Aðgengi fyrir alla
Aðsend grein - Höfundur: Ingibjörg Dóra Bjarnadóttir
Aðgengi fyrir alla
Rittúlkun nýtist stórum hópi fólks, öllum þeim sem eru heyrnarskertir, heyrnarlausir og einstaklingum sem eru að ná tökum á íslensku. Rittúlkun hjálpar einnig þeim sem lamaðir eru.
Margir spyrja sig, Hvað er rittúlkun? Rittúlkun fer þannig fram að rittúlkurinn situr við hlið notanda þess og ritar allt sem fram fer og er sagt. Notandinn les upplýsingar jafnóðum og er alltaf meðvitaður um það sem rætt er.
Skortur er á fjármagni frá hinu opinbera sem orsakar það að rittúlkun er ekki algeng. Einstaklingur sem notar rittúlk þarf að greiða sjálfur úr eigin vasa á meðan heyrnarlausir sem nota táknmál fá þjónustuna fría. Ég vil taka fram að það vantar einnig fjármagn í fleiri táknmálstúlka. Mikið mannréttindarbrot á ferð.
Heyrnarhjálp vill hefja rittúlkun til sömu virðingar og táknmálstúlkun nýtur. Einstaklingur sem er heyrnarskertur fær enga þjónustu en einstaklingur sem er heyrnarlaus fær mun betri þjónustu. Þetta er mikil mismunun. Rittúlkun bætir lifsgæði einstaklinga sem þurfa að styðja sig við rittúlkun.
Heyrnarskertir eiga að fá rittúlk sér að kostnaðarlausu. Erfitt er að heyra lítið eða ekkert af því sem fram fer í umhverfinu. Heyrnarskertur nemandi í skóla getur ekki fengið rittúlk nema borga úr eigin vasa á meðan táknmálstúlkun er að kostnaðarlausu. Heyrnarskertur einstaklingur þarf að leita sjálfur að rittúlki, en þeir sem eru með táknmál og nota táknmálstúlk er nóg að hafa samband við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskerta (SHH) og fá þjónustuna gjaldfrjálsa.
Texta á allt sjónvarpsefni í íslensku sjónvarpi á öllum stöðvum. Lítið mál er að setja texta við sjónvarpsefni. Oft kemur fyrir að heyrnarskertir og heyrnarlausir hlakka til að sjá sjónvarpsþátt, en þegar sest er niður fyrir framan sjónvarpið kemur í ljós að sjónvarpsefnið er ekki textað. Sjónvarp án textunar,verður til þess að ákveðinn minnihlutahópur missir af sjónvarpsefninu. Oft hefur verið umræða á alþingi um að texta allt sjónvarpsefni.
Er ekki kominn tími til að klára þá vinnu og búa til aðgengi fyrir alla landsmenn?