Skip to main content

Dagur Heyrnar - Um mikilvægi nýbura-heyrnarskimunar

Dagur Heyrnar 2021 m greinumí tilefni af Degi heyrnar, þann 3/3

Nýburamælingar á heyrn bjóðast öllum nýfæddum börnum á Íslandi og er samvinnuverkefni Heyrnar-og talmeinstöðvar Íslands (HTÍ) og Barnaspítala Hringsins (BSH), fæðingardeildar á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAK), Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) á Selfossi og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) í Keflavík. Mælingin fer fram þegar börn koma í 5 daga skoðun á fyrrgreindum stöðum. Þeim börnum sem ekki koma í 5 daga skoðun fylgir HTÍ eftir og eins fara börn sem ekki standast nýburaskimun í frekari uppvinnslu og eftirfylgd á HTÍ.

Á hverju ári fæðast 1-2 börn á hver 1000 fædd börn með einhverja tegund af heyrnarskerðingu. Við upphaf grunnskólagöngu er fjöldinn um 3-4 börn á hver 1000 börn og í aldurshópnum 15-18 ára, 5 af hverjum 1000 börnum. Heyrnarskerðing á öðru eyranu eða væg heyrnarskerðing á báðum eyrum eru helstu ástæður fyrir fjölgun milli aldurshópa.

Forsenda málþroska og málskilnings barns er góð heyrn og heyrnarminni heilans. Heyrnin er eitt þeirra skynfæra sem móta barnið, atferli þess og persónuleika. Með heyrninni læra börn málið og notkun þess en einnig að skynja blæbrigði máls.
Á 25. viku meðgöngu er fóstur með fullþroskuð heyrnarlíffæri og getur heyrt. Barn sem fæðist með heyrnarskerðingu er því strax við fæðingu á eftir sínum jafnöldrum í þroska á heyrnarhluta heilans. Öflugasta tímabil í þroska heilans er á fyrstu tveimur aldursárum barns og er því gríðarlega mikilvægt að endurhæfing hefjist sem fyrst eftir greiningu. Fyrir tíma heyrnarskimunar var greiningaraldur mikið heyrnarskertra barna milli 12 og 18 mánaða en börn með miðlungsalvarlegar heyrnarskerðingar upp úr 2-3 ára aldri eða jafnvel seinna. Það er óviðunandi hár greiningaraldur.

Skimun á heyrn við fæðingu með núverandi tækni hófst á Íslandi 2007 á Barnaspítala Hringsins, skömmu síðar á SAK og 2019 á HSU og HSS.
Í dag er foreldrum barna sem fæðast með alvarlega heyrnarskerðingu beggja vegna boðin kuðungsígræðsluaðgerð fyrir barnið. Kuðungsígræðsla er tækni sem gefur heyrnarlausum börnum möguleika á að heyra hljóð og læra talmál til jafns við sína jafnaldra. Forsenda þess að sá þroski verði, er að heyrnarlaust barn greinist sem fyrst eftir fæðingu og fái kuðungsígræðslu fyrir eins árs aldur. Einnig, þegar um er að ræða minna alvarlegar heyrnarskerðingar, er endurhæfing með hefðbundnum heyrnartækjum fyrir 6 mánaðar aldur mjög mikilvæg fyrir málþroskann.

Þrátt fyrir að barn standist heyrnarskimun við fæðingu geta ættgengar og áunnar heyrnarskerðingar komið fram hvenær sem er á lífsleiðinni. Í ung-og smábarnavernd á heilsugæslustöðvum landsins er börnum fylgt eftir fram að grunnskólaaldri. Málþroskapróf eru lögð fyrir börn með reglulegum millibilum en skimun á heyrn hjá börnum á forskóla og grunnskólaaldri var afnumin hérlendis árið 2012, sem er miður. En eins og fram kom hér að framan eykst nýgengi heyrnarskerðingar úr 1-2/1000 við fæðingu upp í 5/1000 fyrir 18 ára aldur og þó sú fjölgun sé að mestu vegna vægrar heyrnarskerðingar getur það samt sem áður haft afgerandi áhrif á málþroska, námsgetu og félagslegan þroska barns. Heyrnarmælingar eru einfaldar í framkvæmd og mikilvægt er að barni sé vísað í heyrnarmælingu, sérstaklega ef foreldrar hafa áhyggjur af heyrn barns, ef um seinkun á málþroska barns er að ræða eða barn sýnir merki um skerta athygli.  

Höfundur:  Eva Albrechtsen, Sérfræðilæknir, Heyrnar-og talmeinastöð Íslands

Eva Albrechtsen

Save
Cookies user preferences
We use cookies to ensure you to get the best experience on our website. If you decline the use of cookies, this website may not function as expected.
Accept all
Decline all
Read more
Functional
Tools used to give you more features when navigating on the website, this can include social sharing.
Osano
Vefkaka sem geymir tímabundið samþykki þitt á þessari vefsíðu
Accept
Decline
Analytics
Tools used to analyze the data to measure the effectiveness of a website and to understand how it works.
Google Analytics
Rýnir í vefumferð á vefnum svo hægt sé betrumbæta hann.
Accept
Decline