Getur kaffibolli skemmt heyrnina ?
( þýdd grein eftir Debbie Clason af vefsíðu Healthy Hearing)
Ertu að hugsa um að fá þér stóran kaffibolla til að vakna betur daginn eftir hljómleikana?
Kannski ættir þú að velja koffín-laust kaffi – sérstaklega ef að heyrnin hefur ekki ennþá náð sér eftir hávaðann frá kvöldinu áður.
Rannsakendur hjá McGill University Health Centre í Montreal, Quebec í Kanada hafa komist að því að dagleg neysla á koffíni (caffein) getur komið í veg fyrir að heyrnin jafni sig eftir að hafa lent í miklum hávaða.
Myndatexti: Kaffibollinn getur komið í veg fyrir að heyrnin jafni sig eftir mikinn hávaða.
Hvað er Temporary Threshold Shift (TTS)
Flest okkar hafa upplifað það að missa heyrnina að nokkru leyti eða vera með háværan tón í eyrum eftir háværa tónleika, flugeldasýningar, byssuhvelli eða álíka háværar uppákomur. Þetta ástand er á læknamáli kallað Temporary Threshold Shift (TTS) eða Tímabundin hávaðaþröskulds-færsla, gerist þegar hinar viðkvæmu hárfrumur innra eyrans eru hálfóvirkar eða lamaðar eftir mikið áreiti vegna hávaða. Það tekur þessar hárfrumur mislangan tíma að jafna sig, allt frá fáum klukkustundum og jafnvel allt að 72 tímum eða 3 sólarhringum þar til heyrn er komin í samt lag.
Og hvað kemur kaffi þessu máli við ?
Koffín er náttúrlegt örvandi efni sem finnst m.a. í kaffi, te, súkkulaðidrykkjum og mörgum orkudrykkjum auk þess sem koffín er notað í hin ýmsu lyf við kvefi, ofnæmi og í verkjalyfjum. Koffín örvar miðtaugakerfið, bætir blóðflæði og eyðir þreytutilfinningu sem annars fylgir vökum og skemmtunum fram á nótt. Sumar rannsóknir hafa jafnvel bent til þess að koffín geti dregið úr hættu á vissum tegundum krabbameins (s.s. í lifur, munni og hálsi) og haft jákvæð áhrif til að hindra Sykursýki 2, Parkinson-sjúkdóm og heilablóðfall.
En þegar kemur að heyrninni þá virðist koffín ekki vera alveg jafn jákvætt. Rannsakendur segja að koffínmagn úr jafnvel einum venjulegum kaffibolla geti hindrað að heyrnin jafni sig eðlilega eftir TTS.
Dr. Faisal Zawawi, háls-nef og eyrnalæknir, sem starfar á McGill Auditory Sciences Laboratory, sagði að vísindamenn hans hefðu nokkur efni grunuð um að hindra líkamann í að „gera við“ skemmdir í eyrum eftir TTS. Þau ákváðu því að sannreyna tilgátur sínar með rannsókn á þremur hópum tilraunadýra. Niðurstöður hópsins birtust í vísindagrein sem kom út apríl 2016 í Journal of the American Medical Association (JAMA) Otorhinolaryngology Head and Neck Surgery. Einn hópur tilraunadýra var látinn þola 110 decibila (dB) hávaða, sem jafngildir þeim hávaða sem algengur er á mörgum rokktónleikum. Hinir hóparnir tveir voru einnig útsettir fyrir sama hávaða en fengu að auki 25 mg af koffíni (caffeine), magn sem er álíka mikið og er í einum bolla af venjulegu tei sem inniheldur koffín eða litlum espresso bolla.
Tilraunadýrin sem aðeins þurftu að þola hávaðann voru búin að jafna sig á áttunda degi. Heyrn þeirra var aftur orðin eðlileg. En dýrin sem fengu koffín-skammtinn náðu aldrei eðlilegri heyrn. Niðurstaða rannsóknarfólksins var því að tímabundin lækkun hávaðaþröskuldarins af völdum hávaða (TTS) ásamt neyslu koffíns leiði til varanlegrar heyrnarskerðingar.
Forvarnir
Flestir einstaklingar ná sér að fullu eftir tímabundna heyrnarskerðingu af völdum hávaða en stöðugt áreiti á heyrnina, sérstaklega hávaði yfir 80 dB getur valdið varanlegu heyrnartapi.
Skv skýrslum Hearing Health Foundation í Bandaríkjunum eru nærri 50 milljónir Bandaríkjamanna með skerta heyrn. Þar af eru um 26 milljónir með heyrnartap af völdum of mikils hávaða við störf eða leik. Heyrnartap af völdum hávaða (HvH) er ein algengasta tegund heyrnarskerðingar og er jafnvel oft af völdum einstaks atburðar s.s. sprengingar en getur einnig myndast á lengri tíma ef viðkomandi er í of miklum hávaða í lengri tíma. Slíkt heyrnartap er einnig það sem auðveldast er að fyrirbyggja.
Þarf maður að hætta að drekka kaffið sitt ? Ekki endilega. Langflestir fullorðinna drekka kaffi reglulega og það getur verið erfitt að gefa slíka daglega siði upp á bátinn. En það eru önnur ráð til:
- Komdu í veg fyrir að þú sért of lengi í mjög háværu umhverfi. Ef hávaði á vinnustað er óþægilegur skaltu ræða við yfirmenn um hvernig draga megi úr hávaða. Skv rannsóknum er þægilegur hávaði á vinnustöðum um 60 dB eða lægri.
- Vertu vakandi fyrir aðstæðum í frítíma þínum þar sem hávaði er mikill og reyndu að takmarka þann tíma sem þú ert í slíku hljóðumhverfi. Byssuskot getur mælst allt að 165 dB og getur valdið varanlegri heyrnarskerðingu. Hávaði í líkamsræktarstöðvum getur verið yfir hættumörkum og svo mætti lengi telja.
- Notum eyrnatappa eða heyrnartól til verndar heyrninni við háværar aðstæður. Kappleikir og tónleikar geta verið alveg jafn skemmtilegir þó að maður sé með eyrnatappa í hlustum. Hávaði á landsleikjum hefur mælst langt yfir 100 dB þegar mest gengur á. Tónleikar rokksveita í 2-3 klukkutíma geta hæglega valdið heyrnarskaða hjá áhorfendum
- Ef þú lendir í því að upplifa TTS (hella, tímabundið heyrnartap og syngjandi tónn í eyrum eftir mikinn hávaða) þá skaltu forðast kaffi þangað til heyrnin hefur lagast. Þó að niðurstöður rannsókna séu ekki endanlegar þá er sjálfsagt að taka enga áhættu. Þú getur alltaf fengið þér góðan bolla af sterku kaffi þegar heyrnin er aftur komin í lag
- Láttu mæla heyrnina reglulega, einkum eftir miðjan aldur. Reyndu að viðhalda bestu mögulegu heyrnarheilsu til að geta notið þessa merkilega skynfæris alla ævi.
(birt á vefsíðu HTÍ í okt 2018)