Þátttakendur óskast í rannsókn á heyrnarskertum börnum 8-18 ára -
Stefan C Hardonk, nýdoktor við Háskóla Íslands, auglýsir eftir þátttakendum í nýrri rannsókn sem hann stendur fyrir. Hann vonast til að rannsóknin varpi ljósi á hvernig heyrnarskert og/eða heyrnarlaus börn og unglingar líta á félagslega þátttöku sína og hlutverk heyrnarskerðingarinnar í mótun sjálfsmyndar og félagsþátttöku.
Leitað er að einstaklingum fæddum á árabilinu 1997-2007 (bæði árin meðtalin) sem greinst hafa með heyrnarskerðingu >40dB á betra eyra.
Heyrnar-og talmeinastöð Íslands mun aðstoða Stefan og rannsóknarhópinn og senda boð til fjölskyldna þeirra barna sem eru á skrá stöðvarinnar og uppfylla skilyrði um þátttöku. Engum persónu-upplýsingum er þó komið á framfæri við rannsakendur og það er á valdi þeirra sem meðtaka boð um þátttöku að hafa sjálfir samband við aðstandendur rannsóknarinnar.
Við vonum að þeir sem móttaka boð um þátttöku kynni sér málið gaumgæfilega og taki upplýsta ákvörðun um samþykki eða höfnun á boðinu.