Skip to main content

8 Merki þess að þú sért með skerta heyrn

 

1Þú átt erfitt með að skilja hvað aðrir segja

Þú heyrir hljóðin en greinir ekki orðin


2Þú átt erfitt með að heyra í hávaða

Veislur, veitingahús, samkvæmi, erfið hlustunarskilyrði sem geta reynst heyrnarskertum erfið


3Þú skilur illa raddir barna og kvenna

Heyrnarskertir eiga oft erfitt með að greina raddir sem eru á hærra tíðnisviði eða veikari


4Þú skiptir oft um eyra í símtölum

Að skipta í sífellu um eyra þegar hlustað er í síma getur bent til erfiðleika og þreytu vegna heyrnarskerðingar


5Þú ert með suð eða són í eyrum

Eyrnasuð(tinnitus)er algengt meðal heyrnarskertra


6Þú þreytist fljótt í samræðum

Ef mikil einbeiting við að hlusta á samræður leiðir til líkamlegrar og andlegrar þreytu er ástæðan skert heyrn


7Þú ert með sjónvarp of hátt stillt fyrir aðra

Ef þú þarft sífellt að hækka í sjónvarpinu eða aðrir biðja þig um að lækka í því ert þú líklega með skerta heyrn


8Aðrir segja þig tala of hátt eða óskýrt

Skert heyrn breytir því hvernig þú skynjar og heyrir hljóð og jafnvel eigin rödd og eigin framburð


Algengar spurningar

 

Dagur Heyrnar - Um mikilvægi nýbura-heyrnarskimunar

Dagur Heyrnar 2021 m greinumí tilefni af Degi heyrnar, þann 3/3

Nýburamælingar á heyrn bjóðast öllum nýfæddum börnum á Íslandi og er samvinnuverkefni Heyrnar-og talmeinstöðvar Íslands (HTÍ) og Barnaspítala Hringsins (BSH), fæðingardeildar á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAK), Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) á Selfossi og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) í Keflavík. Mælingin fer fram þegar börn koma í 5 daga skoðun á fyrrgreindum stöðum. Þeim börnum sem ekki koma í 5 daga skoðun fylgir HTÍ eftir og eins fara börn sem ekki standast nýburaskimun í frekari uppvinnslu og eftirfylgd á HTÍ.

Á hverju ári fæðast 1-2 börn á hver 1000 fædd börn með einhverja tegund af heyrnarskerðingu. Við upphaf grunnskólagöngu er fjöldinn um 3-4 börn á hver 1000 börn og í aldurshópnum 15-18 ára, 5 af hverjum 1000 börnum. Heyrnarskerðing á öðru eyranu eða væg heyrnarskerðing á báðum eyrum eru helstu ástæður fyrir fjölgun milli aldurshópa.

Forsenda málþroska og málskilnings barns er góð heyrn og heyrnarminni heilans. Heyrnin er eitt þeirra skynfæra sem móta barnið, atferli þess og persónuleika. Með heyrninni læra börn málið og notkun þess en einnig að skynja blæbrigði máls.
Á 25. viku meðgöngu er fóstur með fullþroskuð heyrnarlíffæri og getur heyrt. Barn sem fæðist með heyrnarskerðingu er því strax við fæðingu á eftir sínum jafnöldrum í þroska á heyrnarhluta heilans. Öflugasta tímabil í þroska heilans er á fyrstu tveimur aldursárum barns og er því gríðarlega mikilvægt að endurhæfing hefjist sem fyrst eftir greiningu. Fyrir tíma heyrnarskimunar var greiningaraldur mikið heyrnarskertra barna milli 12 og 18 mánaða en börn með miðlungsalvarlegar heyrnarskerðingar upp úr 2-3 ára aldri eða jafnvel seinna. Það er óviðunandi hár greiningaraldur.

Skimun á heyrn við fæðingu með núverandi tækni hófst á Íslandi 2007 á Barnaspítala Hringsins, skömmu síðar á SAK og 2019 á HSU og HSS.
Í dag er foreldrum barna sem fæðast með alvarlega heyrnarskerðingu beggja vegna boðin kuðungsígræðsluaðgerð fyrir barnið. Kuðungsígræðsla er tækni sem gefur heyrnarlausum börnum möguleika á að heyra hljóð og læra talmál til jafns við sína jafnaldra. Forsenda þess að sá þroski verði, er að heyrnarlaust barn greinist sem fyrst eftir fæðingu og fái kuðungsígræðslu fyrir eins árs aldur. Einnig, þegar um er að ræða minna alvarlegar heyrnarskerðingar, er endurhæfing með hefðbundnum heyrnartækjum fyrir 6 mánaðar aldur mjög mikilvæg fyrir málþroskann.

Þrátt fyrir að barn standist heyrnarskimun við fæðingu geta ættgengar og áunnar heyrnarskerðingar komið fram hvenær sem er á lífsleiðinni. Í ung-og smábarnavernd á heilsugæslustöðvum landsins er börnum fylgt eftir fram að grunnskólaaldri. Málþroskapróf eru lögð fyrir börn með reglulegum millibilum en skimun á heyrn hjá börnum á forskóla og grunnskólaaldri var afnumin hérlendis árið 2012, sem er miður. En eins og fram kom hér að framan eykst nýgengi heyrnarskerðingar úr 1-2/1000 við fæðingu upp í 5/1000 fyrir 18 ára aldur og þó sú fjölgun sé að mestu vegna vægrar heyrnarskerðingar getur það samt sem áður haft afgerandi áhrif á málþroska, námsgetu og félagslegan þroska barns. Heyrnarmælingar eru einfaldar í framkvæmd og mikilvægt er að barni sé vísað í heyrnarmælingu, sérstaklega ef foreldrar hafa áhyggjur af heyrn barns, ef um seinkun á málþroska barns er að ræða eða barn sýnir merki um skerta athygli.  

Höfundur:  Eva Albrechtsen, Sérfræðilæknir, Heyrnar-og talmeinastöð Íslands

Eva Albrechtsen

Dagur Heyrnar 2021 - Heyrn og lífsgæði

Dagur Heyrnar 2021 m greinum
Á degi heyrnar þann 3. Mars er ekki úr vegi að benda á þau lífsgæði sem felast í því að heyra vel. Við tökum því flest sem sjálfsögðum hlut að geta farið í leikhús eða á tónleika, að geta talað án vandræða í síma, fylgst með samfélagsumræðu í sjónvarpi eða útvarpi, hlustað á hljóðbækur og almennt notið þess að vera innan um fólk og spjalla um daginn og veginn.

Góð heyrn er ekki sjálfgefin og því þarf að leiða hugann að henni eins og öðrum lífsgæðum. Herynarskerðing  gerist sjaldan á einni nóttu. Oftast er um að ræða hægfara ferli og því á fólk oft erfitt með að átta sig á að það sé farið að heyra illa. Við erum þeim hæfileikum búin að aðlagast breyttum aðstæðum og þá sérstaklega breytingum sem gerast hægt og rólega. Að lokum kemur þó að því að heyrnarskerðingin fer að hafa veruleg áhrif á daglegt líf fólks, bæði líkamleg og sálræn. Stoðkerfisvandamál eins og höfuðverkur og vöðvabólga eru oft fylgikvillar þess að heyra illa. Það stafar af því að fólk með heyrnarskerðingu þarf oft að einbeita sér meira til þess að heyra og skilja það sem  fram fer í kringum það og úrvinnsla upplýsinganna krefst einfaldlega meiri orku en þegar heyrn er góð. Talað er um að sálræn áhrif heyrnarskerðingar geti verið kvíði og einangrun. Einstaklingar með heyrnarskerðingu njóta þess síður en aðrir að vera innan um annað fólk.

Það er til mikils að vinna að grípa inn í það ferli sem heyrnarskerðing er og leita sér hjálpar  en frá því að fólk verður fyrst vart við að heyrn þess sé að skerðast líða gjarnan tíu ár þar til það gerir eitthvað í málunum. Oft eru það ættingjar eða vinir sem fyrst verða varir við heyrnarskerðingu viðkomandi. Fyrstu merki heyrnarskerðingar geta verið margs konar en ástæða er til að leita sér aðstoðar ef:

  • þér finnst erfitt að tala í síma;
  • þér finnst eins og annað fólk sé almennt óskýrt eða þvoglumælt;
  • þér finnst erfitt að skilja það sem þú heyrir;
  • þú þarft að biðja aðra um að endurtaka það sem sagt var;
  • þú verður þreytt/ur eftir að hafa verið innan um fólk;
  • þú átt erfitt með að átta þig á því hvaðan hljóð berst
  • þú reynir að forðast margmenni.

Dagur heyrnar er hvatning til okkar að huga að heyrn okkar og taka henni ekki sem sjálfsögðum hlut. Það fylgja því mikil lífsgæði að hafa góða heyrn.

 

#WorldHearingDay

#safelistening
#hearingcare

#hearathon2021

Höfundur:Kristbjörg Gunnarsdóttir, Heyrnarfræðingur

Kristbjorg Gunnarsdottir passamynd

Dagur Heyrnar 2021 - Heyrnarheilsa fyrir alla!

Dagur Heyrnar 2021 m greinum
3. mars er Alþjóðadagur heyrnar, dagur sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin tileinkar heyrn. Í ár er dagurinn tileinkaður heyrnarheilsu fyrir alla. Þá mun fyrsta alþjóðlega skýrsla um heyrn verða birt en tilgangur hennar er að hvetja stjórnvöld í hverju landi til að móta stefnu innan heilbrigðiskerfisins um heyrnarheilsu.

Góð samskipti eru mikilvæg á öllum stigum ævinnar, þar getur heyrnarheilsa haft mikil áhrif. Ýmsar ástæður eru fyrir heyrnarskerðingu og sumar þeirra er hægt að fyrirbyggja með góðri heilbrigðisþjónustu og fræðslu. Í því samhengi má nefna bólusetningar fyrir sýkingum eins og hettusótt, mislingum, rauðum hundum o.fl, fræðslu um skaðsemi hávaða í umhverfi okkar, hávaðavarnir og hvernig ber að forðast heyrnarskemmandi hávaða.
Aðrar ástæður heyrnarskerðingar er erfiðara að fyrirbyggja og eru arfgengar heyrnarskerðingar stærsti hluti þeirra. Mikilvægt er að hafa heyrnarheilsu í huga allt lífshlaupið, við þurfum að kenna börnum okkar frá unga aldri hversu mikilvæg heyrnin er og hvernig á að passa upp á hana og vera meðvituð um ábyrgð okkar á eigin heyrnarheilsu.

Hávaði í umhverfi okkar er svo algengur að margir eru hættir að taka eftir honum og þeim áhrifum sem hann getur haft á líðan og heilsu. Hávaðinn getur leitt til hægt vaxandi heyrnarskerðingar sem einstaklingurinn verður ekki var við í fyrstu. Styrkur hljóðsins sem fer til eyrans hefur mest að segja um þær skemmdir sem geta orðið en einnig sá tími sem dvalið er í of miklum hávaða. Næmni innra eyrans fyrir hávaða er mismikil á milli einstaklinga, og getur þannig leitt til að þeir tapi ekki jafnmikilli heyrn þrátt fyrir að dvelja jafnlengi í sama umhverfi. Heyrnartap af völdum hávaða getur komið fyrir á öllum aldri, því fylgir oft eyrnasuð sem mörgum reynist jafnvel erfiðara að sætta sig við en heyrnartapið og skerta talgreiningu. Heyrnartap af völdum hávaða er óafturkræft en við hávaða verður skemmd á hárfrumum í kuðungi innra eyrans og þær frumur endurnýja sig ekki. Ennþá er ekki til aðferð til að lækna þennan skaða s.s. með lyfjum. Vonandi verður það hægt í framtíðinni en þangað til eru það fyrirbyggjandi aðgerðir sem gilda. Umhverfishávaði getur haft margvísleg áhrif á heilsu okkar og má þar nefna áhrif á svefn, erfiðleika við að sofna, truflun á djúpsvefni og að hrökkva upp af svefni. Streituáhrif hávaða geta komið fram í aukningu streituhormóna í blóði, hækkun blóðþrýstings, truflun á athygli og minnkaðri framsetningar- og einbeitingarhæfni. Það er því til mikils að vinna að draga úr hávaða í okkar daglega lífi.

Börn eru einnig útsett fyrir hávaða og þurfum við sem eldri erum að standa okkur betur í að huga að andlegri og líkamlegri heilsu barna sem dvelja í hávaða. Vaxtarskeiðið er viðkvæmur tími, heyrn er að þroskast og börnin skilja ekki alltaf þá hættu sem hávaði er. Þau hafa síður stjórn á umhverfi sínu og hegðun þeirra gerir þau oft meira útsett fyrir hávaða og afleiðingum hans. Börn eru í áhættuhópi vegna vanhæfni til að meta aðstæður og verja sig.

Margir hljóðgjafar eins og símar og önnur snjalltæki sem börn og unglingar hlusta á geta gefið frá sér hljóðstyrk sem getur verið heyrnarskemmandi. Foreldrar og aðrir fullorðnir eru mikilvægar fyrirmyndir barna. Þú getur verið góð fyrirmynd fyrir heilbrigða heyrnarheilsu með því að leiðbeina barni hvernig á að umgangast hljóð og njóta t.d. fuglasöngs og annarra hljóða í náttúrinni, tónlistar sem flutt er innan öruggs tónstyrks og ef styrkurinn er of mikill að nota heyrnarhlífar eða færa sig frá hljóðgjafanum. Upplýsum þau um hverjar afleiðingar það getur haft fyrir heyrnina þegar dvalið er í of miklum hávaða. Heyrnarskerðing af völdum hávaða hjá börnum getur haft áhrif á málþroska, námshæfni, kvíða og hegðun. Að vera útsettur fyrir miklum hávaða sem barn og unglingur getur síðar á ævinni leitt til heyrnarskerðingar sem m.a. getur átt þátt í minni félagslegum samskiptum, einangrun og andlegri færni.

Talið er að 50% þeirra sem hlusta á tónlist í gegn um heyrnartól noti hljóðstyrk sem getur verið heyrnarskemmandi. 5–10 % hlustenda er talinn líklegur til að þróa með sér heyrnarskerðingu vegna hlustunar gegn um persónuleg heyrnartól.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Alþjóða fjarskiptasambandið (ITU) sameinuðust árið 2019 um gerð staðals og leiðbeininga, WHO-ITU H.87, fyrir örugga hlustun frá persónulegum hljóðgjöfum (tækjum) með það að markmiði að koma í veg fyrir heyrnarskemmdir af völdum hávaða. Ráðlagt hámark er að fara ekki yfir 80 dB í 40 klst á viku fyrir fullorðna og 75 dB í 40 klst á viku fyrir börn. Til að fá upplýsingar um notkun þarf tækið að geta mælt á hvaða styrk og hversu lengi er hlustað á tækið, einnig er ráðlagt að foreldrar geti sett inn í tækið hámarksstyrk sem börnin mega hlusta á. Leiðbeiningarnar má finna á veg Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar

Verum samtaka um að minnka hljóðmengun í umhverfi okkar og stuðlum þannig að meiri lífsgæðum og betri heyrnarheilsu fyrir alla.

#WorldHearingDay

#safelistening

#hearingcare

#hearathon2021

Höfundur:: Ingibjörg Hinriksdóttir, yfirlæknir Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands

 

 

Dagur Heyrnar 3.3.´20

Þriðjudagurinn 3.3. er DAGUR HEYRNAR

Alþjóða Heilbrigðisstofnunin, WHO, kom þessum degi á fyrir allmörgum árum til að vekja athygli á heyrnarskerðingu og heyrnarleysi, sem er ein algengasta fötlun í heimi.

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands hefur fagnað DEGI HEYRNAR á íslandi síðustu árin og nú í ár höfum við tekið höndum saman við Sinfóníuhljómsveit Íslands og Vinnueftirlitiðum atburð til að vekja athygli á mikilvægi heyrnar fyrir fólk á öllum aldri. Á degi heyrnar 2020 munu heyrnarfræðingar HTÍ mæla heyrn hljómsveitarmeðlima og sérfræðingar Vinnueftirlitsins munu mæla hávaða á mismunandi vinnusvæðum Sinfóníunnar. Markmiðið er að vekja athygli á hættumörkum á hávaða og hvað fyrirtæki og einstaklingar geta gert til að vernda heyrn og tryggja góða hljóðvist. Sinfónían hefur mörg undanfarin ár stigið fjölmörg skref í þessa veru enda hafa rannsóknir sýnt að jafnvel klassískir tónlistarmenn eiga á hættu að missa heyrn vegna hávaða. Það eru ekki aðeins rokktónlistarmenn og unglingar með hátt stillt heyrnartól sem eru í hættu !

Heyrn og heyrnarvandamálDagur heyrnar

Á veraldarvísu eru um 466 Milljónir manna (þar af um 34 milljónir barna) með heyrnarskerðingu sem kallar á meðferð og heyrnarbætandi aðgerðir eða heyrnartæki. Aðeins hluti þeirra hefur þó aðgang að slíkri heyrnarþjónustu.

Á Íslandi eru milli 15 og 20 þúsund Íslendingar með skerta heyrn og þurfa heyrnarbætandi aðgerðir til að lifa óheftu lífi. Með öldrun þjóðarinnar stækkar þessi hópur hröðum skrefum. Auk öldrunar eru hávaði og sjúkdómar helstu orsakavaldar heyrnarskerðingar hér á landi. Heyrnarskerðing getur haft veruleg áhrif á líf fólks allt frá barnsaldri og til æviloka. Mikilvægi heyrnar er stórkostlegt fyrir málþroska og skólagöngu barna.

WHO leggur áherslu á að heilbrigðisyfirvöld og almenningur séu meðvituð um vandamálið og tryggi skimun á heyrn nýbura og barna sem komast á skólaaldur, reglulegar heyrnarmælingar og gott aðgengi að heyrnarbætandi aðgerðum og úrræðum, svo sem læknisþjónustu, heyrnar- og hjálpartækjum, kuðungsígræðslu o.fl., fyrir alla aldurshópa

Skilaboð WHO eru:   Heyrnarskerðing - ekki hömlun !      Heyrum alla ævina!

 

 dagur heyrnar 2020 gerum hlustun öruggadagur heyrnar 2020 endurheimtir aldrei

Fyrsti vísir að Heyrnar og talmeinastöð Íslands 22.des 1961

Í dag, 22.desember 2021, eru liðin nákvæmlega 60 ár síðan að ákvörðun var tekin um að stofna Heyrnarstöð fyrir börn við Heilsuverndarstöðina í Reykjavík. Þessi ákvörðun má teljast vera upphafið að tilveru HTÍ mörgum árum síðar. Stöðin tók síðan til starfa árið eftir og fyrstu starfsmenn voru Kristín Kjeld, hjúkrunarfræðingur og kennari og Erlingur Þorsteinsson, háls-nef og eyrnalæknir.
 
Kannski að við ættum að minna heilbrigðisyfirvöld á þá framsýni og fyrirhyggju yfirvalda fyrir 60 árum að vilja búa til og bæta þjónustu við heyrnarskerta (börn og fullorðna).
Hvert ætla heilbrigðisyfirvöld nútímans að stefna í þjónustu við fólk með þessa fötlun?  Það er löngu tímabært að auka við þjónustu við heyrnarskerta hér á landi og mjög aðkallandi að tryggja HTÍ betri aðstöðu og nægilegar bjargir til að fjölga sérmenntuðum heilbrigisstarfsmönnum sem geta sinnt þeim þúsundum Íslendinga sem eru með þessa algengu fötlun.
 
 

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands varar við eftirlitslausri heyrnartækjasölu

 

Vafasöm heyrnartæki?

Nýlega hefur borið á því að einstaklingar auglýsa stíft til aldraðra heyrnartæki til sölu. Auglýsingum hefur verið komið fyrir í sambýlum aldraðra, borið út í póstkassa á elliheimilum, dvalarheimilum og víðar.

Heyrnartækin sem bjóðast eru sögð ódýr og með 2ja ára ábyrgð. Þau eintök tækja sem Heyrnar-og talmeinastöð Íslands (HTÍ) hefur fengið að skoða eru kínversk framleiðsla og eru einfaldir hljóðmagnarar sem settir eru inn í hlustir viðkomandi. Tækin er ekki hægt að aðlaga sérstaklega að heyrnarskerðingu viðkomandi eintaklings.

Heyrnar-og Talmeinastöð Íslands varar heyrnarskerta eindregið við því að kaupa slík tæki án ráðgjafar frá fagaðilum!

Á Íslandi gilda lög og reglugerðir um sölu heyrnartækja og allir aðilar sem bjóða slík tæki þurfa skráningu Velferðarráðuneytis og lúta eftirliti Landlæknis.
HTÍ er ekki kunnugt um að þeir söluaðilar sem hér um ræðir hafi sótt um skráningu yfirvalda eða uppfylli lögbundnar kröfur um starfsemi aðila sem heimilt er að selja heyrnartæki.

Heyrnar-og talmeinastöð Íslands selur heyrnartæki frá helstu framleiðendum heyrnartækja í heiminum (s.s. Widex, Phonak, Siemens) og hefur á að skipa sérmenntuðu starfsfólki, háskólamenntuðum heyrnarfræðingum og sérfræðilæknum í heyrnarsjúkdómum.
Auk HTÍ starfa 3 viðurkenndar, einkareknar stöðvar sem hlotið hafa starfsleyfi yfirvalda til sölu heyrnartækja.

tækin umdeilduaxon2

tækin umdeildu

 

Athugasemd HTÍ: Ofangreind fréttatilkynning HTÍ hefur vakið mikla athygli (sbr t.d. frétt MBL.IS: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/01/god_lausn_eda_ologleg_starfssemi/ ) og í ljósi athugasemda frá þeim seljanda sem málið snýst um er rétt að taka fram að HTÍ selur ekki tæki sem eru tífalt dýrari. Verð á 1 heyrnartæki með niðurgreiðslu liggur á bilinu 33þús-145þús. Þá er um að ræða vönduð, stafræn heyrnartæki sem stillt eru sérstaklega fyrir hvern einstakling og mikil þjónusta fylgir.

 

Fimmtudagur 2.október: Enn bætist við umfjöllun um fréttatilkynningu HTÍ um vafasöm gæði heyrnartækja sem boðin eru til kaups. Sjá umfjöllun á vísir.is: http://www.visir.is/varar-heyrnarskerta-vid-odyrum-heyrnartaekjum/article/2014710029931
í athugasemdakerfi við fréttina gætir nokkurs misskilnings varðandi verð tækja. Sjá fyrri athugasemd hér að ofan. Ekki er rétt að bera saman verð á 20-30 ára gamalli tækni og nýjustu stafrænum heyrnartækjum. Þau tæki sem fréttin fjallar um bjóðast t.d. á vinsælli kínverskri netverslun á ca $8,00 (átta dollara eða tæpar 1000 krónur. Ath! útsöluverð til aldraðra á Íslandi tæpar 29000 krónur). Þau tæki eru sögð geta gefið hljóðstyrk í eyra >120dB sem er stórskaðlegur hávaði við viðvarandi notkun.
HTÍ ítrekar viðvörun sína um að heyrnarskertir leiti til fagaðila um fræðslu og umsögn áður en slík tæki eru keypt.

Heyrnarfræðingar HTÍ í sérblaði um konur í atvinnulífinu

KG og KP Frettablad jan20

Í sérblaði Fréttablaðsins, sem fjallar um konur í atvinnulífinu, er m.a. fjallað um störf tveggja af sérfræðingum Heyrnar-og talmeinastöðvar.

Stöllurnar og nöfnurnar Kristbjörg Gunnarsdóttir og Kristbjörg Pálsdóttir fjalla þar um starf sitt og dagleg viðfangsefni. Við hvetjum alla til að lesa greinina og sömuleiðis hvetjum við allt ungt fólk til að kanna hvort að heyrnarfræðinám er ekki eitthvað sem vert væri að skoða. Það eru mikil tækifæri á þeim vettvangi í framtíðinni.

Greinina má lesa með því að smella á hlekkinn hér að neðan:

https://www.frettabladid.is/kynningar/vinna-vi-a-bta-lifsgi-folks/

 

Heyrnartæki geta hjálpað fólki með eyrnasuð (tinnitus)

Notkun heyrnartækja sýna virkni í meðferð á eyrnasuði samkvæmt nýlegri rannsókn.

Eyrnarsuð2

Japönsk rannsókn hefur leitt í ljós að marktækur árangur næst í meðferð á eyrnasuði (tinnitus) þegar heyrnartækjum er beitt á réttan hátt.

Þátttakendur í rannsókninni voru með skerta heyrn og eyrnasuð (tinnitus) og fengu stillt á sig heyrnartæki sem hæfðu heyrnarskerðingunni. Allir notendur töldu notkun heyrnartækjanna hafa dregið verulega úr eyrnasuðinu og þeim áhrifum sem eyrnasuð hefur á líf þeirra.

Margt fólk með skerta heyrn þjáist einnig af eyrnasuði/tinnitus og margir þeirra sem eru með eyrnasuð telja sig hafa einhverja heyrnarskerðingu samhliða eyrnasuðinu þegar þau mæta til heyrnarmælingar.

Heyrnartækin auka hljóðmagn heyrnar

Þegar heyrnarskerðing er meðhöndluð með heyrnartækjum eru viss hljóð, sem hinn heyrnarskerta skortir, mögnuð upp. Þetta eykur s.k. audiological input og virðist draga úr eða ,,breiða yfir“ eyrnasuðið og draga þannig úr vanlíðan eyrnasuðssjúklinga.

Höfundar rannsóknarinnar segja að niðurstöður þeirra styðji fyrri rannsóknir sem hafa sýnt að notkun heyrnartækja geti sýnt ágætan árangur við eyrnasuði.

Vísindagreinin ber heitið “Retrospective evaluation of secondary effects of hearing aids for tinnitus therapy in patients with hearing loss”, og birtist í tímaritinu Auris Nasus Larynx.

Heimild: www.ncbi.nlm.nih.gov

Birt: janúar 2021

Heyrnartæki seinka ellihrörnun

ánægðir heyrnartækjanotendur eldri

Á síðustu árum hafa sífellt fleiri rannsóknir sýnt fram á gagnsemi þess að meðhöndla heyrnartap og skerta heyrn hjá öldruðum.
Góð heyrnarheilsa getur seinkað því að fólk fái elliglöp og að vitræn geta skerðist. Ný áströlsk rannsókn styður fyrri rannsóknir á þessu sviði.

Vísindamenn við háskólann í Melbourne í Ástralíu könnuðu notkun heyrnartækja hjá um 100 heyrnarskertum einstaklingum á aldrinum 62-82 ára.

Mældir voru þættir eins og heyrn, vitræn færni, mál- og talgreining, lífsgæði, líkamleg hreyfigeta, einmanaleiki, þunglyndi og notkun heilbrigðisþjónustu. Allt var þetta mælt bæði áður en fólkið fékk heyrnartæki og síðan aftur 18 mánuðum eftir að heyrnatækjanotkun hófst.

Niðurstöður rannsóknarinnar

Eftir 18 mánaða notkun heyrnartækja sáu rannsakendur að mál- og talgreining, eigið mat notenda á erfiðleikum við hlustun og heyrn sem og mat á lífsgæðum höfðu sýnt marktækar framfarir hjá þátttakendum.

Nær allir sýndu marktæka framför eða stöðugleika í að undirbúa og framkvæma hluti, skipuleggja og greina upplýsingar og meira frumkvæði í að hefja verkefni.

Konur sýndu meiri framfarir

Konur sýndu marktækt betri árangur hvað varðar minni – minni notað til rökfærslu og ákvarðanatöku – sem og betri árangur við flesta aðra þætti er lutu að vitrænni getu og færni (cognitive functions).

Rannsóknin sýni ennfremur að hlutfall notkunar heyrnartækja hélst í hendur við árangur þ.e. því meiri og stöðugri notkun heyrnartækja, þeim mun betri árangur sýndu þátttakendur. Konur reyndust miklu duglegri en karlar að nota heyrnartækin á rannsóknartímabilinu. Þær eru greinilega samviskusamari þessar elskur!

Niðurstöður rannsóknarinnar birtust í greininni: “The Effect of Hearing Aid Use on Cognition in Older Adults: Can We Delay Decline or Even Improve Cognitive Function?”,  sem birtist í tímaritinu Journal of Clinical Medicine.

Heimildir: www.eurakalert.org og Journal of Clinical Medicine

Birt: des 2020

HTÍ opnar afgreiðslu á ÍSAFIRÐI

Indíana Einarsdóttir

HTÍ opnar fasta móttöku heyrnarsviðs á ÍSAFIRÐI frá og með aprílmánuði.

Indíana Einarsdóttir, heyrnarfræðingur, hefur gengið til liðs við HTÍ og mun vera með fasta móttökutíma og þjónustu á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
Einnig er áætlað að Indíana heimsæki önnur útibú HVEST eftir þörfum og þá munu íbúar á Ströndum einnig njóta þjónustu á Hólmavík (auglýst sérstaklega).

Þetta eru góðar fréttir fyrir íbúa Vestfjarða sem hafa þurft að búa við óreglulegar heimsóknir eða að sækja þjónustu suður til Reykjavíkur.

Indíana er háskólamenntaður heyrnarfræðingur, sem nam fræðin í Noregi og starfaði þar um árabil. Hún hefur hlotið starfsleyfi Landlæknisembættis til að starfa sem heyrnarfræðingur á Íslandi.
Við bjóðum Indíönu velkomna í hópinn! Afgreiðslutímar auglýsir í svæðismiðlum, vefsíðum og Facebook.

Bókanir á hti.is og síma 581-3855.

www.hti.is/timabokanir

 

Hvernig para ég heyrnartækin

Pörun heyrnartækja og tengdum búnaði

Para Phonak heyrnartæki

Para við iPhone

Para appið heyrnartæki með hleðslurafhlöðum

Para Appið rafhlöðutæki

Para Android

Para við Android

Para appið hleðslutæki

Para Appið rafhlöðutæki

Öppin

Remote Control

MyRogerMic

Appið leiðbeiningar

Sjónvarpið

TV - Compilot

Roger table mix

TV-Connector

Para Widex heyrnartæki

Para við iPhone

Para við Android

Para widex aukabúnað

Para TV-Play

Tengja TV-Play

Para Tv-Dex

Com Dex leiðbeiningar

Com-Dex remote mic

Para Tv-Dex

Para sound assist iPhone

Para Sound assist Android

Sound assist leiðbeiningar

Para Signia heyrnartæki

Para við iPhone

Para við Android

Para Signia aukabúnað

Para Stream LiveTV

Para Stream LineMic

Stream LineMic með TV

Morgunblaðið fjallar um málefni heyrnarskertra

MBL 28agust2017

 

Við vekjum athygli á grein sem birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 28.ágúst þar sem blaðið fjallar um málefni heyrnarskertra.

Kveikjan að greininni er skipan heilbrigðisráðherra á vinnuhópi til að fara yfir málefni Heyrnar-og talmeinastöðvar Íslands og þá þjónustu sem heyrir undir málefnasvið stofnunarinnar.

Í greininni er m.a. rætt við Kristján Sverrisson, forstjóra HTÍ, sem kallar eftir auknum fjárveitingum og verulega auknu gæðaeftirliti með starfsemi HTÍ og annarra söluaðila heyrnartækja hér á landi.

Kristján nefnir einnig slæma stöðu aldraðra í hópi heyrnarskertra og hvernig fötlunin getur leitt til slæmra lífsgæða og einangrunar þeirra.

Þá er einnig rætt um óvandaða sölumennsku á ódýrum heyrnarmögnurum sem óprúttnir söluaðilar kalla heyrnartæki, þó að magnarar þessir eigi lítið skylt við vönduð nútímaheyrnartæki. Orsakir og einkenni heyrnarskerðingar eru einstaklingsbundnar og það skiptir öllu máli að sérfræðingar rannsaki og meti eðli heyrnarskerðingarinnar og stilli rétt tæki á réttan hátt !

Nýjir sjónvarpsþættir um HEYRN

Heyrnin Þættir Hringbraut


Sjónvarpsstöðin HRINGBRAUT hefur framleitt nýja þætti um heyrnina, heyrnarskerðingu og starfsemi HTÍ. Þættirnir voru unnir í samvinnu við Heyrnar-og talmeinastöð Íslands og það er hinn góðkunni sjónvarpsmaður, Sigmundur Ernir, sem leiðir áhorfendur í gegnum margvíslegan fróðleik um heyrnina með viðtölum við starfsfólk HTÍ og skjólstæðinga stöðvarinnar.

Fyrri hluti þáttanna var frumsýndur þriðjudagskvöldið 28.janúar og síðan verða þeir sýndir næstu daga og vikur.
Við vekjum athygli á því að þættirnir eru textaðir svo að heyrnarskertir og heyrnarlausir geti betur fylgst með því sem rætt er.

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands þakkar Hringbraut samstarfið og einnig þeim skjólstæðingum okkar sem tóku þátt með frábærum viðtölum og spjalli.

 

janúar 2020

Sjón- og heyrnarskerðing hefur veruleg áhrif á lífsgæði aldraðra

sjonogheyrnarskerding1

Miklu skiptir að greina vandann snemma og meðhöndla vel
til að viðhalda lífsgæðum og heilsu eldri borgara.

Aldraðir með bæði sjón- og heyrnarskerðingu búa við verra heilsufar og lífslíkur borið saman við jafnaldra þeirra sem hafa hvoruga fötlunina. Þetta sýnir nýleg rannsókn frá Singapore.

Skoðaðir voru hópa fólks á aldrinum 60, 70 og 80 ára, bæði með og án sjón- og/eða heyrnarskerðingu. Niðustöður sýna að fólk með annaðhvort sjónskerðingu eða heyrnarskerðingu eða samþætta skerðingu (bæði sjón-og heyrnarskerðingu) búa við verulega skerta líkamsfærni og skert lífsgæði miðað við jafnaldra með góða sjón og heyrn.

Meðhöndla þarf heyrnar- og sjónskerðingu aldraðra

Rannsakendur álykta að nauðsynlegt sé að beita snemmtækri og viðeigandi meðferð við skertri sjón og heyrn, sérstaklega ef um samþætta fötlun er að ræða til að draga úr líkum á því að fólk þurfi að lifa mörg ár við skerta hreyfi- og starfsgetu við daglegt líf.

,,Skert sjón og skert heyrn eru því miður oft talin eðlilegur og léttvægur hluti öldrunar og er oft bæði vangreindur og vanmeðhöndlaður heilsufarsvandi. Þessi mikilvæga rannsókn okkar sýnir að skjót greining og tímanlega meðhöndlun bæði sjón- og heyrnarskerðingar eldra fólks er lykillinn að bættum lífsgæðum fyrir eldri borgara, fjölskyldur þeirra og heilbrigðiskerfið,“ sagði prófessor Patrick Casey, Senior Vice Dean for Research at Duke-NUS í Singapore, í viðtali við tímaritið Science Daily.

Vandamál samkvæmt sjálfsmati aldraðra

Rannsakendur báðu þátttakendur um að meta eigin sjón og heyrn með tilliti til daglegra athafna. Þá voru þátttakendur spurðir um líkamlega getu s.s. hreyfigetu handa og fóta, færni til að ganga 200-300 metra vegalengd, ganga upp 10 þrep hvíldarlaust og að lyfta höndum upp yfir höfuð. Einnig voru þau spurð hvort að þau ættu erfitt með daglegar athafnir s.s. að baða sig, klæða sig, matast, vinna hin ýmsu heimilisstörf, lyfjatöku og hvort þau gætu ferðast með almenningssamgöngum.

Rannsóknin var gerð í þremur lotum. 3452 þátttakendur voru spurðir í fyrstu lotu (2009) og síðan fylgt eftir á árunum 2011-2012 og aftur árið 2015. Alls voru 3103 þátttakendur í annarri lotu og loks náðist í 1572 af upphaflegum þátttakendum í síðustu lotu árið 2015.

Aukin vandamál með hækkandi aldri

Í öllum lotum var hlutfall sjónskertra 12-17%, 6-9% voru með skerta heyrn og 9-13% voru með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.
Verulegur hluti þátttakenda, 34,6% (lotur 1 og 2) og 42,7% (lota 3), upplifðu stöðugt versnandi ástand sjónar og heyrnar á tímabili rannsóknarinnar.

Á fyrsta ári rannsóknarinnar (2009) sögðust 40,6% fólks með heyrnartap búa við takmarkaða líkamlega getu og 20,8% þeirra töldu fötlunina takmarka daglegar athafnir. Í annarri lotu (2011-2012) hækkuðu þessar tölur í 52,2% og 26,6% og í síðustu lotunni árið 2015 voru tölurnar komnar í 60,4% og 29,4%.

Í hópi fólks með BÆÐI sjón- og heyrnarskerðingu var skert hreyfigeta hjá 65,5% og takmarkanir á daglegum athöfnum hjá 39,28% í fyrstu lotu 2009.
Í annarri lotu hækkuðu þessar tölur í 64,3% og 43,7%. Í síðustu lotunni, 2015 voru tölurnar hjá fólki með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu komnar í 78,7% og 50,6% !

Færri ár án skertrar líkamlegrar getu

Rannsóknin sýnir að eldra fólk með skerta sjón OG heyrn geta vænst þess að 62% af elliárum þeirra markist af skertri líkamlegri getu en sambærileg tala fyrir fólk án sjón-og heyrnarskerðingar er 38%.

31% af elliárum þessa hóps mun markast af verulegum takmörkunum á færni til daglegra athafna á meðan hlutfall ára sem ófatlaðir jafnaldrar þeirra búa við slíkar takmarkanir er um 16%. Fólk með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu lifir einnig marktækt skemur en vel sjáandi og vel heyrandi jafnaldrar þeirra.

Rannsóknin

Rannsóknin studdist við svör úr langtíma könnun á heilsu eldri borgara í Singapore: Panel on Health and Ageing of Singaporean Elderly (PHASE).

Niðurstöður birtust í vísindagreininni ,,The Impact of Self-Reported Vision and Hearing Impairment on Health Expectancy”, sem gefin var út í tímaritinu The American Geriatric Society.

Heimild: www.sciencedaily.com og The American Geriatric Society

Veldur heyrnarskerðing elliglöpum ?

ID-100307566Langvinnt heyrnartap veldur rýrnun á heilastöðvum

Dr Frank Lin og rannsóknarteymi frá John Hopkins spítalanum og Bandarísku öldrunarstofnuninni (National Institute of Aging) hafa rannsakað samhengið á milli heyrnartaps aldraðra og andlegrar heilsu og heilastarfsemi þeirra. Niðurstöður hópsins benda til þess að heyrnartap flýti hrörnun heilans og geti verið orsakavaldur ýmissa sjúkdóma s.s. Alzheimers, geðsjúkdóma og elliglapa.

Hópurinn notaði gögn úr langtímarannsókn (Baltimore Longitudinal Study of Aging) til að skoða breytingar á heilastarfsemi aldraðra með eðlilega heyrn og samanburðarhóps aldraðra með skerta heyrn. Fyrri rannsóknir hafa áður sýnt fram á tengsl á milli heyrnarskerðingar og breyttrar heilastarfsemi. T.d. virðast svæði heilans sem vinna úr hljóði og heyrnarmerkjum vera minni hjá heyrnarskertum en hjá fullheyrandi einstaklingum. Ekki hafði þó verið sýnt fram á að breytingarnar kæmu til vegna heyrnarskerðingarinnar eða hefður verið til staðar áður en heyrnarskerðing kom til sögunnar.

Rannsóknin                                                     

126 aldraðir einstaklingar, ýmist heyrandi (75) eða heyrnarskertir (51) fóru í heilaskanna og nákvæma heyrnarmælingu árið 1994 og þeim síðan fylgt eftir árlega. Niðurstöður sýna að heyrnarskertu einstaklingarnir sýndu hraðari hörnun heilans (rýrnun heilavefjar) en jafnaldrar með eðlilega heyrn. Þessir einstaklingar sýndu einnig hlutfallslega meiri rýrnun í þeim heilastöðvum sem vinna úr hljóðum og tali.
Dr Lin segir þetta valda áhyggjum þar sem þessi heilasvæði sinni ekki eingöngu heyrn heldur séu einnig mikilvægar starfsstöðvar þegar kemur að minni og skynjun. Þessi svæði heilans komi þannig við sögu í elliglöpum og hjá Alzheimer sjúklingum.

Mikilvægt að meðhöndla heyrnarskerðingu

Rannsakendur leggja áherslu á mikilvægi þess að láta ekki heyrnarskerðingu ómeðhöndlaða. „Við viljum að gripið sé til meferðar á heyrnarskerðingu sem fyrst í ferlinu.“ segir dr Lin, „Ef heyrnarskerðing veldur þessum neikvæðu áhrifum, sem við sjáum á heilaskanna, þá viljum við meðhöndla heyrn einstaklinganna áður en þessar óafturkræfu breytingar á heilanum eiga sér stað.“

Meira en helmingur fólks 75 ára og eldra er með skerta heyrn og með auknu langlífi verður heyrnarskerðing og heyrnartap sífellt stærra vandamál. Afar mikilvægt er að auka lífsgæði þessa hóps með því að meðhöndla heyrnarskerðinguna um leið og hún greinist. Í ljósi rannsóknar dr Lin og félaga er enn brýnni nauðsyn á að tryggja að allir eldri borgarar geti fengið nauðsynlega meðhöndlun á heyrn sinni. Heyrnartæki verða og eiga að vera aðgengileg og innan kaupgetu eldri borgara.

Hvernig hjálpa heyrnartæki?

Næstu skref í rannsókn dr Lin er að kanna hvort að reglulega notkun heyrnartækja og snemmtæk íhlutun í heyrnarskerðingu fullorðinna geti breytt einhverju um þróun elliglapa. Aðspurður að gagnsemi heyrnartækja svarar dr Lin: „Við vitum því miður ekki enn hvort að kjörmeðferð við heyrnarskerðingu með góðum heyrnartækjum og reglulegu eftirliti geti afstýrt þessum breytingum sem við sáum. Það krefst mun stærri rannsóknar og yfir lengri tíma. Við vonumst þó til að næstu rannsóknir okkar geti svarað þessari spurningu.“
Heyrnartæki, ef rétt notuð og stillt eftir heyrn viðkomandi getur auðveldað fólki hljóðvinnslu og talgreiningu. Því er rökrétt að álykta að bætt heyrn með hjálp heyrnartækja gæti dregið úr líkum á þeim breytingum á heila sem rannsóknir dr Lin og félaga sýndu. Vonandi tekst að sýna fram á það í framtíðinni.

Heimildir:
www.asha.org
www.hopkinsmedicine.org

júlí 2015

 

Vissir þú að með virkri heyrnarvernd og meðhöndlun heyrnarskerðingar getur þú bætt heilsu þína og líðan ?

Ef þú svarar ,,Nei“ þá skaltu vita að þú ert ekki ein(n) á báti !

heyrnarheilsa1

Nýleg könnun meðal 2000 Englendinga sýnir mikla vanþekkingu á sambandi ómeðhöndlaðrar heyrnarskerðingar og heilsu fólks.

67% svarenda vissu ekki að ómeðhöndlað heyrnatap getur flýtt fyrir ellihrörnun og elliglöpum fólks. Þar að auki sagðist meira en helmingur (53%) aðspurðra ekki vita að heyrnarskerðing geti valdi þundlyndi og öðrum geðrænum vanda.
Ómeðhöndlað heyrnartap er einnig talið hafa áhrif á sykursýki, svefnvandamál, hjartasjúkdóma og auknar líkur á falli.

Athygli vekur að sá hópur sem minnst vissi um vandamál tengd heyrnartapi var aldurshópurinn 45-54 ára. Þetta skiptir máli því að um 40% fólks yfir fimmtugt er með einhverja heyrnarskerðingu og það hlutfall fer síðan upp í um 70% hjá þeim sem eru eldri en 70 ára.

Sem betur fer sögðust um 64%, eða nær tveir af hverjum þremur, að þau mundu nota heyrnartæki ef þau vissu um þessi vandamál.

GÓÐU FRÉTTIRNAR eru þær að allir svarendur sem þegar voru heyrnartækjanotendur í könnuninni sögðu að heyrnartækin bættu lífsgæði sín og að þau vildu bara að þau hefðu fengið sér heyrnartæki fyrr!

Heimild: *Survey of 2000 UK adults commissioned by the British Irish Hearing Instrument Manufacturers Association (BIHIMA)

Vista
Vefkökur samþykki og yfirlit
Við notum vefkökur til að betrumbæta notendaupplifun vefsins. Ef þú samþykkir ekki notkun vefkaka getur það bitnað á virkni og notkun hans.
Samþykki allar
Neita öllum
Lesa skilmála
Functional
Forrit sem eru notuð til að veita þér fleiri möguleika eins og til dæmis tengingu við samfélagsmiðla.
Osano
Vefkaka sem geymir tímabundið samþykki þitt á þessari vefsíðu
Samþykkja
Neita
Analytics
Forrit sem skráir og mælir skilvirkni vefsíðunnar. Greinir notkun gesta. Við notum þessar upplýsingar til að betrumbæta upplifun notenda.
Google Analytics
Rýnir í vefumferð á vefnum svo hægt sé betrumbæta hann.
Samþykkja
Neita