Skip to main content

Kuðungsígræðslur 60 ára !

Mars 2017

Framfarir í heyrnarbætandi aðgerðum hafa verið stórstígar síðustu áratugina og varla hægt að finna samsvarandi þróun á öðrum sviðum læknisfræðinnar. Kuðungsígræðslur eru án efa stærsta framfaraskref síðari tíma þegar kemur að því að endurskapa skynfæri. Hundruðir þúsunda einstaklinga um víða veröld, börn og fullorðnir, njóta nú heyrnar fyrir tilstilli þessarar ígræðslutækni. Heyrnarleysi þýðir í raun allt annað í dag en fyrir nokkrum áratugum síðan. Með ígræddum heyrnartækjum hefur orðið bylting í meðferð alvarlegrar heyrnarskerðingar og heyrnarleysis. Og framþróunin heldur áfram. Nú í lok febrúar var haldinn alþjóðlegur dagur heyrnarígræðsla og því rétt að rifja aðeins upp tilurð tækninnar og reynslu síðustu áratuga.

 

Tilraunir vísindamanna með að endurskapa heyrnarskynfæri hófust á 18.öld

Alessandro Volta

Ítalski vísindamaðurinn Alessandro Volta gerði tilraunir í lok 18.aldar með að örva eyrun með rafstraumi og gat mælt viðbrögð. Þetta setti af stað þróun sem ekki sér fyrir endann á. Árið 1850 prófaði franskur maður, Duchenne að nafni, að örva heyrn sína með víxlverkandi rafstraumi og heyrði þá suð og brak.

 

 

Mynd;: Alessandro Volta, eðlisfræðingur og uppfinningamaður

En það er árið 1957 sem má teljast fæðingarár kuðungsígræðslutækninnar. Fyrir réttum 60 árum tókst tveimur fransk-algírskum skurðlæknum, Djourno og Eyriès. að fá sjúkling til að heyra og greina einföld orð s.s. „mama“ og „papa“ eftir að hafa tengt rafskaut við heyrnartaugar.

Á árinu 1964 tókst síðan lækni í Bandaríkjunum, Dr Blair Simmons, að græða sex rafskaut í kuðung heyrnarlauss sjúklings, sem gat í kjölfarið greint viss hljóð. dr Blair Simmons

 

Nútíma ígræðslutækni fyrir heyrnarlausa

Á áttunda áratug síðustu aldar (um 1975) unnu læknarnir Dr Graeme Clark (Ástralíu) og Dr William House (USA) með að þróa fjölrása ígræði til að örva mismunandi svæði kuðungs innra eyrans. Clark ákvað að hanna elektróðu eða þráð með rafskautum sem auðvelt væri að þræða inn í kuðunginn eftir að hafa verið að leika sér með grasstrá og kuðungslaga skeljar á ströndinni í Ástralíu.

Honum tókst að skapa elektróðu með svipaða eiginleika og grasstráið og árið 1978 framkvæmdi hann fyrstu byltingarkenndu aðgerðina á fullorðnum, daufblindum einstaklingi.

Mynd:  Dr Blair Simmons. Frumkvöðull í kuðungsígræðslutækni


Ígræðið þurfti þó enn að þróa frekar til að víkka út og bæta tónsvið og tónskynjun heyrandans.
1983 kom á markað fyrsta 22-ja rása ígræðslu-elektróðan og 1985 samþykkti lyfjaeftirlit Bandaríkjanna, FDA (Food and Drug Administration), tæknina sem viðurkennda aðferð til að nota hjá fullorðnum. 1990 samþykkti síðan FDA kuðngsígræðslur í meðferð barna eldri en 2ja ára og aðeins ári síðar er framkvæmd slík aðgerð á yngra barni í Svíþjóð sem heppnaðist mjög vel og barnið öðlaðist heyrn. Í dag fá börn sem fæðast heyrnarlaus yfirleitt ígræðslur um 1 árs aldur.

Tracy Husted fyrsta barn m kudungsigraedsluMynd: Tracy Husted, fyrsta barnið sem fékk ígræðslu í kuðung innra eyrans.

Framfarir fyrir heyrnarlaus börn

Enn sér ekki fyrir endann á þeirri þróun sem hófst með tilkomu ígræðslutækninnar. Í fyrstu bauðst einungis daufblindum einstaklingum aðgengi að tækninni en nú er öldin önnur. Frá aldamótum hafa öll börn sem fæðast heyrnarlaus átt kost á kuðungsígræðslu sem veitir þeim nær undantekningarlaust virka heyrn og fulla þátttöku í hljóðheimi heyrandi fólks. Heilbrigðisyfirvöld hafa viðurkennt tæknina og greiða nær allan kostnað við ígræðslur og tækjabúnað. Aðgerðir eru nú gerða á börnum sem fæðast heyrnarlaus mun fyrr en áður eða allt niður í 6 mánaða aldur. Árangur batnar í sífellu og nær öll börn ná fullum málþroska til jafns við heyrandi jafnaldra sína.

Í Svíþjóð eru nú um 1000 börn undir 18 ára aldri með kuðungsígræðslur en um 2600 fullorðnir. Á Íslandi hafa nær 100 einstaklingar á öllum aldri fengið kuðungsígræðslur og enn bíða þó nokkrir einstaklingar eftir aðgerð. Langflest börn sem fæðast heyrnarlaus (hér á landi ca 1 barn árlega) fá ígræðslu innan 12-14 mánaða eftir fæðingu, óski foreldrar þess.

Kuðungsígræðslur enn umdeildar?

Því miður er ennþá nokkur mótstaða gegn tækninni hér á landi á meðal samfélags heyrnarlausra þar sem hluti þeirra telur að samfélagi döff einstaklinga (heyrnarlausir með táknmál að móðurmáli) og málsamfélagi táknmálstalandi standi ógn af þeirri tækni sem getur opnað heyrnarlausum heim hljóða og talmáls. Þannig hafa örfáir döff foreldrar afþakkað ígræðslur fyrir heyrnarlaus börn sín.

Með aukinni fræðslu og góðri reynslu ígræðsluþega hefur þó dregið jafnt og þétt úr mótstöðu.
Gott væri að ræða opinskátt um kosti og galla frá öllum hliðum s.s. rétt barna og foreldra, rétt heyrnarlausra, ábyrgð heilbrigðiskerfisins, læknisfræðileg álitaefni, menningarleg og siðfræðileg viðhorf sem og aðra þá þætti sem til álita geta talist. Nauðsynlegt er að heyrnarlausir sem kjósa að fá kuðungsígræðslur geti samt sem áður fundið sér stað innan samfélags annarra heyrnarlausra Íslendinga. Því að það ber að hafa í huga að heyrnarlaus manneskja sem heyrir með hjálp kuðungsígræðslutækni er engu að síður alveg jafn heyrnarlaus og fyrr. Viðkomandi getur því alltaf átt val um að hverfa tímabundið eða til langframa í heim heyrnarlausra með því einu að slökkva á tækjabúnaðinum. Þau börn sem fæðast heyrnarlaus en ekki fá ígræðslu fyrir 4 ára aldur geta hins vegar aldrei náð að nýta sér þessa tækni og eiga því ekkert slíkt val á fullorðinsárum.

Framtíðin

Með aukinni þekkingu á starfsemi heilans og heyrnarstöðva hans, talstöðvum og huglægri starfsemi má búast við frekari framförum ígræddrar tækni til að bæta eða endurskapa tapaða heyrn eða meðfætt heyrnarleysi. Þverfagleg nálgun og teymisvinna ólíkra vísindamanna mun án efa færa okkur lengra fram veginn og verður spennandi að fylgjast með næstu skrefum. .

En fyrst og fremst fögnum við í dag þeim árangri sem náðst hefur til þessa og þeim lífsgæðum sem ígræðsluþegar hafa náð með nýrri eða bættri heyrnarskynjun fyrir tilstuðlan ígræðslutækninnar.

 

Save
Cookies user preferences
We use cookies to ensure you to get the best experience on our website. If you decline the use of cookies, this website may not function as expected.
Accept all
Decline all
Read more
Functional
Tools used to give you more features when navigating on the website, this can include social sharing.
Osano
Vefkaka sem geymir tímabundið samþykki þitt á þessari vefsíðu
Accept
Decline
Analytics
Tools used to analyze the data to measure the effectiveness of a website and to understand how it works.
Google Analytics
Rýnir í vefumferð á vefnum svo hægt sé betrumbæta hann.
Accept
Decline