Dagur heyrnar - Nám í heyrnarfræði
Heyrnarfræði er faggrein sem er lítt þekkt meðal flestra Íslendinga enda ekki kennd á Íslandi og hefur það töluverð áhrif á hve margir þekkja til námsins. Margir þekkja þó til einstaklinga í nærumhverfi sínu sem eru með skerta heyrn en ætla má að um 15-20.000 Íslendinga séu með heyrnarskerðingu þar sem þörf er á notkunn heyrnartækja.
Heyrnarfræði er sjálfstæð heilbrigðisgrein og til að öðlast löggildingu skv. reglugerð krefst 3ja ára BSc gráðu í heyrnarfræði(e. Audiology). Heyrnarfræðingar vinna sjálfstætt með einstaklingum í öllum aldurshópum sem eru með skerta heyrn, ma. sjá um mælingar á heyrn og gefa ráð varðandi val og notkun heyrnartækja. Einnig vinna heyrnarfræðingar samhliða háls- nef- og eyrnalæknum vegna greininga á heyrnarskerðingu ásamt því að vinna með talmeinafræðingum þegar um börn eru að ræða.
Heyrnarfræði er þverfaglegt nám sem er byggt upp af læknisfræði, félagsvísindi og tækni, sem gerir námið mjög fjölbreytt. Hægt er að fara í framhaldsnám á mastersstigi og doktorsnám. Einnig er hægt að sérhæfa sig innan síns áhugasviðs í starfi, með faglegum námskeiðum, enda um fjölbreytt starf að ræða, sem dæmi má nefna vinna með börnum, kuðungsígræðslu og tinnitus.
Hingað til hafa flestir heyrnarfræðingar á Íslandi farið til Svíþjóðar og Noregs í nám en fleiri lönd bjóða upp á nám á háskólastigi, þar má meðal annars nefna Bretland og Bandaríkin. Áhugavert verður að vita hvort yfirstandandi faraldur hafi jákvæð áhrif og auki líkur á að hægt sé að sækja námið í fjarnámi að hluta eða öllu leyti frá Íslandi.
Mikil þörf er á menntuðum heyrnarfræðingum á Íslandi og hafa, í 5 ár, sænskir og norskir heyrnarfræðingar komið og starfað hér á landi tímabundið, algengt 6-12 mánuði. Í dag eru flestir heyrnarfræðingar að vinna hjá Heyrnar- og talmeinastöð en einnig vinna heyrnarfræðingar sjálfstætt með eigin stofur. Ætla má að þörfin fyrir heyrnarfræðinga muni aukast enn frekar á komandi árum vegna hækkandi lífaldurs og aukinnar kröfu í samfélaginu að fylgjast með. Stöðug þróun er í hönnun heyrnartækja, sem sífellt verða fullkomnari og gefa fleiri möguleika á stillingum til að koma á móts við heyrnarskerðinguna.
Starf heyrnarfræðinga er mjög þakklátt enda snýst það um að auka lífsgæði skjólstæðinga og að aðstoða fólk að taka þátt í samfélaginu, ma. í vinnu og skóla en einnig að eiga samskipti við vini og ættinga. Samskipti eru okkur mjög mikilvæg og þar spilar heyrnin stórt hlutverk. Ef þú hefur áhuga að að vinna með fólki og auka lífsgæði þess getur heyrnarfræði verið eitthvað fyrir þig, fjölbreytt og gefandi starf í stöðugri þróun.
Höfundur: Kristbjörg Pálsdóttir, Formaður Félags heyrnarfræðinga