Heyrnar- og talmeinastöð flytur í nýtt húsnæði
Eftir tæp 50 ár í bráðabirgðahúsnæði í Valhöll við Háaleitisbraut hefur loks fundist nýtt bráðabirgðahúsnæði fyrir stofnunina. HTÍ flytur því á nýjan stað í byrjun febrúar (nánar auglýst síðar). Stöðin verður til húsa á jarðhæð hússins við HRAUNBÆ 115 (Árbæjarhverfi) eða í sama húsi og Heilsugæsla Árbæjar er til húsa.
Starfsfólk HTÍ hlakkar mikið til að taka á móti viðskiptavinum sínum í nýju og rúmbetra húsnæði og vonandi getum við bætt þjónustu okkar við alla skjólstæðinga.
Forstjóri HTÍ, Kristján Sverrisson, kveðst feginn að ná nýju húsnæði loks í gegn: ,,Við höfum lengi barist fyrir að komast í nýtt starfsumhverfi. Núverandi húsnæði er löngu sprungið og var aldrei hannað fyrir heilbrigðisstarfsemi. Okkur hefur lengi verið lofað úrbótum og fyrsta þarfagreining fyrir nýju framtíðarhúsnæði fyrir HTÍ var unnin árið 1989 eða fyrir 35 árum síðan! Allar götur síðan hefur verið reynt að fá úrlausn og stjórnendur ítrekað skoðað húsnæði og gert nýjar þarfagreiningar en ávallt hafa aðrar stofnanir fengið forgang eða ekki fundist fjármagn til að koma okkur í bætta vinnuaðstöðu. Á síðasta ári var enn og aftur boðið út nýtt húsnæði en engar fasteignir töldust heppilegar og því var brugðið á það ráð að bjóða HTÍ húsnæði til bráðabirgða á jarðhæð hússins sem Heilsugæsla Árbæjar er í. Við fáum þarna gott og vandað húsnæði, þó að það uppfylli þarfir okkar aðeins að hluta og samningur er aðeins til 4 ára, svo ljóst má vera að það þarf að vinna áfram að því að finna framtíðarlausn fyrir flaggskip íslenskrar heyrnarþjónustu“ segir Kristján, en bætir við að hann sendi engu að síður miklar þakkir til þess starfsfólks Heilbrigðisráðuneytis sem lagt hefur hönd á plóg til að stuðla að þessari lausn á bráðum húsnæðisvanda. ,,Þó að húsnæðið sé langt því frá fullkomið er þetta engu að síður mjög stórt skref í að bæta aðstöðu okkar. Á þessu ári hefjum við t.d.kennslu og þjálfun háskólanema í heyrnarfræðum, sem er nú loks í boði hérlendis og það hefði aldrei verið mögulegt í þrengslunum í gamla húsnæðinu.“ Að síðustu segist Kristján vilja þakka öllu starfsfólki Sjálfstæðisflokks, leigusala gamla húsnæðisins, kærlega fyrir allt samstarf og samvinnu í gegnum árin.