Dagur daufblindu - Hvað er daufblinda?
DAUFBLINDA
Við upplifum og leggjum skilning í samfélag okkar í gegnum sjón og heyrn. Ef heyrn skerðist reynir meira á sjónina hjá okkur og öfugt. Ef bæði sjón og heyrn skerðist minnka möguleikar okkar til að túlka og fylgjast með umhverfi okkar.
Daufblinda kallast það þegar samþætt sjón- og heyrnarskerðing er til staðar í þeim mæli að hún gerir skertu skynfærunum erfitt fyrir að bæta upp fyrir hvort annað. Þess vegna er samþætt sjón- og heyrnarskerðing sértæk fötlun.
Mikilvægt er að greina samþætta sjón – og heyrnarskerðingu snemma til að takmarka neikvæð áhrif hennar á líf einstaklinga og stuðla að sjálfstæði og virkni í lífi. Daufblindu er skipt niður í snemm – og síðbúna sjón – og heyrnarskerðingu.
Snemmbúin daufblinda er þegar einstaklingur fæðist með bæði sjón – og heyrnarskerðingu.
Siðbúin daufblinda er þegar einstaklingar missa sjón og heyrn síðar á lífsleiðinni.
Um fjölda einstaklinga með samþætta sjón – og heyrnarskerðingu er ekki vitað nákvæmlega. Stærsti hópurinn hér á landi eru aldraðir einstaklingar en þeirra skerðing er oft á tíðum mjög vangreind. Þörf er á verulegu átaki til að greina betur aðstæður aldraðra með samþætta sjón-og heyrnarskerðingu.
Starfrækt er þverfaglegt teymi sem skipað er fulltrúum eftirfarandi stofnanna;
- Þjónustu og þekkingarmiðstöð blindra, sjónskerta og daufblindra einstaklinga
- Heyrnar – og talmeinastöð Íslands,
- Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra
- Greiningar – og ráðgjafastöð ríkisins.
Hlutverk teymisins er margþætt: Framkvæmd á starfrænu mati fyrir einstaklinga með samþætta sjón – og heyrnarskerðingu, eftirfylgd á þjónustu eftir starfrænt mat, halda utan um tölfræðilegar upplýsingar og sjá um fræðslu um samþætta sjón – og heyrnarskerðingu.
Til hliðsjónar á starfrænu mati er notast við Alþjóðlegt flokkunarkerfi um færni, fötlun og heilsu (ICF). Sviðum hins daglega lífs er skipt niður í 9 kafla og eru þau skoðuð með tilliti til virkni og þátttöku. Með starfrænni greiningu er metið hvað gengur vel og hvaða úrræði er hægt að nota til þess að einstaklingurinn nái sem mestri virkni í sínu félagslega umhverfi.
Boðið er upp á undirbúningsviðtal áður en greiningarferli hefst.
Markmið starfræns mats: Varpa ljósi á umhverfi einstaklingsins og því sem hann vill breyta í sínu daglega lífi.