Dagur heyrnar 2024
Föstudaginn 1.mars n.k. verður haldið málþing í SALNUM, Kópavogi, um BÖRN – HLJÓÐVIST OG HEYRNARVERND
á vegum Umboðsmanns barna, Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, Landlæknisembættis og Vinnueftirlits ríkisins.
Málþingið stendur frá kl 10-12 og fundarstjóri verður Dagur B Eggertsson.
Yfirvöld hafa áhyggjur af sífellt óhollara hljóðumhverfi fyrir börn, í skólum, að leik og í frístundum. Alþjóða Heilbrigðisstofnunin telur að rúmlega fjórðungur allra ungmenna í heiminum séu í hættu á varanlegum skaða á heyrn sinni vegna hávaða og hlustunar á hættulegum hljóðstyrk. Ástæða er til að skoða stöðu mála og fræða börn, ungmenni, kennara og aðstandendur um mikilvægi góðrar hljóðvistar og heyrnarverndar.
Á málþinginu verður rætt um hljóðvist í umhverfi barna, bæði almennt og í skólum, rætt við börn og ungmenni um viðhorf þeirra, hvernig hávaði getur haft áhrif á heilsu, líðan og námsárangur. Þá verður fjallað um þau úrræði sem bjóðast til úrbóta. Í lokin verður fjallað um viðbrögð heilbrigðisyfirvalda, tengsl hávaða og heyrnarverndar við lýðheilsu o.fl. Málþingið er haldið í tengslum við Dag heyrnar 2024. Sjá meðfylgjandi dagskrá.