í tilefni af Degi heyrnar, þann 3/3
Nýburamælingar á heyrn bjóðast öllum nýfæddum börnum á Íslandi og er samvinnuverkefni Heyrnar-og talmeinstöðvar Íslands (HTÍ) og Barnaspítala Hringsins (BSH), fæðingardeildar á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAK), Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) á Selfossi og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) í Keflavík. Mælingin fer fram þegar börn koma í 5 daga skoðun á fyrrgreindum stöðum. Þeim börnum sem ekki koma í 5 daga skoðun fylgir HTÍ eftir og eins fara börn sem ekki standast nýburaskimun í frekari uppvinnslu og eftirfylgd á HTÍ.
Á hverju ári fæðast 1-2 börn á hver 1000 fædd börn með einhverja tegund af heyrnarskerðingu. Við upphaf grunnskólagöngu er fjöldinn um 3-4 börn á hver 1000 börn og í aldurshópnum 15-18 ára, 5 af hverjum 1000 börnum. Heyrnarskerðing á öðru eyranu eða væg heyrnarskerðing á báðum eyrum eru helstu ástæður fyrir fjölgun milli aldurshópa.
Forsenda málþroska og málskilnings barns er góð heyrn og heyrnarminni heilans. Heyrnin er eitt þeirra skynfæra sem móta barnið, atferli þess og persónuleika. Með heyrninni læra börn málið og notkun þess en einnig að skynja blæbrigði máls.
Á 25. viku meðgöngu er fóstur með fullþroskuð heyrnarlíffæri og getur heyrt. Barn sem fæðist með heyrnarskerðingu er því strax við fæðingu á eftir sínum jafnöldrum í þroska á heyrnarhluta heilans. Öflugasta tímabil í þroska heilans er á fyrstu tveimur aldursárum barns og er því gríðarlega mikilvægt að endurhæfing hefjist sem fyrst eftir greiningu. Fyrir tíma heyrnarskimunar var greiningaraldur mikið heyrnarskertra barna milli 12 og 18 mánaða en börn með miðlungsalvarlegar heyrnarskerðingar upp úr 2-3 ára aldri eða jafnvel seinna. Það er óviðunandi hár greiningaraldur.
Skimun á heyrn við fæðingu með núverandi tækni hófst á Íslandi 2007 á Barnaspítala Hringsins, skömmu síðar á SAK og 2019 á HSU og HSS.
Í dag er foreldrum barna sem fæðast með alvarlega heyrnarskerðingu beggja vegna boðin kuðungsígræðsluaðgerð fyrir barnið. Kuðungsígræðsla er tækni sem gefur heyrnarlausum börnum möguleika á að heyra hljóð og læra talmál til jafns við sína jafnaldra. Forsenda þess að sá þroski verði, er að heyrnarlaust barn greinist sem fyrst eftir fæðingu og fái kuðungsígræðslu fyrir eins árs aldur. Einnig, þegar um er að ræða minna alvarlegar heyrnarskerðingar, er endurhæfing með hefðbundnum heyrnartækjum fyrir 6 mánaðar aldur mjög mikilvæg fyrir málþroskann.
Þrátt fyrir að barn standist heyrnarskimun við fæðingu geta ættgengar og áunnar heyrnarskerðingar komið fram hvenær sem er á lífsleiðinni. Í ung-og smábarnavernd á heilsugæslustöðvum landsins er börnum fylgt eftir fram að grunnskólaaldri. Málþroskapróf eru lögð fyrir börn með reglulegum millibilum en skimun á heyrn hjá börnum á forskóla og grunnskólaaldri var afnumin hérlendis árið 2012, sem er miður. En eins og fram kom hér að framan eykst nýgengi heyrnarskerðingar úr 1-2/1000 við fæðingu upp í 5/1000 fyrir 18 ára aldur og þó sú fjölgun sé að mestu vegna vægrar heyrnarskerðingar getur það samt sem áður haft afgerandi áhrif á málþroska, námsgetu og félagslegan þroska barns. Heyrnarmælingar eru einfaldar í framkvæmd og mikilvægt er að barni sé vísað í heyrnarmælingu, sérstaklega ef foreldrar hafa áhyggjur af heyrn barns, ef um seinkun á málþroska barns er að ræða eða barn sýnir merki um skerta athygli.
Höfundur: Eva Albrechtsen, Sérfræðilæknir, Heyrnar-og talmeinastöð Íslands
Á degi heyrnar þann 3. Mars er ekki úr vegi að benda á þau lífsgæði sem felast í því að heyra vel. Við tökum því flest sem sjálfsögðum hlut að geta farið í leikhús eða á tónleika, að geta talað án vandræða í síma, fylgst með samfélagsumræðu í sjónvarpi eða útvarpi, hlustað á hljóðbækur og almennt notið þess að vera innan um fólk og spjalla um daginn og veginn.
Góð heyrn er ekki sjálfgefin og því þarf að leiða hugann að henni eins og öðrum lífsgæðum. Herynarskerðing gerist sjaldan á einni nóttu. Oftast er um að ræða hægfara ferli og því á fólk oft erfitt með að átta sig á að það sé farið að heyra illa. Við erum þeim hæfileikum búin að aðlagast breyttum aðstæðum og þá sérstaklega breytingum sem gerast hægt og rólega. Að lokum kemur þó að því að heyrnarskerðingin fer að hafa veruleg áhrif á daglegt líf fólks, bæði líkamleg og sálræn. Stoðkerfisvandamál eins og höfuðverkur og vöðvabólga eru oft fylgikvillar þess að heyra illa. Það stafar af því að fólk með heyrnarskerðingu þarf oft að einbeita sér meira til þess að heyra og skilja það sem fram fer í kringum það og úrvinnsla upplýsinganna krefst einfaldlega meiri orku en þegar heyrn er góð. Talað er um að sálræn áhrif heyrnarskerðingar geti verið kvíði og einangrun. Einstaklingar með heyrnarskerðingu njóta þess síður en aðrir að vera innan um annað fólk.
Það er til mikils að vinna að grípa inn í það ferli sem heyrnarskerðing er og leita sér hjálpar en frá því að fólk verður fyrst vart við að heyrn þess sé að skerðast líða gjarnan tíu ár þar til það gerir eitthvað í málunum. Oft eru það ættingjar eða vinir sem fyrst verða varir við heyrnarskerðingu viðkomandi. Fyrstu merki heyrnarskerðingar geta verið margs konar en ástæða er til að leita sér aðstoðar ef:
- þér finnst erfitt að tala í síma;
- þér finnst eins og annað fólk sé almennt óskýrt eða þvoglumælt;
- þér finnst erfitt að skilja það sem þú heyrir;
- þú þarft að biðja aðra um að endurtaka það sem sagt var;
- þú verður þreytt/ur eftir að hafa verið innan um fólk;
- þú átt erfitt með að átta þig á því hvaðan hljóð berst
- þú reynir að forðast margmenni.
Dagur heyrnar er hvatning til okkar að huga að heyrn okkar og taka henni ekki sem sjálfsögðum hlut. Það fylgja því mikil lífsgæði að hafa góða heyrn.
#WorldHearingDay
#safelistening
#hearingcare
#hearathon2021
Höfundur:Kristbjörg Gunnarsdóttir, Heyrnarfræðingur
Þriðjudagurinn 3.3. er DAGUR HEYRNAR
Alþjóða Heilbrigðisstofnunin, WHO, kom þessum degi á fyrir allmörgum árum til að vekja athygli á heyrnarskerðingu og heyrnarleysi, sem er ein algengasta fötlun í heimi.
Heyrnar- og talmeinastöð Íslands hefur fagnað DEGI HEYRNAR á íslandi síðustu árin og nú í ár höfum við tekið höndum saman við Sinfóníuhljómsveit Íslands og Vinnueftirlitiðum atburð til að vekja athygli á mikilvægi heyrnar fyrir fólk á öllum aldri. Á degi heyrnar 2020 munu heyrnarfræðingar HTÍ mæla heyrn hljómsveitarmeðlima og sérfræðingar Vinnueftirlitsins munu mæla hávaða á mismunandi vinnusvæðum Sinfóníunnar. Markmiðið er að vekja athygli á hættumörkum á hávaða og hvað fyrirtæki og einstaklingar geta gert til að vernda heyrn og tryggja góða hljóðvist. Sinfónían hefur mörg undanfarin ár stigið fjölmörg skref í þessa veru enda hafa rannsóknir sýnt að jafnvel klassískir tónlistarmenn eiga á hættu að missa heyrn vegna hávaða. Það eru ekki aðeins rokktónlistarmenn og unglingar með hátt stillt heyrnartól sem eru í hættu !
Heyrn og heyrnarvandamál
Á veraldarvísu eru um 466 Milljónir manna (þar af um 34 milljónir barna) með heyrnarskerðingu sem kallar á meðferð og heyrnarbætandi aðgerðir eða heyrnartæki. Aðeins hluti þeirra hefur þó aðgang að slíkri heyrnarþjónustu.
Á Íslandi eru milli 15 og 20 þúsund Íslendingar með skerta heyrn og þurfa heyrnarbætandi aðgerðir til að lifa óheftu lífi. Með öldrun þjóðarinnar stækkar þessi hópur hröðum skrefum. Auk öldrunar eru hávaði og sjúkdómar helstu orsakavaldar heyrnarskerðingar hér á landi. Heyrnarskerðing getur haft veruleg áhrif á líf fólks allt frá barnsaldri og til æviloka. Mikilvægi heyrnar er stórkostlegt fyrir málþroska og skólagöngu barna.
WHO leggur áherslu á að heilbrigðisyfirvöld og almenningur séu meðvituð um vandamálið og tryggi skimun á heyrn nýbura og barna sem komast á skólaaldur, reglulegar heyrnarmælingar og gott aðgengi að heyrnarbætandi aðgerðum og úrræðum, svo sem læknisþjónustu, heyrnar- og hjálpartækjum, kuðungsígræðslu o.fl., fyrir alla aldurshópa.
Skilaboð WHO eru: Heyrnarskerðing - ekki hömlun ! Heyrum alla ævina!