stór” og ,,týndur, bö” og bætið svo við hljóðum og orðum. Nýtið daglegar rútínur til að endurtaka orð og hugtök. Endurtakið sömu orðin aftur og aftur. Endurtakið það sem barnið segir og bætið við einu til tveimur orðum. Lesið daglega og talið um það sem þið lesið þannig að barnið verði virkur þátttakandi í samræðunum þótt það sé ekki nema til að endurtaka orð eða nefna myndir. Syngið saman og leikið ykkur með því að fylla í eyður í söngvunum.

 

Sérvalin orð: heyrn, heyrn barnsins, talar lítið

Mikilvægt er að ganga úr skugga um að barnið heyri eðlilega. Verið getur að barnið sé með frávik í málþroska. Hægt er að panta tíma hjá talmeinafræðingi á Heyrnar-og talmeinastöð Íslands eða hjá sjálfstætt starfandi talmeinafræðingum. Leikskóli barnsins getur einnig haft milligöngu um að athuga úrræði.

 

Sérvalin orð: frávik, leikskóli

Öll börn eru einstök. Það fer eftir ytri aðstæðum og hversu mikið tungumálin eru töluð í návist barnsins hvernig það þróar með sér tvítyngi. Málþroskinn, í hvoru tungumáli fyrir sig, fylgist ekki endilega að. Eins og hjá flestum eintyngdum börnum koma fyrstu orðin í kringum 1 árs aldurinn. Um 2 ára eru þau yfirleitt farin að nota stuttar (2 orða) setningar. Tvítyngd börn geta blandað saman málfræðireglum beggja málanna á ákveðnum tímabilum, eða þau geta blandað tungumálunum saman í sömu setningunni. Þetta telst eðlilegt í þróun tvítyngis. Ef annað tungumál kemur inn í málheim barnsins eftir 1-2 ára aldur geta þau „þagnað“ í dálítinn tíma, stundum nokkra mánuði. Mikilvægt er að tvítyngd börn skilji bæði tungumálin og mikilvægt er að þegar tvítyngd börn fara að mynda 3-4 orða setningar þá blandi þau ekki saman málfræði- eða setningarfræðireglum.

Ef tvítyngd börn eru sein til máls í báðum tungumálunum og ná ekki ákveðnum „áföngum“ í máltökunni er gott að leita ráðgjafar hjá talmeinafræðingi.

Sjá nánar til dæmis grein eftir Elínu Þöll Þórðardóttur í Talfræðingnum 2004 („Tvítyngi er ekkert að óttast“).

Læknir eða hjúkrunarfræðingur á heilsugæslu barnsins. Talmeinafræðingur eða sálfræðingur getur einnig vísað. Börnum sem býðst athugun á málþroska á HTÍ eru:

·         Börn sem heyrnarskerðingu. 

·         CODA börn, það er heyrandi börn heyrarlausra foreldra

·         Börn sem fæðast með skarð í gómi eða vör. 

·         Börn sem fá slaka útkomu á PEDS í 18 mánaða skoðun heilsugæslunnar. Mælst er með því að hjúkrunafræðingur sæki rafrænt um á heimasíðu HTÍ. 

·         Börn utan af landi þar sem viðunandi úrræði eru ekki í heimabyggð

 

Ef í ljós kemur eftir málþroskamat að málþroski barnsins er eðlilegur miðað við jafnaldra er ekki þörf á frekari íhlutun talmeinafræðings. Ef barnið er með minniháttar frávik miðað við jafnaldra er það mat talmeinafræðings hverju sinni hvort mælt er með málörvun heima og/eða í leikskóla (foreldrar fá ráðgjöf þar að lútandi) og síðan endurmati eða hvort talin er þörf á meðferð. Ef um slíkt er að ræða eða ef frávikin eru umtalsverð stendur barninu til boða að koma í nokkra tíma í talþjálfun á HTÍ. Bið eftir þjálfun getur verið nokkrir mánuðir. Þegar barnið kemst að fær það venjulega um 5 – 6  skipti í þjálfun. Síðan fer barnið í nokkurra mánaða bið og kemur aftur í 5 – 6 skipti. Á þennan hátt bregðumst við við þeim mikla fjölda beiðna sem bíða afgreiðslu.

HTÍ er í samvinnu við námsbraut í talmeinafræði við Háskóla Íslands. Nemendur við námsbrautina eru gjarnan í starfsþjálfun á HTÍ og sinna börnum undir handleiðslu talmeinafræðinga. Barnið þitt/ykkar gæti fengið þjálfun hjá nema.

Í kjölfar greiningar og ráðgjafar á HTÍ sækja foreldrar um talþjálfun hjá sjálfstætt starfandi talmeinafræðingi eða leita annarra úrræða (til dæmis ef boðið er upp á þjónustu talmeinafræðings á þjónustumiðstöð eða skólaskrifstofu). Börn sem fá meðferð hjá talmeinafræðingi á HTÍ eru:

$1·         Börn sem eru heyrnarskert

$1·         Börn sem fæðast með skarð í gómi eða vör

Mikilvægt er að útiloka að heyrnarskerðing sé til staðar.

Sérvalin orð: heyrnarskerðing

Þörf á talþjálfun fer eftir niðurstöðum úr málþroskaprófi. Sjá nánar undir „Hvað gerist eftir athugun á málþroska hjá talmeinafræðingi?“ hér að ofan.

 

Sérvalin orð: talþjálfun

Talmeinafræðinar á Heyrnar-og talmeinastöð Íslands forgangsraða börnum í talþjálfun og þarf athugun hjá talmeinafræðingi að liggja fyrir áður en barnið er sett á biðlista í þjálfun. Talþjálfun er einnig hægt að fá á vegum sveitarfélaga/þjónustumiðstöðva,  til dæmis í sumum skólum/leikskólum. Leitaðu til viðkomandi stofnunar eftir svörum. Á vef Sjúkratrygginga Íslands er listi yfir þá talmeinafræðinga sem eru á samningi við SÍ og starfa sjálfstætt: http://www.sjukra.is/heilbrigdisstarfsfolk/thjalfun/talthjalfarar/

Sérvalin orð: talmeinafræðingar

Mikilvægt er að vera skýr og góð málfyrirmynd. Ekki er ráðlagt að leiðrétta framburð barna beint heldur nota virka hlustun, það er að segja, að endurtaka það sem barnið sagði rangt og leggja áherslu á þau hljóð sem borin voru rangt fram. Gott er að virkja eðlislæga tilhneigingu barna til að herma eftir og fá þau til að herma eftir hljóðum í umhvefi sínu og gefa gaum að alls konar hljóðum. Til eru bækur og efni á íslensku sem einkum miða að hljóðaörvun eins og til dæmis „Lubbi finnur málbein“ eftir Þóru Másdóttur og Eyrúnu Ísfold talmeinafræðinga og efnið „Lærum og leikum með hljóðin“ eftir Bryndísi Guðmundsdóttur talmeinafræðing.

 

Sérvalin orð: hljóðörvun, hljóðum

Það er eðlilegt að börn tileinki sér ekki málhljóðið /r/ fyrr en nokkuð seint í máltökunni. Mörg 3 ára börn hafa náð tökum á málhljóðinu en það telst eðlilegt að hafa ekki náð tökum á því fyrr en á milli 5-6 ára aldurs. Taka þarf mið af líðan barnsins í þessu samhengi (er því strítt?) og mikilvægt er að byrja að vinna með svo kallað „skroll“ (baklæg myndun /r/) fyrr og leita skal til talmeinafræðings eftir ráðleggingum varðandi það.

Bókin „Lubbi finnur málbein“ eftir Þóru Másdóttur og Eyrúnu Ísfold talmeinafræðinga örvar málhljóðamyndun barna. Einnig eru til bækurnar „Lærum og leikum með hljóðin“ og „R-bókin“ eftir Bryndísi Guðmundsdóttur talmeinafræðing og Hljóðabelgur eftir Þóru Másdóttur og Hrafnhildi Halldórsdóttur talmeinafræðinga (sú síðastnefnda fæst á Heyrnar- og talmeinastöð). Athugið að þegar unnið er með framburðarþjálfun er mjög mikilvægt að fá leiðsögn hjá talmeinafræðingi sem gerir ítarlega úttekt á hljóðkerfi barnsins.

Það er eðlilegt að börn myndi málhljóðið /s/ með því að stinga tungubroddi út á milli tanna (smámælgi) nokkuð fram eftir aldri. Mörg börn ná fljótt valdi á þessu hljóði en ef barnið þitt er orðið  5 ára gamalt og er enn „smámælt“ er mælt með athugun hjá talmeinafræðingi. Ef barnið er 4-5 ára og sleppir alltaf /s/ í samhljóðaklösum er um annars konar vanda að ræða og rétt að leita ráða hjá talmeinafræðingi. Ef barnið þitt er með opið bit og tungubroddur leitar út er ráðlagt að leita til talmeinafræðings/tannlæknis til að skoða hvort óeðlilegur tunguþrýstingur sé til staðar.

Bókin „Lubbi finnur málbein“ eftir Þóru Másdóttur og Eyrúnu Ísfold talmeinafræðinga örvar málhlóðamyndun barna. Einnig eru til bækurnar „Lærum og leikum með hljóðin“ og „S-bókin“ eftir Bryndísi Guðmundsdóttur talmeinafræðing og „Hljóðabelgur“ eftir Þóru Másdóttur og Hrafnhildi Halldórsdóttur talmeinafræðinga (sú síðastnefnda fæst á Heyrnar- og talmeinastöð). Athugið að þegar unnið er með framburðarþjálfun er mjög mikilvægt að fá leiðsögn hjá talmeinafræðingi sem gerir ítarlega úttekt á hljóðkerfi barnsins.

 

Sérvalin orð: málhljóð

Ef barnið á í erfiðleikum með að tala og hikar eða endurtekur atkvæði, orð eða setningar, gæti það verið að þróa með sér stam. Það gæti einnig verið að ganga í gegnum tímabil sem mörg börn gera meðan þau eru að læra að tala. Ef stamið hverfur ekki á 3-6 mánuðum  er mjög gott að leita ráðgjafar hjá talmeinafræðingi sem fyrst. Um það bil 5% allra barna ganga í gegnum tímabil þar sem þau stama í 6 mánuði eða lengur. 1% þeirra mun eiga í langtíma erfiðleikum með talið. Börn og fullorðnir sem stama eru ekki líklegri til að eiga í sálrænum eða tilfinningalegum vanda en þau börn eða fullorðnir sem ekki stama. Sjá nánar: https://hti.is/index.php/is/um-hti/frettir-hti/2-oflokkadh/522-boern-sem-stama.html?highlight=WyJzdGFtYSJd og stutteringhelp.org.

Mikið af upplýsingum um stam er að finna á Netinu en best er að leita sér ráðgjafar hjá talmeinafræðingi.

 

Sérvalin orð: stamar

Mörg börn með tunguhaft eiga ekki í neinum erfiðleikum. Haftið annað hvort teygist meðan þau stækka eða að þau aðlaga sig því. Ef barnið á í erfiðleikum með að taka brjóst, halda munnsvæðinu hreinu eða mynda málhljóð sem mynduð eru með tungubroddi (t.d. /t/, /d/, /s/, /n/, /r/, /l/) skaltu ráðfæra þig við heilsugæsluna, barnalækni eða talmeinafræðing vegna framburðarerfiðleika.

Sérvalin orð: barnalækni, tunguhaft