Skip to main content

Fréttir

HTÍ, Heyrnarhjálp og Fjóla hljóta rannsóknarstyrk Odds Ólafssonar

Úthlutun rannsóknastyrkja úr Sjóði Odds Ólafssonar

 

Þann 30. apríl var úthlutað styrkjum úr Sjóði Odds Ólafssonar til rannsókna á sviði fötlunar og öndunarfærasjúkdóma. Sjóðurinn er nefndur eftir Oddi Ólafssyni frumkvöðli í baráttumálum sjúklinga og öryrkja, fyrsta yfirlæknis Reykjaludnar og fyrsta formanns Öryrkjabandalags Íslands.

Að þessu sinni hlutu fimm vísindamenn og hópar styrki úr sjóðnum:

Monique van Oosten lýðheilsufræðingur hlaut styrk vegna verkefnisins „Hvernig hefur öndun áhrif á einkenni og stjórnun astmasjúkdómsins?“ Björg Þórðardóttir iðjuþjálfi vegna verkefnisins „Heimilisaðstæður fatlaðra og tengsl breytinga á þeim við aukna þátttöku innan heimilis sem utan.“ Gunnar Guðmundsson læknir vegna verkefnisins „Millivefslungnabreytingar í þýði Hjartaverndar.“ Heyrnar- og talmeinastöð Íslands vegna verkefnisins „Staða og áhrif sjón- og heyrnarskerðingar fólks á öldrunarstofnunum á Íslandi – greining á færnimati samkvæmt RAI-gagnagrunni.“ Solveig Sigurðardóttir læknir hlaut styrk vegna verkefnisins „Tíðni og útbreiðsla heilalömunar (CP) meðal 5 ára barna á Íslandi.“

Rannsókn okkar, sem er samvinnuverkefni HTÍ, Fjólu og Heyrnarhjálpar, miðar að því að vinna upplýsingar úr gagnagrunni sem þegar liggur fyrir og nær yfir alla færniþætti aldraðra sem leggjast á stofnanir hérlendis. Skoðaðir verða 2 kaflar sem lúta að sjón og heyrn vistmanna á öldrunar- og hjúkrunarheimilum um land allt. Aðstandendur rannsóknarinnar reikna með að mikilvægar upplýsingar fáist um ástand sjónar og heyrnar þessa stóra hóps en fötlun af völdum sjón-og heyrnarskerðingar er oft stórlega vanmetin.

 

 

SjodurOddsOlafs
Guðríður Ólafs Ólafíudóttir stjórnarmaður í sjóði Odds Ólafssonar, Guðný Katrín Einarsdóttir fulltrúi Fjólu félags um samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, Ellen Calmon formaður ÖBÍ, Gunnar Guðmundsson lungnalæknir, Guðmundur Löve framkvæmdastjóri SÍBS formaður stjórnar Sjóðs Odds Ólafssonar, Kristján Sverrisson forstjóri HTÍ, Björg Kofoed-Hansen og Þórður Jónsson fulltrúar Bjargar Þórðardóttur, Vífill Oddsson stjórnarmaður í sjóði Odds Ólafssonar, Sigurður Jóhannesson fulltrúi Solveigar Sigurðardóttur og Monique van Oosten.