Karlar feimnari en konur að viðurkenna heyrnarskerðingu ?
Konur eru tvöfalt líklegri en karlar til að segja öðrum frá vandamálum tengdum heyrnarskerðingu og hvernig heyrnartap hefur áhrif á samskiptafærni þeirra.
Þetta leiddi nýleg bandarísk rannsókn í ljós.
Konur betri í að útskýra heyrnarskerðingu sína
Heyrnarskertar konur eru líklegri en karlar til að útskýra heyrnarvandamál sín þannig að það leiði til bættra tjáskipta við aðra. Þær eru reyndar tvöfalt líklegri til að viðurkenna vandann fyrir öðrum en einnig til að útskýra hvernig aðrir geti komið á móts við þær. Nýleg rannsókn á 337 öldruðum einstaklingum sem framkvæmd var af heyrnarstöð í Massachusetts í Bandaríkjunum leiddi þetta í ljós.
1 af hverjum 3 viðurkenna sjaldnast heyrnartapið
Rúmlega þriðjungur aðspurðra viðurkennir að þau nefni sjaldan eða aldrei við aðra að þau séu heyrnarskert. Einungis 14% sögðust alltaf eða nær alltaf segja viðmælendum sínum frá heyrnarskerðingu sinni.
Um leið og heyrnarskertir höfðu prófað að ræða um heyrnarskerðingu sína við aðra í fyrsta sinn voru þau tvöfalt líklegri til að ræða vandann opinskátt. Þetta átti sérstaklega við um þá sem fengu jákvæð og uppbyggileg viðbrögð við „opinberuninni“.
Stigvaxandi heyrnarskerðing hafði engin áhrif á það hve sá heyrnarskerti var líklegur til að ræða opinskátt um fötlun sína.
Karlar vilja engar málalengingar
Rannsóknin bendir til þess að karlar, ólíkt konum, kjósi ólík tjáskipti um heyrnarskerðingu sína. Karlarnir (þeir sem á annað borð nefna skerta heyrn) gefa einfalda yfirlýsingu en vilja lítt ræða hvernig heyrnarskerðing hafi áhrif á líf þeirra né hvernig aðrir geti hjálpað þeim til bættra tjáskipta.
Höfundar rannsóknarskýrslunnar, Jessica West og Konstantina Stankovic, við Harvard háskólann og Massachusetts Eye and Ear í Boston í Bandaríkjunum telja að karlar megi taka konur sér til fyrirmyndar þar sem aðferð kvenna dragi úr líkum á að heyrnarskerðing hafi neikvæð á hrif á lífsgæði.
„Besta leiðin er að upplýsa viðmælendur á einfaldan og skýran hátt um heyrnarskerðing og benda á leiðir sem auðveldað geta viðmælandanum að hjálpa þeim heyrnarskerta að heyra betur“, segja þau West og Stankovic.
Rannsóknin birtist í tímaritinu Ear and Hearing.
Heimild: www.uk.reuters.com