Skip to main content

Dagur Heyrnar - Um mikilvægi nýbura-heyrnarskimunar

Dagur Heyrnar 2021 m greinumí tilefni af Degi heyrnar, þann 3/3

Nýburamælingar á heyrn bjóðast öllum nýfæddum börnum á Íslandi og er samvinnuverkefni Heyrnar-og talmeinstöðvar Íslands (HTÍ) og Barnaspítala Hringsins (BSH), fæðingardeildar á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAK), Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) á Selfossi og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) í Keflavík. Mælingin fer fram þegar börn koma í 5 daga skoðun á fyrrgreindum stöðum. Þeim börnum sem ekki koma í 5 daga skoðun fylgir HTÍ eftir og eins fara börn sem ekki standast nýburaskimun í frekari uppvinnslu og eftirfylgd á HTÍ.

Á hverju ári fæðast 1-2 börn á hver 1000 fædd börn með einhverja tegund af heyrnarskerðingu. Við upphaf grunnskólagöngu er fjöldinn um 3-4 börn á hver 1000 börn og í aldurshópnum 15-18 ára, 5 af hverjum 1000 börnum. Heyrnarskerðing á öðru eyranu eða væg heyrnarskerðing á báðum eyrum eru helstu ástæður fyrir fjölgun milli aldurshópa.

Forsenda málþroska og málskilnings barns er góð heyrn og heyrnarminni heilans. Heyrnin er eitt þeirra skynfæra sem móta barnið, atferli þess og persónuleika. Með heyrninni læra börn málið og notkun þess en einnig að skynja blæbrigði máls.
Á 25. viku meðgöngu er fóstur með fullþroskuð heyrnarlíffæri og getur heyrt. Barn sem fæðist með heyrnarskerðingu er því strax við fæðingu á eftir sínum jafnöldrum í þroska á heyrnarhluta heilans. Öflugasta tímabil í þroska heilans er á fyrstu tveimur aldursárum barns og er því gríðarlega mikilvægt að endurhæfing hefjist sem fyrst eftir greiningu. Fyrir tíma heyrnarskimunar var greiningaraldur mikið heyrnarskertra barna milli 12 og 18 mánaða en börn með miðlungsalvarlegar heyrnarskerðingar upp úr 2-3 ára aldri eða jafnvel seinna. Það er óviðunandi hár greiningaraldur.

Skimun á heyrn við fæðingu með núverandi tækni hófst á Íslandi 2007 á Barnaspítala Hringsins, skömmu síðar á SAK og 2019 á HSU og HSS.
Í dag er foreldrum barna sem fæðast með alvarlega heyrnarskerðingu beggja vegna boðin kuðungsígræðsluaðgerð fyrir barnið. Kuðungsígræðsla er tækni sem gefur heyrnarlausum börnum möguleika á að heyra hljóð og læra talmál til jafns við sína jafnaldra. Forsenda þess að sá þroski verði, er að heyrnarlaust barn greinist sem fyrst eftir fæðingu og fái kuðungsígræðslu fyrir eins árs aldur. Einnig, þegar um er að ræða minna alvarlegar heyrnarskerðingar, er endurhæfing með hefðbundnum heyrnartækjum fyrir 6 mánaðar aldur mjög mikilvæg fyrir málþroskann.

Þrátt fyrir að barn standist heyrnarskimun við fæðingu geta ættgengar og áunnar heyrnarskerðingar komið fram hvenær sem er á lífsleiðinni. Í ung-og smábarnavernd á heilsugæslustöðvum landsins er börnum fylgt eftir fram að grunnskólaaldri. Málþroskapróf eru lögð fyrir börn með reglulegum millibilum en skimun á heyrn hjá börnum á forskóla og grunnskólaaldri var afnumin hérlendis árið 2012, sem er miður. En eins og fram kom hér að framan eykst nýgengi heyrnarskerðingar úr 1-2/1000 við fæðingu upp í 5/1000 fyrir 18 ára aldur og þó sú fjölgun sé að mestu vegna vægrar heyrnarskerðingar getur það samt sem áður haft afgerandi áhrif á málþroska, námsgetu og félagslegan þroska barns. Heyrnarmælingar eru einfaldar í framkvæmd og mikilvægt er að barni sé vísað í heyrnarmælingu, sérstaklega ef foreldrar hafa áhyggjur af heyrn barns, ef um seinkun á málþroska barns er að ræða eða barn sýnir merki um skerta athygli.  

Höfundur:  Eva Albrechtsen, Sérfræðilæknir, Heyrnar-og talmeinastöð Íslands

Eva Albrechtsen

Dagur Heyrnar - Við heyrum með heilanum


Við heyrum með heilanum – eyrun eru einungisaðgangur að hljóðheiminum !

Alþjóðlegur dagur heyrnar er 3. mars – dagurinner haldinn hátíðlegur víðsvegar um heim til að vekja athygli á mikilvægigóðrar heyrnar og áhrifum heyrnarskerðingar á lífsgæði fólks.
Með deginum ereinnig ætlað aðauka meðvitund á neikvæðumáhrifum hávaða á heyrn ogtil aðhvetja fólk til þessaað mæla heyrn ef grunur vaknar um heyrnarskerðingu.

Góð heyrn er mikilvæg svo máltaka barna geti þróast á dæmigerðan hátt. Við heyrum í raun með heilanum og eru eyrun einungis aðgangur hljóðrænna upplýsinga til heilans. Hljóðaörvun þroskar heyrnrænar taugatengingar sem er forsenda þess að tal og mál þroskist eðlilega. Að efla hlustunarþroskafelst í því aðhvetjabarn til aðveitahljóðum og röddum áhuga ogöðlast þannig færni í að greina á milli þeirra hljóða og radda sem þheyrir. Ungabörn byrja fljótt að greina á milli hljóða og beina athygli sinni að þeim hljóðum sem eru í móðurmálinu og stilla sig inn á þau. Þessi hljóðgreining hjálpar þeim að greina tal og læra ný orð. Hlustunarþroski er grunnur fyrir málþroska barna.Börn tileinka sérmálið í gegnumríkt málumhverfisem eflirsmá saman færni þeirra ímóðurmáli sínu.Þeim er ekki kenntmáliðheldur læra þau það ómeðvitað með því að eiga í merkingabærumsamskiptumog hlusta á samskipti annarra, þau læra þaðbæðibeint og útundan sér. Þau efla einnig félagfærni með því að hlusta.
Mikilvægt er að hlúa að góðum skilyrðum til máltöku og hlustunar. Þegar aðgangur að heyrn er takmarkaður vegna langvarandi heyrnarskerðingar þá getur það haft áhrif á málgetu.
Gæta þarf að góðri hljóðvist og samskiptum við börn með heyrnarskerðingu og þá sérstaklega í skólakerfinu

Nýburamælingar á  heyrn eru því afar mikilvægur þáttur í að skima fyrir heyrnarskerðingu svo hægt sé aðbjóða viðeigandi þjónustuog veitabörnum með heyrnarskerðingutækifæri til að nema mál til jafns við önnur börn. 

Höfundur: Kristín Th. Þórarinsdóttir, talmeinafræðingur á Heyrnar – og talmeinastöð Íslands.

Kristin talmfr

 

Dagur Heyrnar 2021 - Heyrn og lífsgæði

Dagur Heyrnar 2021 m greinum
Á degi heyrnar þann 3. Mars er ekki úr vegi að benda á þau lífsgæði sem felast í því að heyra vel. Við tökum því flest sem sjálfsögðum hlut að geta farið í leikhús eða á tónleika, að geta talað án vandræða í síma, fylgst með samfélagsumræðu í sjónvarpi eða útvarpi, hlustað á hljóðbækur og almennt notið þess að vera innan um fólk og spjalla um daginn og veginn.

Góð heyrn er ekki sjálfgefin og því þarf að leiða hugann að henni eins og öðrum lífsgæðum. Herynarskerðing  gerist sjaldan á einni nóttu. Oftast er um að ræða hægfara ferli og því á fólk oft erfitt með að átta sig á að það sé farið að heyra illa. Við erum þeim hæfileikum búin að aðlagast breyttum aðstæðum og þá sérstaklega breytingum sem gerast hægt og rólega. Að lokum kemur þó að því að heyrnarskerðingin fer að hafa veruleg áhrif á daglegt líf fólks, bæði líkamleg og sálræn. Stoðkerfisvandamál eins og höfuðverkur og vöðvabólga eru oft fylgikvillar þess að heyra illa. Það stafar af því að fólk með heyrnarskerðingu þarf oft að einbeita sér meira til þess að heyra og skilja það sem  fram fer í kringum það og úrvinnsla upplýsinganna krefst einfaldlega meiri orku en þegar heyrn er góð. Talað er um að sálræn áhrif heyrnarskerðingar geti verið kvíði og einangrun. Einstaklingar með heyrnarskerðingu njóta þess síður en aðrir að vera innan um annað fólk.

Það er til mikils að vinna að grípa inn í það ferli sem heyrnarskerðing er og leita sér hjálpar  en frá því að fólk verður fyrst vart við að heyrn þess sé að skerðast líða gjarnan tíu ár þar til það gerir eitthvað í málunum. Oft eru það ættingjar eða vinir sem fyrst verða varir við heyrnarskerðingu viðkomandi. Fyrstu merki heyrnarskerðingar geta verið margs konar en ástæða er til að leita sér aðstoðar ef:

  • þér finnst erfitt að tala í síma;
  • þér finnst eins og annað fólk sé almennt óskýrt eða þvoglumælt;
  • þér finnst erfitt að skilja það sem þú heyrir;
  • þú þarft að biðja aðra um að endurtaka það sem sagt var;
  • þú verður þreytt/ur eftir að hafa verið innan um fólk;
  • þú átt erfitt með að átta þig á því hvaðan hljóð berst
  • þú reynir að forðast margmenni.

Dagur heyrnar er hvatning til okkar að huga að heyrn okkar og taka henni ekki sem sjálfsögðum hlut. Það fylgja því mikil lífsgæði að hafa góða heyrn.

 

#WorldHearingDay

#safelistening
#hearingcare

#hearathon2021

Höfundur:Kristbjörg Gunnarsdóttir, Heyrnarfræðingur

Kristbjorg Gunnarsdottir passamynd

Dagur Heyrnar 2021 - Heyrnarheilsa fyrir alla!

Dagur Heyrnar 2021 m greinum
3. mars er Alþjóðadagur heyrnar, dagur sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin tileinkar heyrn. Í ár er dagurinn tileinkaður heyrnarheilsu fyrir alla. Þá mun fyrsta alþjóðlega skýrsla um heyrn verða birt en tilgangur hennar er að hvetja stjórnvöld í hverju landi til að móta stefnu innan heilbrigðiskerfisins um heyrnarheilsu.

Góð samskipti eru mikilvæg á öllum stigum ævinnar, þar getur heyrnarheilsa haft mikil áhrif. Ýmsar ástæður eru fyrir heyrnarskerðingu og sumar þeirra er hægt að fyrirbyggja með góðri heilbrigðisþjónustu og fræðslu. Í því samhengi má nefna bólusetningar fyrir sýkingum eins og hettusótt, mislingum, rauðum hundum o.fl, fræðslu um skaðsemi hávaða í umhverfi okkar, hávaðavarnir og hvernig ber að forðast heyrnarskemmandi hávaða.
Aðrar ástæður heyrnarskerðingar er erfiðara að fyrirbyggja og eru arfgengar heyrnarskerðingar stærsti hluti þeirra. Mikilvægt er að hafa heyrnarheilsu í huga allt lífshlaupið, við þurfum að kenna börnum okkar frá unga aldri hversu mikilvæg heyrnin er og hvernig á að passa upp á hana og vera meðvituð um ábyrgð okkar á eigin heyrnarheilsu.

Hávaði í umhverfi okkar er svo algengur að margir eru hættir að taka eftir honum og þeim áhrifum sem hann getur haft á líðan og heilsu. Hávaðinn getur leitt til hægt vaxandi heyrnarskerðingar sem einstaklingurinn verður ekki var við í fyrstu. Styrkur hljóðsins sem fer til eyrans hefur mest að segja um þær skemmdir sem geta orðið en einnig sá tími sem dvalið er í of miklum hávaða. Næmni innra eyrans fyrir hávaða er mismikil á milli einstaklinga, og getur þannig leitt til að þeir tapi ekki jafnmikilli heyrn þrátt fyrir að dvelja jafnlengi í sama umhverfi. Heyrnartap af völdum hávaða getur komið fyrir á öllum aldri, því fylgir oft eyrnasuð sem mörgum reynist jafnvel erfiðara að sætta sig við en heyrnartapið og skerta talgreiningu. Heyrnartap af völdum hávaða er óafturkræft en við hávaða verður skemmd á hárfrumum í kuðungi innra eyrans og þær frumur endurnýja sig ekki. Ennþá er ekki til aðferð til að lækna þennan skaða s.s. með lyfjum. Vonandi verður það hægt í framtíðinni en þangað til eru það fyrirbyggjandi aðgerðir sem gilda. Umhverfishávaði getur haft margvísleg áhrif á heilsu okkar og má þar nefna áhrif á svefn, erfiðleika við að sofna, truflun á djúpsvefni og að hrökkva upp af svefni. Streituáhrif hávaða geta komið fram í aukningu streituhormóna í blóði, hækkun blóðþrýstings, truflun á athygli og minnkaðri framsetningar- og einbeitingarhæfni. Það er því til mikils að vinna að draga úr hávaða í okkar daglega lífi.

Börn eru einnig útsett fyrir hávaða og þurfum við sem eldri erum að standa okkur betur í að huga að andlegri og líkamlegri heilsu barna sem dvelja í hávaða. Vaxtarskeiðið er viðkvæmur tími, heyrn er að þroskast og börnin skilja ekki alltaf þá hættu sem hávaði er. Þau hafa síður stjórn á umhverfi sínu og hegðun þeirra gerir þau oft meira útsett fyrir hávaða og afleiðingum hans. Börn eru í áhættuhópi vegna vanhæfni til að meta aðstæður og verja sig.

Margir hljóðgjafar eins og símar og önnur snjalltæki sem börn og unglingar hlusta á geta gefið frá sér hljóðstyrk sem getur verið heyrnarskemmandi. Foreldrar og aðrir fullorðnir eru mikilvægar fyrirmyndir barna. Þú getur verið góð fyrirmynd fyrir heilbrigða heyrnarheilsu með því að leiðbeina barni hvernig á að umgangast hljóð og njóta t.d. fuglasöngs og annarra hljóða í náttúrinni, tónlistar sem flutt er innan öruggs tónstyrks og ef styrkurinn er of mikill að nota heyrnarhlífar eða færa sig frá hljóðgjafanum. Upplýsum þau um hverjar afleiðingar það getur haft fyrir heyrnina þegar dvalið er í of miklum hávaða. Heyrnarskerðing af völdum hávaða hjá börnum getur haft áhrif á málþroska, námshæfni, kvíða og hegðun. Að vera útsettur fyrir miklum hávaða sem barn og unglingur getur síðar á ævinni leitt til heyrnarskerðingar sem m.a. getur átt þátt í minni félagslegum samskiptum, einangrun og andlegri færni.

Talið er að 50% þeirra sem hlusta á tónlist í gegn um heyrnartól noti hljóðstyrk sem getur verið heyrnarskemmandi. 5–10 % hlustenda er talinn líklegur til að þróa með sér heyrnarskerðingu vegna hlustunar gegn um persónuleg heyrnartól.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Alþjóða fjarskiptasambandið (ITU) sameinuðust árið 2019 um gerð staðals og leiðbeininga, WHO-ITU H.87, fyrir örugga hlustun frá persónulegum hljóðgjöfum (tækjum) með það að markmiði að koma í veg fyrir heyrnarskemmdir af völdum hávaða. Ráðlagt hámark er að fara ekki yfir 80 dB í 40 klst á viku fyrir fullorðna og 75 dB í 40 klst á viku fyrir börn. Til að fá upplýsingar um notkun þarf tækið að geta mælt á hvaða styrk og hversu lengi er hlustað á tækið, einnig er ráðlagt að foreldrar geti sett inn í tækið hámarksstyrk sem börnin mega hlusta á. Leiðbeiningarnar má finna á veg Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar

Verum samtaka um að minnka hljóðmengun í umhverfi okkar og stuðlum þannig að meiri lífsgæðum og betri heyrnarheilsu fyrir alla.

#WorldHearingDay

#safelistening

#hearingcare

#hearathon2021

Höfundur:: Ingibjörg Hinriksdóttir, yfirlæknir Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands

 

 

Dagur Heyrnar 3.3.´20

Þriðjudagurinn 3.3. er DAGUR HEYRNAR

Alþjóða Heilbrigðisstofnunin, WHO, kom þessum degi á fyrir allmörgum árum til að vekja athygli á heyrnarskerðingu og heyrnarleysi, sem er ein algengasta fötlun í heimi.

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands hefur fagnað DEGI HEYRNAR á íslandi síðustu árin og nú í ár höfum við tekið höndum saman við Sinfóníuhljómsveit Íslands og Vinnueftirlitiðum atburð til að vekja athygli á mikilvægi heyrnar fyrir fólk á öllum aldri. Á degi heyrnar 2020 munu heyrnarfræðingar HTÍ mæla heyrn hljómsveitarmeðlima og sérfræðingar Vinnueftirlitsins munu mæla hávaða á mismunandi vinnusvæðum Sinfóníunnar. Markmiðið er að vekja athygli á hættumörkum á hávaða og hvað fyrirtæki og einstaklingar geta gert til að vernda heyrn og tryggja góða hljóðvist. Sinfónían hefur mörg undanfarin ár stigið fjölmörg skref í þessa veru enda hafa rannsóknir sýnt að jafnvel klassískir tónlistarmenn eiga á hættu að missa heyrn vegna hávaða. Það eru ekki aðeins rokktónlistarmenn og unglingar með hátt stillt heyrnartól sem eru í hættu !

Heyrn og heyrnarvandamálDagur heyrnar

Á veraldarvísu eru um 466 Milljónir manna (þar af um 34 milljónir barna) með heyrnarskerðingu sem kallar á meðferð og heyrnarbætandi aðgerðir eða heyrnartæki. Aðeins hluti þeirra hefur þó aðgang að slíkri heyrnarþjónustu.

Á Íslandi eru milli 15 og 20 þúsund Íslendingar með skerta heyrn og þurfa heyrnarbætandi aðgerðir til að lifa óheftu lífi. Með öldrun þjóðarinnar stækkar þessi hópur hröðum skrefum. Auk öldrunar eru hávaði og sjúkdómar helstu orsakavaldar heyrnarskerðingar hér á landi. Heyrnarskerðing getur haft veruleg áhrif á líf fólks allt frá barnsaldri og til æviloka. Mikilvægi heyrnar er stórkostlegt fyrir málþroska og skólagöngu barna.

WHO leggur áherslu á að heilbrigðisyfirvöld og almenningur séu meðvituð um vandamálið og tryggi skimun á heyrn nýbura og barna sem komast á skólaaldur, reglulegar heyrnarmælingar og gott aðgengi að heyrnarbætandi aðgerðum og úrræðum, svo sem læknisþjónustu, heyrnar- og hjálpartækjum, kuðungsígræðslu o.fl., fyrir alla aldurshópa

Skilaboð WHO eru:   Heyrnarskerðing - ekki hömlun !      Heyrum alla ævina!

 

 dagur heyrnar 2020 gerum hlustun öruggadagur heyrnar 2020 endurheimtir aldrei

Dagur Heyrnar tókst vel

Dagur Heyrnar vakti mikla athygli og hlaut góða umfjöllun ýmissa fjölmiðla og fyrirspurnir hafa streymt inn varðandi margvísleg efni.

Við viljum byrja á að þakka Sinfóníuhljómsveit Íslands og Vinnueftirlitinu kærlega fyrir gott samstarf. Hér að neðan eru tenglar á sumt af því sem gerðist á Degi Heyrnar 2020

Dagurinn byrjaði á viðtali þeirra Sigmars og Huldu í Morgunþætti Rásar 2 við forstjóra HTÍ, Kristján Sverrisson. Með því að klikka á myndina hér að neðan er hægt að hlusta á viðtalið.

dagur heyrnar RUV morgunn

Síðan lá leiðin til hinna hressu þáttarstjórnenda Í Bítið á Bylgjunni þar sem þeir Gulli og Heimir spurðu Kristján spjörunum úr um margt varðandi heyrn og Dag Heyrnar.
Smellið á myndina og hlustið á viðtalið:

Bylgjan Bítið Er tóneyrað með fulla heyrn
Mikil fjölmiðlaumfjöllun

 Kvöldfréttir sjonvarpsstöðvanna fjölluðu einnig um framtakið og Dag heyrnar í fréttatímum sínum:
https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/frettir-kl-19-00/27717/8ku9pv/althjodadagur-heyrnar

og á Stöð 2:  https://www.visir.is/k/6a6c04c3-1450-483f-b212-3c7236b77f50-1583263053363

 

 Sinfónían og Vinnueftirlitið

Um hádegisbil voru starfsmenn Heyrnar-og talmeinastöðvar og sérfræðingar Vinnueftirlitsins í hávaðavörnum mættir á æfingu hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands til að vekja athygli á mikilvægi heyrnar og heyrnarverndar á Degi Heyrnar.

Vinnueftirlitið mældi hávaða á nokkrum stöðum á sviðinu á meðan á æfingu stóð og einnig mældu þeir sérstaklega hávaða við eyra sex valinna hljóðfæraleikara sem töldust vera í sérstökum áhættuhópi (s.s. málmblástursfólk, ásláttarhljóðfæraleikarar o.fl.)

Niðurstöður mælinganna vekja athygli því að í ljós kemur að meðal-jafnaðarhávaði á þessari æfingu hjá Sinfóníunni var um og yfir 80 dB sem liggur við hættumörk. EInstakir toppar í hæstu köflum verksins náðu hins vegar rúmum 140 dB sem er langt yfir hættumörkum og nálgast sársaukamörk. (og höfðu starfsmenn Sinfó þó á því orð að hér hefði langt því frá verið að æfa háværasta klassíska verk tónlistarsögunnar!).

Það var því dómur Vinnueftirlits að hér væri ,,klassískt" dæmi um vinnustað þar sem nauðsynlegt er að grípa til ráðstafana til að tryggja heilsu og heyrn starfsmanna.

Lára Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníunnar, útskýrði síðan fyrir fréttamönnum hvaða aðgerðir Sinfónían hefur gripið til í þeim tilgangi að tryggja heyrnarheilsu liðsmanna hljómsveitarinnar. Á undanförnum árum hefur Sinfó heyrnarmælt hljóðfæraleikara, látið útbúa sérsmíðaðar heyrnarhlífar (eyrnatappar með sérstökum tónlistar-síum), komið fyrir hljóðvarnar-þilum og sérstöku "hearWig" hlífðarskjöldum fyrir aftan þá spilara sem mest eru útsettir fyrir hávaða á æfingum og tónleikum. Eru aðgerðir þessar allar til fyrirmyndar og með því besta sem gerist í tónlistarheiminum.

Hér má sjá nokkrar myndir sem sýna þann viðbúnað sem er hafður hjá Sinfóníunni:

 

sinfo hearwig

   sinfo skermar HearWig heyrnarhlífar eru notaðar fyrir þá sem sitja fyrir framan háværustu hljóðfærin. Sérstakir skermar eru einnig staðsettir á völdum stöðum til að hlífa þeim hljóðfæraleikurum sem næst sitja.
Þá eru margir meðlima Sinfóníunnar með sérstaka eyrnatappa sem eru sérhannaðir fyrir tónlistarfólk og dempa hljóð á öllum tíðnisviðum aðeins niður en gera þeim þó kleift að heyra öll blæbrigði tónlistarinnar.
Alveg til fyrirmyndar hjá hljómsveitinni.

 

 

Save
Cookies user preferences
We use cookies to ensure you to get the best experience on our website. If you decline the use of cookies, this website may not function as expected.
Accept all
Decline all
Read more
Functional
Tools used to give you more features when navigating on the website, this can include social sharing.
Osano
Vefkaka sem geymir tímabundið samþykki þitt á þessari vefsíðu
Accept
Decline
Analytics
Tools used to analyze the data to measure the effectiveness of a website and to understand how it works.
Google Analytics
Rýnir í vefumferð á vefnum svo hægt sé betrumbæta hann.
Accept
Decline