Heyrnarskertir, leikhús og tónleikar. Ómöguleg blanda?
Í nýlegri erlendri rannsókn voru heyrnarskertir einstaklingar spurðir um upplifun sína af því að sækja leiksýningar og tónleika. Niðurstöður voru sláandi: 94% heyrnarskertra sögðu fötlun sína leiða til slæmrar eða mjög slæmrar upplifunar af slíkri dægradvöl. Margir heyrnarskertra hætta að sækja viðburði og skemmtanir sem eykur félagslega einangrun þeirra.
Nær allir heyrnarskertra leikhúsgesta eru óánægðir
Rannsóknin, sem framkvæmd var í Englandi, náði til 143 heyrnarskertra einstaklinga með mismunandi slæma heyrnarskerðingu, allt frá vægu til verulegs heyrnartaps. Og niðurstöður sýna að rúmlega 9 af hverjum 10 telja heyrnarskerðingu sína koma í veg fyrir að þau geti notið sýninga og tónleika sem skyldi. Að auki sögðu 83% þeirra að ekki hefði verið til staðar neinn hjálparbúnaður til að gera heyrnarskertum kleift að heyra betur hvað fram fór.
Bætt aðgengi
Aðspurðir lögðu heyrnarskertir fram ýmsar hugmyndir um hvernig hægt væri að bæta upplifun þeirra af leiksýningum og tónleikum og það án verulegrar fyrirhafnar eða kostnaðar fyrir þá sem standa fyrir slíkum viðburðum. Þannig töldu 73% að með því að draga úr bakgrunnstónlist þegar talað er eða bæta hljóðvist mætti bæta upplifun þeirra.
Tveir af hverjum þremur (66%) nefndu hjálparbúnað s.s. tónmöskva og FM búnað sem hægt er að fá lánaðan á sumum stöðum. Af þeim völdu 2/3, eða 77% þeirra sem nefndu hjálparbúnað, tónmöskva sem kjör-búnað þar sem hægt er að stilla flest heyrnartæki inn á slíkan búnað og fá öllu hljóði streymt í heyrnartækin. Tónmöskvar ná yfir afmarkað svæði og skapa segulsvið og innan þess útvarpast hljóð frá hljóðkerfum. Heyrnartækjanotendur þurfa þá aðeins að bóka sig á slík svæði eða finna þau svæði sem merkt eru, kveikja á T-spólu heyrnartækjanna og njóta síðan alls þess sem fram fer.
Á Íslandi eru nokkrar kirkjur með slíkan búnað og Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið og Harpa bjóða upp á lausnir fyrir heyrnarskerta en mættu bæði auglýsa þjónustuna betur og bæta má búnað sumra þessara staða. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands veitir ráðgjöf um margs konar hjálparbúnað fyrir heyrnarskerta og útvegar búnað frá erlendum framleiðendum.
Einfaldar breytingar geta skipt miklu máli
Rannsóknarfólkið spurði sérstaklega um reynslu heyrnarskertra af miðasölum, veitingasvæðum leikhúsa/tónleikahalla, samskipti við starfsfólk o.s.frv. Heyrnarskertir sögðu að auðvelt væri að kenna afgreiðslufólki hvernig best er að tala til heyrnarskertra, tala skýrt og greinilega og horfa í andlit þess heyrnarskerta um leið. Þetta einfalda ráð mundi létta heyrnarskertu fólki lífið mikið.
Þá lögðu heyrnarskertir til að veitingasvæði, matsölur og miðasölur drægju úr bakgrunnshávaða, s.s. tónlist og að bjóða upp á róleg og kyrrlát svæði þar sem hægt væri að halda uppi samræðum við vini og aðra gesti mundi einnig bæta upplifun heyrnarskertra gesta verulega.
Heimild: www.ideasforears.org.uk
Skráð: Júní 2018