Heyrnar- og talmeinastöð Íslands varar við eftirlitslausri heyrnartækjasölu
Vafasöm heyrnartæki?
Nýlega hefur borið á því að einstaklingar auglýsa stíft til aldraðra heyrnartæki til sölu. Auglýsingum hefur verið komið fyrir í sambýlum aldraðra, borið út í póstkassa á elliheimilum, dvalarheimilum og víðar.
Heyrnartækin sem bjóðast eru sögð ódýr og með 2ja ára ábyrgð. Þau eintök tækja sem Heyrnar-og talmeinastöð Íslands (HTÍ) hefur fengið að skoða eru kínversk framleiðsla og eru einfaldir hljóðmagnarar sem settir eru inn í hlustir viðkomandi. Tækin er ekki hægt að aðlaga sérstaklega að heyrnarskerðingu viðkomandi eintaklings.
Heyrnar-og Talmeinastöð Íslands varar heyrnarskerta eindregið við því að kaupa slík tæki án ráðgjafar frá fagaðilum!
Á Íslandi gilda lög og reglugerðir um sölu heyrnartækja og allir aðilar sem bjóða slík tæki þurfa skráningu Velferðarráðuneytis og lúta eftirliti Landlæknis.
HTÍ er ekki kunnugt um að þeir söluaðilar sem hér um ræðir hafi sótt um skráningu yfirvalda eða uppfylli lögbundnar kröfur um starfsemi aðila sem heimilt er að selja heyrnartæki.
Heyrnar-og talmeinastöð Íslands selur heyrnartæki frá helstu framleiðendum heyrnartækja í heiminum (s.s. Widex, Phonak, Siemens) og hefur á að skipa sérmenntuðu starfsfólki, háskólamenntuðum heyrnarfræðingum og sérfræðilæknum í heyrnarsjúkdómum.
Auk HTÍ starfa 3 viðurkenndar, einkareknar stöðvar sem hlotið hafa starfsleyfi yfirvalda til sölu heyrnartækja.
tækin umdeildu
Athugasemd HTÍ: Ofangreind fréttatilkynning HTÍ hefur vakið mikla athygli (sbr t.d. frétt MBL.IS: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/01/god_lausn_eda_ologleg_starfssemi/ ) og í ljósi athugasemda frá þeim seljanda sem málið snýst um er rétt að taka fram að HTÍ selur ekki tæki sem eru tífalt dýrari. Verð á 1 heyrnartæki með niðurgreiðslu liggur á bilinu 33þús-145þús. Þá er um að ræða vönduð, stafræn heyrnartæki sem stillt eru sérstaklega fyrir hvern einstakling og mikil þjónusta fylgir.
Fimmtudagur 2.október: Enn bætist við umfjöllun um fréttatilkynningu HTÍ um vafasöm gæði heyrnartækja sem boðin eru til kaups. Sjá umfjöllun á vísir.is: http://www.visir.is/varar-heyrnarskerta-vid-odyrum-heyrnartaekjum/article/2014710029931
í athugasemdakerfi við fréttina gætir nokkurs misskilnings varðandi verð tækja. Sjá fyrri athugasemd hér að ofan. Ekki er rétt að bera saman verð á 20-30 ára gamalli tækni og nýjustu stafrænum heyrnartækjum. Þau tæki sem fréttin fjallar um bjóðast t.d. á vinsælli kínverskri netverslun á ca $8,00 (átta dollara eða tæpar 1000 krónur. Ath! útsöluverð til aldraðra á Íslandi tæpar 29000 krónur). Þau tæki eru sögð geta gefið hljóðstyrk í eyra >120dB sem er stórskaðlegur hávaði við viðvarandi notkun.
HTÍ ítrekar viðvörun sína um að heyrnarskertir leiti til fagaðila um fræðslu og umsögn áður en slík tæki eru keypt.