Málstofur um málefni heyrnarskertra og döff barna
Undanfarin tvö ár hafa nokkrar stofnanir sem sinna heyrnarskertum og heyrnarlausum tekið þátt í verkefninu Menntun og tengsl. Þessar stofnanir eru auk Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Leikskólinn Sólborg, Hlíðaskóli, Þjónustumiðstöð miðborgar og Hlíða og Heyrnarhjálp. Eitt af markmiðum verkefnisins var að styrkja samvinnu stofnananna.
Til þess að halda áfram því góða starfi sem hófst innan verkefnisins ætla þessar stofnanir, ásamt Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins og Félagi heyrnarlausra, að halda sjö sameiginlegar málstofur sem tengjast málefnum heyrnarlausra og heyrnarskertra barna.
Haldin verður ein málstofa í mánuði. Í hverri málstofu er um 15 mínútna erindi og umræður í um 30 mínútur. Málstofurnar byrja alltaf kl. 14:30 og standa til kl. 15:30. Málstofurnar verða haldnar á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík. Nánari dagsetning fyrir hverja málstofu og umræðuefni verður auglýst sérstaklega þegar nær dregur.
Málstofurnar eru öllum opnar og verða ýmist fluttar á íslensku eða íslensku táknmáli. Túlkað verður á milli málanna og auk þess verður í einhverjum tilvikum boðið upp á rittúlkun að auki.
Allir eru velkomnir og ekki þarf að greiða fyrir þátttöku.
Fyrsta málstofan verður haldin þann 27. janúar kl. 14:30 í umsjá Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra.
Umræðuefni: Snemmtæk íhlutun fyrir heyrnarlaus og heyrnarskert börn.
Önnur málstofan verður haldinn þann 17. febrúar kl 14:30 og hefur Heyrnarhjálp umsjón með henni.
Umræðuefni: Ýmsar orsakir heyrnarskerðingar, hvernig skerðingin lýsir sér og hvað er til ráða.
Við hvetjum alla þá sem áhuga hafa á málefnum heyrnarskertra og heyrnarlausra barna að líta við á málstofurnar.