Tónmöskvar í leikhúsum og öðrum samkomusölum

Tónmöskvi er búnaður til að auka aðgengi heyrnarskertra að öluðu máli.
Tæknin er fólgin í snúru, sem lögð er í hring og myndar rafsegulsvið.
Þessi tækni gerir notendum heyrnartækja, sem hafa sérstaka móttakara fyrir tónmöskvasendingar
(T-spólu), kleift að heyra betur það sem sent er í gegnum tónmöskvann.
Tónmöskvi styttir fjarlægð hljóðsins frá hljóðgjafa til heyrnartækja.
Notandinn þarf að vera staðsettur innan segulsviðsins til að tæknin komi að notum.
Í núgildandi byggingarreglugerð, grein 107:6 segir:
„Samkomusalir skulu eftir því sem við á vera búnir tónmöskvakerfi eða öðru sambærilegu kerfi með tilliti til heyrnarskertra.“
Samkomusalir eru samkvæmt reglugerðinni til dæmis.:
félagsheimili, leikhús, kvikmyndahús, veitingahús, kirkjur, safnaðarheimili, hús með fundarsölum, sýningarsölum, fyrirlestrarsölum, íþróttasölum, mötuneyti fyrir 50 manns eða fleiri....


Leikhúsin

Þjóðleikhús og Borgarleikhús hafa tónmöskva en athuga þarf að kaupa miða í ákveðin sæti, ef nota á tónmöskvann.
Þjóðleikhúsið hefur tónmöskva í fjórum til fimm ystu sætum beggja vegna í sætaröðum 1 til og með 9 og í öllum sætum í sætaröð 10.
Borgarleikhús hefur tónmöskva bæði í litla sal og aðalsal.
Í litla sal er tónmöskvi í öllum sætum á 4. og 5. bekk (tvær efstu sætaraðir).
Í aðalsal er tónmöskvi í öllum sætum á 1. til og með 5. bekk. Tónmöksvi er í sex ystu sætum á 6. til og með 13. bekk, beggja megin í salnum. Þá er tónmöskvi í öllum sætum á 15. til og með bekk 17.

Kirkjur

Kirkjur á Reykjavíkursvæðinu hafa margar tónmöskva og liggja þeir yfirleitt meðfram veggjum. Best er þá að sitja sem næst veggjunum til að ná sendingum tónmöskvans vel.