Heyrnartæki – hraðvirkar hátæknitölvur
Þróun heyrnartækja er hröð og tekur stórstígum framförum. Nútíma heyrnartæki eru örlitlar hátæknilegar tölvur. Stöðugt er unnið að þróun og rannsóknum til að gera heyrnartækin þannig úr garði að þau geti sem best endurskapað eða bætt upp tapaða náttúrulega heyrn.
Sífellt smærri örgjörvar gera vísindamönnum kleift að byggja fleiri og kröftugri vinnslumáta í tækin og bæta þannið hljómgæði, stefnuvirkni hljóðnema, úrvinnslu hljóðs og takmörkun umhverfishljóða sem trufla talgreiningu þess heyrnarskerta. Meðferð heyrnarskerta batnar því betur sem tekst að aðlaga heyrnartækin að persónulegum þörfum hvers notanda og hljóðumhverfi viðkomandi.
Fleiri hlustunarkerfi – meiri sjálfvirkni
Heyrnartæki í efstu gæðaflokkum vinna stöðugt úr geysimiklu magni hljóðmerkja sem þau nema. Aðstæður, tegund hljóðáreitis, umhverfi notanda og fleiri þættir ráða síðan hvernig tækin aðlaga hlóðin að heyrn viðkomandi. Tækin skipta sjálfvirkt og á sekúndubroti á milli mismunandi for-stilltra hlustunarkerfa sem hæfa aðstæðum hverju sinni.
Endursköpun hljóðsins miðar að því að tækin geti skilað hlustanda sem þægilegastri og bestri heyrn og bæti fyrir þann heyrnarskaða/-tap sem einstaklingurinn hefur orðið fyrir.
Hvernig virka heyrnartæki?
Öll heyrnartæki eru byggð upp af sömu grunnatriðum og hlutum. Fyrst ber að telja skelina en Inni í litlum plast-skeljum sem mynda ytri umgjörð tækjanna er að finna flókinn tækjabúnað:
Hljóðnemar:
Hljóðnemar heyrnartækja eru yfirleitt 1-2 og staðsettir á mismunandi stöðum á tækinu til að greina hljóð sem berast úr mörgum áttum að hlustanda. Hljóðnemarnir umbreyta hljóðum í rafræn boð.
Magnari
Fyrir heyrnarskerta er nauðsynlegt að heyrnartækin magni upp þau hljóð sem hljóðnemarnir nema og komi þeim í eyru þess heyrnarskerta. Í heyrnartækjunum er því magnarar sem eru mis-öflugir eftir því hversu mikla hljóðmögnun viðkomandi þarf á að halda
Hátalari
Afurð eða framleiðsla magnarans er síðan hljóðið og öll heyrnartæki hafa hátalara sem breyta rafboðum aftur í hljóð sem hlustandinn nemur. Hátalarar eru ýmist staðsettir í tækjunum og hljóðið leitt eftir slöngum til eyrans eða hátalarar eru staðsettir í eyrnagöngunum sjálfum.
Örsmáar tölvur
Auk ofangreindra hluta er síðan hjartað í heyrnartækinu, sjálf tölvan sem vinnur úr hljóðum frá hljóðnemum, umbreytir og sérsníður hljóðin sem hlustandinn þarfnast og dregur úr eða eyðir óþarfa hljóðum sem gætu truflað notendur. Reynt er að tryggja að sérhver notandi fái nákvæma stillingu sem passar heyrnartapi viðkomandi sem best. Því er hvert tæki einstakt og aðeins stillt fyrir ÞITT eyra.
Tölvutæknin gerir einnig kleift að bjóða ýmsa fylgihluti með nýjustu hátækni-heyrnartækjum, s.s. fjarstýringar og samskiptabúnað sem gerir kleift að tengja heyrnartækin við t.d. farsíma, sjónvörp o.fl.
Rafhlöður
Til að knýja þessar örtölvur þarf rafhlöður og með bættri tækni í gerð rafhlaða hefur tekist að minnka stöðugt tækin og ending rafhlaða batnar hægt og bítandi. Notaðar eru nokkar mismunandi tegundir rafhlaða í heyrnartæki, allt frá örsmáum rafhlöðum og upp í eilítið stærri og kraftmeiri rafhlöður sem þarf fyrir kraftmestu heyrnartækin.
Venjulegar rafhlöður endast í 5-10 daga (eftir tegund heyrnartækja og notkun). Nýjustu heyrnartækin er einnig hægt að fá með endurhlaðanlegum, innbyggðum rafhlöðum svo að sífelldar skiptingar á rafhlöðum heyra brátt sögunni til.