Heili ungbarna og þróun heyrnar og tals
Mikilvægt að tala við ungabörn frá fyrsta degi !
Heili ungbarna byrjar að þróast strax á fósturstigi, aðeins nokkrum vikum eftir frjóvgun. Við fæðingu hafa þegar myndast um 100 milljarðar heynarfruma (taugafruma). Heilafrumur þessar tengjast síðan hratt og örugglega og heilastarfsemi þróast á ótrúlegan máta.
Löngu fyrir fæðingu eru taugafrumur byrjaðar að senda og móttaka taugaboð og vinna úr þeim boðum skynjun á hreyfingu, tilfinningu og heyrn. Bragðskyn, lyktarskyn og skynjun ljóss þróast síðan í kjölfarið.
Nýfædd börn geta heyrt mörg mismunandi hljóð. Þau heyra og skynja hljómfallið í rödd móður sinnar fyrir fæðingu og smábörn eru mjög næm á mannsraddir frá fæðingu og áhugasöm um mannsraddir. Þau snúa höfði og líta í átt til þeirra sem tala.
Sjónin er minnst þróaða skynfæri nýfæddra barna. Þau skynja mun á ljósi og skugga og ná að fylgja hreyfingu á hlutum sem eru innan sjónsviðs þeirra eða u.þ.b. 22-30 cm frá augum þeirra. Fókusinn er ennþá mjög óskýr en um 3ja mánaða aldur fara ungabörn að sjá skýrar og sjónsvið þeirra víkkar töluvert.
Nýfædd börn heyra í raun fleiri talhljóð en fullorðnir. Því meira sem talað er við kornabörn, þeim mun betri og fljótari eru þau að byrja að greina talað mál, sitt móðurmál. Miklu skiptir að heyrn barnsins sé eðlileg og málörvun sé til staðar. Á aldrinum 6-12 mánaða taka börnin miklum framförum í að skilja hljóðfall móðurmálsins.
Vissir þú að um 90% af virkni heilans hefur þegar þróast fyrir 5 ára aldur ? Strax við 3ja ára aldurinn hafa milljarðar taugatenginga og taugabrauta í heila þróast fullkomlega! Þessi öra og mikla þróun mannsheilans á fyrstu þremur æviárunum er eitt stórkostlegasta kraftaverk lífsins.
Þegar barnið er 4 ára er heili þess tvöfalt virkari en heili fullorðinna að því tilskyldu að barnið fái næga örvun fyrir heilann. Tölum því við börnin, syngjum fyrir þau, lesum fyrir þau og ræðum við þau um allt milli himins og jarðar.
Alveg frá fæðingu.
Birt 20.júní 2017