Ekkert kemur í stað náttúrulegrar heyrnar - Grein úr SKÝ
Ingibjörg Hinriksdóttir, yfirlæknir Heyrnar-, og talmeinastöðvar Íslands, segir að þróun heyrnaskerðinga hérlendis sé svipuð og á öðrum Norðurlöndunum. Nú séu mun fleiri sem nota heyrnartæki en á árum áður og stafar það meðal annars af notendavænni tækjum sem eru í boði.
Ingibjörg er menntaður háls-, nef-, og eyrnalæknir og sérfræðingur í heyrnarfræðum. Hún útskrifaðist úr læknadeild Háskóla Íslands árið 1988 og hefur unnið við fagið síðan þá og gegnt stöðu yfirlæknis Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar frá árinu 2002.
„Þegar ég var í námi fannst mér sá hluti þess sem snerti heyrn ákaflega áhugaverður og ákvað að sérhæfa mig á því sviði, ég kom síðan heim úr námi frá Svíþjóð 1997. Þá lágu í loftinu miklar breytingar í faginu og það var margt nýtt að gerast á þeim tíma. Miklar tækniframfarir varðandi heyrnartæki og búnað þeim tengdum, eyrnaaðgerðum og kuðungsígræðslum. Við horfum mikið til Norðurlandanna en þar voru að verða algengari kuðungsígræðslur fyrir mikið heyrnarskerta einstaklinga sem olli sannkallaðri byltingu fyrir þá sem voru nánast heyrnarlausir. Þessi tæki hafa reynst vel fyrir börn og fullorðna og er áhugavert að fylgjast með þróun á tækjum, tækni og aðgerðum í tengslum við ígræðslurnar," útskýrir Ingibjörg og segir jafnframt;
„Fyrstu aðgerðirnar af þessu tagi í heiminum voru framkvæmdar á almenningi upp úr 1980 en fram að því höfðu aðgerðirnar verið gerðar í þróunar- og rannsóknarskyni í nokkur ár. Hér á landi hefur það aukist jafnt og þétt að einstaklingar nýti sér þennan möguleika. Fyrstu árin sendum við sjúklinga héðan til Noregs í kuðungsígræðsluaðgerðir en frá árinu 2000 hafa aðgerðirnar verið gerðar í samstarfi við Karolínska háskólasjúkrahúsið í Huddinge í Svíþjóð. Nú er einn íslenskur eyrnaskurðlæknir hér á landi að sérhæfa sig í slíkum aðgerðum og mun hann taka þær að sér hér heima þegar hann lýkur þjálfun. Hérlendis hafa 72 einstaklingar farið í slíka aðgerð, eða um 4-5 einstaklingar á ári sem er svipuð prósenta og á hinum Norðurlöndunum."
Um 10 þúsund manns með heyrnartæki
Á Íslandi eru ekki til góðar rannsóknir um heyrnarheilsu og þróun hennar hér á landi.
„Notkun heyrnartækja hefur aukist hérlendis en það má áætla að um tíu þúsund notendur séu hér á landi sem er undir þörfinni. Það er eðlilegra að um 15-17 þúsund manns væru með heyrnartæki en það eru þó áætlaðar tölur.
Heyrnartæki eru alltaf að verða betri og betri og hljóðið í þeim betra. Þau eru orðin þægilegri í notkun en áður. En engin tæki gefa þó fulla heyrn, hvorki hefðbundin tæki né ígrædd tæki eins og til dæmis kuðungsígræðslutæki. Öll tæki breyta utanaðkomandi hljóðum í rafrænt form þannig að fólk heyrir ekki eins og með náttúrlegri heyrn. Þó er sífellt betri hljóðvinnsla í tækjunum," segir Ingibjörg.
Heyrn og málþroski helst í hendur
Árið 2007 hófst skimun á heyrn hjá nýburum hérlendis en eitt til tvö börn af hverjum þúsund fæðast með heyrnarskerðingu sem getur hindrað eða tafið málþroska. Á Íslandi eru nú um 150 börn á aldrinum 0-18 ára með heyrnartæki.
„Vegna þessa samstarfsverkefnis okkar og Landspítala, Sjúkrahússins á Akureyri og fleiri heilbrigðisstofnana þá höfum við mjög góðar upplýsingar um heyrn barna sem hafa fæðst frá þessum tíma. Þannig greinast þau börn sem fæðast með heyrnarskerðingu mun fyrr og það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir barnið, ekki hvað síst fyrir málþroskann, að hægt sé að hefja viðeigandi rannsókir í kjölfar skimunar við fimm daga skoðun," segir Ingibjörg og bætir við:
„Ef eitthvað er að heyrn barnsins þá kemur það í frekari greiningu hingað til okkar á Heyrnar- og talmeinastöðina í umfangsmeiri mælingar. Sum börn eru allt niður í þriggja mánaða þegar þau fá fyrstu heyrnartækin sín. Hjá okkur fá foreldrar einnig ráðleggingar um samskipti við barnið og hvernig þau geta gert börnin sín meðvituð um hljóð með því að hlusta eftir þeim. Hlustun er undirstaða máltöku og því er þessi þáttur mjög mikilvægur. Mikið heyrnarskertum börnum og fjölskyldum þeirra vísum við til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra sem sér um kennslu í íslensku táknmáli. Það er mikilvægt fyrir allan þroska barnsins að hafa mál sem það getur notað til samskipta við aðra."
Mikilvægt að skýla sér fyrir hávaða
Heyrnarskerðing á sér oftast stað á löngu tímabili og er ekki í öllum tilfellum aldurs- eða erfðatengd. Þannig er fólk sem er á einhverjum tímapunkti í miklum hávaða, þó ekki sé nema í stuttan tíma, frekar útsett fyrir því að fá heyrnarskerðingu á lífsleiðinni.
„Við þurfum að veita meiri fyrirbyggjandi fræðslu almennt varðandi heyrnina og efla forvarnir í þessum málaflokki. Fólk þarf að vera meðvitað hvernig það getur skýlt heyrninni eins og til dæmis á tónleikum. Margir tónlistarmenn nota ákveðna gerð heyrnarhlífa, sumir þeirra koma hingað til okkar og fá sérstaka tappa smíðaða sem passa í hlust þeirra, tapparnir lækka umhverfishljóð um ákveðin desibel til að vernda heyrnina. Það er mjög mikilvægt að forða börnum frá hávaða eins og til dæmis í heyrnartólum og spilurum sem þau ganga með dagsdaglega en í flestum þeirra er hægt að stilla tækin svo að hljóðið verði ekki of hátt og að þau fari ekki yfir ákveðinn styrk," útskýrir Ingibjörg og segir jafnframt:
„Síðan eru margir sem starfa mikið í hávaða eins og til dæmis iðnaðarmenn og því er mikilvægt fyrir þennan hóp að vera duglegan að verja sig með hlífum. Það eru margir sem halda að þó að þeir hafi verið stutt í hávaða að þá hafi það ekki áhrif á heyrnina en það safnast upp í gegnum lífið skemmd sem verður á hárfrumum í kuðungi innra eyrans sem veldur síðan heyrnartapi. Þannig geta til dæmis skotveiðimenn sem fara nokkrum sinnum á ári í veiði og skýla ekki eyrunum verið komnir með suð og skerðingu á heyrn eftir örfá ár og það er mjög sorglegt."
Eyrnasuð og úrræði
Samkvæmt erlendum rannsóknum eru um 15-20 prósent einstaklinga með eða fá eyrnasuð einhvern tíma á lífsleiðinni og má því áætla að um 50 þúsund landsmanna hrjáist af eyrnasuði af einhverju tagi.
„Þetta er mismikið hjá fólki og misjafnt hversu mikið það truflar fólk. Eyrnasuð getur komið til af mörgum toga, til dæmis út af heyrnarskerðingu, átt upptök í vöðvabólgu í kringum kjálkaliði, getur verið afleiðing lyfjatöku, vegna hás blóðþrýstings og vegna hávaðaheyrnartaps. Það getur einnig verið ættgengt og algengt er að fólk sem þjáist af kvíða og þunglyndi séu með þennan kvilla. Stundum gengur að hjálpa fólki en í öðrum tilfellum er það erfitt og sumir læra að halda því frá sér þannig að það hefur lítil áhrif á líf þeirra. Þar hefur hugræn atferlismeðferð reynst fólki vel. Það er þó ekki á færi eins aðila að höndla meðferð við eyrnasuði þar sem þetta er flókið fyrirbæri og margir þættir sem spila inn í, teymisvinna margra mismunandi sérfræðinga er skilvirkasta meðferðin og gefur bestan árangur."
Það er margt sem heyrnarskerðing hefur í för með sér fyrir fólk en í dag eru til ýmsar leiðir til að bæta lífsgæði fólks sem búa við hana.
„Það er margt sem hægt er að gera til að auðvelda fólki að lifa með heyrnarskerðingu. Þannig er til dæmis hægt að gera ráðstafanir til að draga úr hávaða til dæmis að setja filter undir stóla til að minnka skarkala þegar þeir eru færðir til, setja gardínur úr þykku efni fyrir glugga til þess að það glymji minna í rýmum og til er ýmis hjálparbúnaður sem hægt er að tengja við heyrnartæki svo sitthvað sé nefnt. Það hafa því verið gríðarlegar framfarir á þessu sviði undanfarna áratugi en þó er alltaf gott að hafa í huga að það er ekkert sem kemur í stað eðlilegrar náttúrlegrar heyrnar," segir Ingibjörg.
Greinin birtist í tímaritinu Ský og er birt með leyfi höfundar.
Texti: Erla Gunnarsdóttir Mynd: Geir Ólafsson