Hvernig heyrir fólk með kuðungsígræðslutæki?
Margar órökstuddar fullyrðingar eru hafðar í frammi á meðal andstæðinga kuðungsígræðsla varðandi gæði þeirrar heyrnar sem ígræðsluþegar geta fengið með hjálp þessarar tækni.
Í raun er það svo að nánast ómögulegt er að gera sér grein fyrir því nákvæmlega hvernig heyrn nokkurs einstaklings "hljómar". Við heyrum nefnilega með heilanum þ.e. heyrnarstöðvar heilans túlka þau boð sem berast og það er afar líklegt að heyrnarupplifun hvers og eins einstaklings sé einstök.
Barn sem fæðist heyrnarlaust en fær heyrn með kuðungsígræðslutækjum þekkir ekki og mun aldrei þekkja neina aðra heyrn en þá sem tækin veita. Sú heyrn er þeim því "eðlileg". En við vitum ekki hvernig hún hljómar og ekki hægt að gera ráð fyrir að barnið geti lýst sinni heyrn því það hefur engan samanburð. Máltaka, málþroski og beiting talmáls leiðir oftast best í ljós hversu vel þetta endurskapaða skilningarvit gegnir hlutverki sínu fyrir börnin.
Þeir sem geta sagt okkur til um gæði heyrnar sem kuðungsígræðslutæki veita eru annars vegar þeir sem hafa misst heyrn snögglega á fullorðinsárum og fá "nýja" heyrn með ígræðslu og sennilega gæti besti hópurinn til að svara spurningunni þó verið fólk sem heyrir á öðru eyra en hefur fengið kuðungsígræðslu á heyrnarlaust eyra hinum megin á höfðinu.
Með því að spila hljóð í náttúrlega heyrandi eyrað og síðan senda sama hljóð en mismunandi meðhöndlað í gegnum kuðungsígræðsluna er hægt að biðja einstaklininn um að velja hvenær þeim finnst hljóðið hljóma nákvæmlega "eins" í báðum eyrum í höfði sér.
Hér á eftir fylgir myndband sem sýnir einmitt slíka tilraun þar sem ung stúlka heyrir mannsrödd (merkt Original 1) með heyrandi eyranu. Síðan fær hún sömu upptöku senda í gegnum kuðungsígræðslutækið (og sem við áhorfendur heyrum spilaða ) en nú í ýmsum útgáfum og heyrnarfræðingurinn reynir að laga til eftir lýsingu stúlkunnur uns hún telur upptökurnar hljóma nákvæmlega eins í báðum eyrum.
Niðurstaðan bendir til þess að heyrnin um ígræddu tækin sé býsna nálægt eðlilega heyrandi eyranu. Þetta er virkilega ánægjulegt og vonandi slær það aðeins á þær gagnrýnisraddir sem halda því ítrekað fram að kuðungstæki hljómi eins og róbótar eða brakandi útvarpsviðtæki eða þaðan af verra. Tæknin hefur tekið miklum framförum frá fyrstu, frumstæðu ígræðslutækjunum en sumir virðast neita að horfast í augu við það til að þjóna málstað sínum. Hræðsluáróður til foreldra barna sem fæðast heyrnarlaus mun vonandi hverfa í framtíðinni. Börnin geta fengið virka og góða heyrn og fengið fullan aðgang að hljóðheimi talandi fólks.
Hér er hlekkur á myndbandið: https://youtu.be/1dhTWVMcpC4