eyraEðlileg heyrn byggist á því að allir hlutar eyrans og heyrnarbrautir heilans starfi eðlilega (mynd). Lögun ytra eyrans er þannig að það fangar hljóðbylgjur og beinir þeim inn í hlustina. Hljóðbylgjan skellur á hljóðhimnunni og setur hana á hreyfingu. Titringur hljóðhimnunnar hreyfir miðeyrnabeinin; hamar, sem er áfastur hljóðhimnunni, steðja og ístað. Ístaðið situr á himnu egglaga glugga sem er op á milli miðeyrans og innra eyrans. Innra eyrað samanstendur af kuðungi sem þjónar heyrninni og þrennum bogagöngum sem þjóna jafnvægisskyni og eru eins konar hallamælir líkamans. þegar ístaðið hreyfist myndast bylgja í vökvafylltum kuðungnum. Við hreyfingu vökvans sveigjast þúsundir hárfruma sem líkja má við hreyfingu þörunga á sjávarbotni þegar alda gengur yfir þá. Þegar hárfrumurnar hreyfast verða til rafboð sem flytjast til heyrnartaugarinnar. Heyrnartaugin sendir rafboðin til heilans sem túlkar boðin sem hljóð. Til þess að eyrað starfi eðlilega og veiti okkur eðlilegan aðgang að hljóðum þurfa allir hlutar þess að vera til staðar og starfa eðlilega.
 

Hvað er hljóð?

Hljóð er bylgjuhreyfing sem breiðist út í öreindum efnis eins og til dæmis lofts eða vatns. Tíðni hljóðs (sveiflutími) er mæld í hertzum (Hz). Styrkur hljóðsins er mældur í desibelum (dB). Tal samanstendur af hljóðum af mismunandi tíðni. Samhljóðar eru oftast á hærra tíðnisviði en sérhljóðar. Flest hljóð sem við heyrum í daglegu lífi eru samsett af mismunandi tíðni og mismiklum styrk. Heyrnarskerðing getur verið jöfn yfir allt tíðnisviðið eða komið fram á mismunandi tíðni.