Skip to main content

Heyrnarlausi píanókennarinn á Hvolsvelli

Inspirational Music Teacher w CI Laima

Það hafa ekki allir þá hæfileika og færni sem þarf til að gerast tónlistarkennarar.
Miklu færri slíkir einstaklingar finnast sem eru heyrnarlausir og með kuðungsígræðslu.

Laima varð ástfangin af tónlist á unga aldri. En þegar hún missti heyrnina af völdum heilahimnubólgu sögðu læknar henni að hún gæti sennilega aldrei leikið á píanó framar. Í eftirfarandi frásögn segir Laima okkur frá því hvernig kuðungsígræðsla gerði henni kleift að uppfylla drauma sína og halda áfram að vinna við það sem henni var ætíð ætlað, tónlist.

,,Ég heiti Laima Jakité. Ég er 48 ára gömul og fæddist í Litháen en hef búið á Íslandi í mörg ár. Tónlist er líf mitt og yndi. Tónlist tengist svo mörgum minningum og upplifunum í lífinu, bæði góðum og slæmum, skemmtilegum tímabilum og sorglegum stundum. Um tíma varð ég jafnvel afhuga tónlist og var alls ekki viss um að tónlist væri réttur vettvangur fyrir mig.

En þegar ég fékk ígrædd heyrnartæki hóf ég að leika tónlist aftur. Ég spilaði á píanóið á hverjum degi þangað til að ég fann að ást mín á tónlist hafði kviknað á ný. Mig langar að segja ykkur sögu mína – hvernig lífið breyttist þegar ég missti heyrnina og hvernig ég get nú lifað lífinu á ný með hjálp kuðungsígræðslutækjanna frá Med-El".

Að læra að njóta tónlistar

Ég hef alltaf haft gaman af tónlist. Hún var alls staðar á æskuheimili mínu; faðir minn spilaði á fiðlu og kontrabassa og bræður mínur stunduðu tónlistarnám. Þegar ég hlustaði á þá spila reyndi ég alltaf að muna nóturnar og spila þær síðan aftur á píanóið. Fyrsta lagið sem ég náði að spila alveg var „Kattarmarsinn“. Þegar ég var 8 ára hóf ég síðan píanónám. Í fyrstu skyldi ég ekkert í því að ég þyrfti að spila eftir nótum. Mér fannst miklu einfaldara að spila bara eftir eyranu. Fyrsti píanókennarinn minn var yndislegur og kenndi mér að lesa nótur og þá fór mér að skiljast hvernig tónlist er skráð niður.

Þegar ég eltist hélt ég áfram í tónlistarnámi, fyrst við Art College of Žemaitija í Litháen og síðar í háskóla. Þar komst ég í kynni við þjóðlega tónlist og heimstónlist (ethnoculture). Mér finnst afar spennandi að greina hvernig tónlist hefur leikið hlutverk í lífi fólks um allan heim – líf fólks þróast og tónlistin með. Eftir að ég útskrifaðist sem tónlistarkennari snerist allt mitt líf um tónlist. Ég starfaði við Degaičiai Ethnocultural Center sem listrænn stjórnandi, skipulagði tónleika og vann að margvíslegum tónlistarverkefnum. Ég spilaði og söng sjálf um leið og ég stóð fyrir ýmsum uppákomum. Síðar varð ég Ethnocultural miðstöðvar.

Ákvörðun sem gjörbreytti lífi mínu

Árið 2007 flutti ég til Íslands. Margir hafa spurt mig hvers vegna ég hafi farið frá Litháen og hvernig ég hafi getað skipt út starfi mínu í tónlist í Litháen fyrir einfalt sveitalíf á Íslandi. Á þessum tíma var ég óánægð með stefnu yfirvalda í menningarmálum í Litháen. Þess vegna ákvað ég að flytja burt og Ísland varð fyrir valinu. Nú hef ég búið hér í 11 ár og ég hef aldrei nokkurn tímann iðrast þess að hafa flutt hingað í ókunnugt land. Ísland kalla ég núna „heima“.

Sex árum síðar varð aftur gjörbylting í mínu lífi þegar ég veikist af heilahimnubólgu sem olli því að ég missti heyrnina algjörlega. Í hönd fór erfiðasta tímabil lífs míns. Ég lifði í algjörri þögn. Ég gat ekki einu sinni grátið því að sorgin kæfði jafnvel grátinn. Ég var hreinlega hrædd við að gráta því ég gat ekki heyrt minn eigin grát. Ég var á barmi örvæntingar.
Ég spurði lækninn minn hvort ég mundi nokkurn tímann geta heyrt eða leikið tónlist, ég þráði það og vonaði heitt að svo væri. Því miður var úrskurður læknisins sá að ég mundi að öllum líkum aldrei geta heyrt tónlist aftur. Þetta voru skelfilegar fréttir en ég hélt samt dauðahaldi í vonina um að ég gæti aftur snúið til tónlistarinnar.

Kuðungsígræðsla

Áður en ég varð heyrnarlaus vissi ég ekkert um kuðungsígræðslur. En læknirinn minn sagði mér frá þessari tækni og útskýrði fyrir mér að þessi aðgerð væri mín eina von um að öðlast heyrn á ný. Svo að ég kynnti mér kuðungsígræðslur og fyrir mig skipti það miklu máli að vita hvort að ég gæti mögulega heyrt tónlist á ný. Ég las allt sem ég fann, umsagnir fólks um tæki og búnað og ræddi ítarlega við lækninn minn og ákvað loks að taka skrefið og valdi mér að lokum tæki frá Med-El sem við töldum geta gagnast mér best.

Erfiðasta tímabilið í lífi mínu var eftir að ég missti heyrnina og þangað til ég fékk ígrædda heyrnartækni. Ég lifði í algjörri þögn, ég lærði að lesa varamál að nokkru leyti. Ég gat bara tjáð mig með því að skrifast á við lækninn minn. Ég hripaði niður spurningar og þau svöruðu mér skriflega.

Í febrúar 2014 fékk ég loks skurðaðgerðina framkvæmda og tækin voru grædd í bæði eyru. Ég hafði beðið þessarar stundar með mikilli óþreyju. Aðgerðin heppnaðist mjög vel og loks kom að þeirri stund að kveikt var á búnaðinum. Fyrsta hljóðið sem ég heyrði var rödd læknisins sem spurði mig hvort ég heyrði rödd hennar. Grátandi svaraði ég: „Já, ég heyri.“

Smátt og smátt batnaði heyrn mín með hverri heimsókn til heyrnarfræðinga og talmeinafræðinganna. Ég er mjög þakklát sérfræðingum Heyrnar-og talmeinastöðvar Íslands. þau hvöttu mig til dáða og til að vinna stöðugt að endurhæfingu og prófa að leika tónlist að nýju. Þeirra góða starf og tækninýjungar í læknisfræði hefur fært mig aftur inn í heim hljóðs og tónlistar.

Endurkoma í tónlist

Frá þeim degi sem ég fékk ígræðslutækin áttaði ég mig á því að mér mundi reynast erfitt að takast að leika á píanó og heyra tónlist að nýju. Ég heyrði bara ógreinilegan hávaða þegar ég lék á píanóið, ég náði ekki að greina neinar melódíur. Þegar ég lék lög sem ég þekkti frá því áður en ég varð heyrnarlaus þá greindi ég laglínu í byrjun en síðan rann allt saman í háværan graut. Ég spilaði sömu lögin aftur og aftur og aftur. Ég reyndi að spila þau í lægri tóntegundum en þau voru skrifuð í því að ég gat greint sumar lægri nótur betur en nótur á hærra tíðnissviði.

Hægt og bítandi fór ég að skilja laglínur og ég gat farið að spila lögin eins og til var ætlast. En ég heyrði hljóma mjög illa og ég gat jafnvel ekki greint hvort að lagið var í dúr eða moll. Það var mjög erfitt að halda áfram að vinna stöðugt að því að spila og læra að heyra upp á nýtt. En strax eftir 3ja mánaða þjálfun fann ég að ég gat heyrt hvað ég var að spila á píanóið.

Þá rakst ég á auglýsingu frá tónlistarskóla Rangæinga sem var nálægt heimili mínu. Þau voru að leita að píanókennara og ég ákvað að sækja um stöðuna. Þau gáfu mér tækifæri til að spreyta mig og ég hóf störf til reynslu. Það var fyrir fjórum árum síðan og ég starfa þar enn þann dag í dag. Ég er með 13 nemendur í píanónámi og kenni 2 hópum barna í grunnnámi í tónlist. Kennslan var erfið í byrjun en í dag get ég staðhæft að tónlist er sennilega besta mögulega endurhæfing fyrir fólk eins og mig, sem þarf að læra að heyra með kuðungsígræðslutækjum.

Draumar rætast á tónlistarhátíðinni Beats of Cochlea

Í dag heyri ég nógu vel til að greina hvort að lag er í dúr eða moll, ég heyri hljóma og tóna á öllu hljómborðinu. Ég sem og útset einfalda tónlist fyrir píanó og önnur hljóðfæri. Ég get nú spilað lög sem ég hef aldrei heyrt eða spilað áður.

Fólk spyr mig oft hvernig ég geti starfað sem píanókennari við tónlistarskóla þar sem ég er algjörlega heyrnarlaus og get aðeins heyrt með aðstoð tækninnar þ.e. kuðungsígræðslutækja. Ég sagði stundum fólki ekki frá starfi mínu því ég var feimin og mér fannst óþægilegt að útskýra þetta. Ég spurði sjálfa mig þessara spurninga aftur og aftur: Hvernig get ég heyrt og spilað tónlist?
Ég leitaði svara og kannaði upplýsingar um fólk sem var í mínum sporum og væru að leika tónlist. Og ég fann sögu um breska konu sem er kuðungsígræðsluþegi og leikur á píanó. Það var mér mikil örvun.

Hún sagði mér frá Beats of Cochlea tónlistarhátíðinni í Pólandi, hátíð sem eingöngu ætluð tónlistarfólki sem er með kuðungsígræðslutæki. Mig dreymdi um að fá að taka þátt og spila þar. Og sá draumur rættist nú síðsumars þegar ég tók þátt og var útnefnd sigurvegari hátíðarinnar.
Laima spilar á Beats of Cochlea

HÉR má sjá myndband af frammistöðu Laimu á hátíðinni

Beats of Cochlea er einstæður vettvangur til að sýna öllum heiminum að heyrnarlaust fólk getur ekki aðeins heyrt á nýjan leik með aðstoð ígræddrar heyrnartækni heldur er það einnig fært um að heyra tónlist, spila og syngja. Ég get með engu móti lýst því með orðum hvernig mér leið að spila í stórum tónleikasal með hundruðir áheyrenda sem hlustuðu á mig. Hátíðin jók mér kjark og veitti mér aukið sjálfstraust og vissu um að ég sé fær um að stunda tónlist. Mín fyrsta hugsun eftir að ég gekk af sviðinu var: Ef pabbi hefði getað séð mig gera þetta þá hefði hann orðið stoltur af stelpunni sinni.

Nú veit ég að tónlistin er rétta brautin í mínu lífi. Nú er ég ekkert hrædd við að viðurkenna að ég sé algjörlega heyrnarlaus og geti bara heyrt með aðstoð tækninnar og ígræddu tækjanna. Og það sem meira skiptir, ég er óhrædd við að lýsa sjálfri mér sem tónlistarkennara. Ég mun halda áfram að mennta mig svo ég geti betur kennt mínum nemendum og deilt allri færni og tilfinningum sem ég get miðlað til þeirra. Mig langar einnig að hjálpa öðrum kuðungsígræðsluþegum að læra að heyra tónlist. Það er minn stóri draumur og næsta stóra áskorun í lífinu.

 

(þýtt úr grein: An Inspirational Music Teacher With Cochlear Implants, sem birtist á blog síðu MED-EL heyrnartækjaframleiðandans í október 2018)

Save
Cookies user preferences
We use cookies to ensure you to get the best experience on our website. If you decline the use of cookies, this website may not function as expected.
Accept all
Decline all
Read more
Functional
Tools used to give you more features when navigating on the website, this can include social sharing.
Osano
Vefkaka sem geymir tímabundið samþykki þitt á þessari vefsíðu
Accept
Decline
Analytics
Tools used to analyze the data to measure the effectiveness of a website and to understand how it works.
Google Analytics
Rýnir í vefumferð á vefnum svo hægt sé betrumbæta hann.
Accept
Decline