Skip to main content

Frægir tónlistarmenn með heyrnarskaða

Hvað eiga þessir ágætu tónlistarmenn á myndinni hér að ofan sameiginlegt ?

Jú, þeir eiga allir við vandamál að stríða vegna heyrnarskerðingar eða eyrnasuðs (tinnitus)

Skoðum sögu nokkurra þessarra heiðursmanna (því miður engar konur á listanum enda heyrnarskerðing algengari meðal karla):

  1. Eric Clapton er einn merkasti og frægasti rokk- og blúsgítarleikari samtímans. Hann hefur þurft að glíma við mikið og þrálátt eyrnasuð sem að öllum líkindum hefur orsakast af miklum hávaða á tónleikum hans í upphafi ferilsins. Clapton var þekktur fyrir að keyra magnara í botni jafnt á tónleikum sem í hljóðverum, jafnvel svo að félögum hans þótti nóg um.

  2. Chris Martin er forsprakki og aðalsöngvari hinnar heimsfrægu hljómsveitar Coldplay sem notið hefur sívaxandi vinsælda allt frá fyrstu hljómplötu þeirra pilta árið 2000. En það sem fæstir vita er að hann hefur þjáðst af eyrnasuði (tinnitus) allan síðasta áratuginn.
    Söngvarinn sagði í viðtali við Daily Mail nýlega “Maður hugsar ekki nógu vel um eyrun og heyrnina fyrr en þú ert þegar kominn í vandræði. Ég er búinn að vera með tinnitus síðustu 10 árin en eftir að ég fór að nota hávaðahlífar hefur vandamálið ekkert versnað, sem betur fer. En ég vildi óska þess að ég hefði byrjað fyrr. Nú nota allir hljómsveitarmeðlimir sérsmíðuð hlustartól sem vernda heyrn okkar.
  1. Sting. Fyrrum aðalsöngvari og bassaleikari hljómsveitarinnar Police er enn einn vinsælasti tónlistarmaður veraldar. Hann varð fyrir heyrnarskaða af völdum hávaða á tónleikum undanfarinna áratuga. Sting er nú mjög áhugasamur um mikilvægi heyrnarverndar og vinnur með ýmsum samtökum og heilbrigðisstofnunum til að vekja athygli á verndun heyrnar.
  1. Jeff Beck lenti í 5. Sæti yfir bestu gítarleikara heims í kosningu tónlistartímaritsins Rolling Stone (“100 Greatest Guitarists of All Time”). Þessi fjölhæfi gítarleikari hefur lengi vakið athygli fyrir frammistöðu sína á sviði þungrar rokktónlistar, raftónlistar, framsækins rokks og jazz-skotinnar rokktónlistar. En hann hirti ekki um að hlífa heyrninni og hefur þjáðst af slæmu eyrnasuði um árabil.

  2. Phil Collins er fyrrum trommuleikari og söngvari hljómsveitarinna Genesis og síðar sóló-listamaður sem fengið hefur margvísleg verðlaun, bæði Óskarsverðlaun og Grammy verðlaun fyrir tónlist sína. Collins þurfti að lokum að aflýsa öllu frekara tónleikahaldi vegna alvarlegrar heyrnarskerðingar sem gerir honum ókleift að flytja tónlist sína.
  1. Will.i.am: Einn áhrifamesti tónlistarmaður síðari ára. Hann er einn stofnenda The Black Eyes Peas og eftirsóttur framleiðandi. Will.I.Am hefur um árabil verið með svo slæmt eyrnasuð (tinnitus) að hann segist nánast viðþolslaus. Hann segist þurfa að vinna við tónlist og vera með tónlist í eyrunum helst allan sólarhringinn því að það sé það eina sem nær að dempa þann sífellda són sem hann er með í eyrunum og slá á streituna sem fylgir þessu slæma eyrnasuði.
  1. Neil Young sló ungur í gegn með Buffalo Springfield og síðar með Crosby, Stills, Nash & Young áður en hann sneri sér alfarið að eigin tónlist og þykir með merkustu tónlistarmönnum síðustu áratuga. Hann hefur gefið út á fjórða tug hljómplatna og komið að gerð margra fleiri. Vegna hávaðaskaða vegna háværs tónlistarflutnings hefur hann þjáðst að eyrnasuði (tinnitus) í mörg ár. Þó að hann flytji oft hljóðlátar perlur með kassagítarinn einan að vopni þá skellir hann enn í mjög háværa rokktónlist á tónleikum sínum svo hann virðist lítið hafa lært af fyrri mistökum.
  1. Ozzy Osbourne: Allir sem séð hafa þáttaröðina um Ozbourne fjölskylduna gera sér fljótt grein fyrir að húsbóndinn heyrir afskaplega illa. Ozzy er ein af stærstu stjörnum þungarokksins en hann var aðalsöngvari hljómsveitarinnar Black Sabbath allt þar til hljómsveitin lauk ferlinum á árinu 2019. Hávaði á tónleikum þeirra var ætíð mikill og er örugglega ástæðan fyrir mikilli heyrnarskerðingu hans í dag.
  1. Brian Wilson, forsprakki og aðal lagahöfundur hinnar fornfrægu hljómsveitar The Beach Boys hefur verið verulega heyrnarskertur á hægra eyra allt frá unga aldri. Þetta hindraði Brian þó aldrei í tónlistarsköpun sinni. Hann hefur samið og útsett tónlist og er enn að.
  1. Paul Stanley, sem stofnaði amerísku rokk-hljómsveitina KISS, fæddist með vissan galla, microtia, sem leiðir til þess að ytra eyrað hægra megin er verulega vanþroskað. Hann var alinn upp í mikilli tónlistarfjölskyldu og ætlaði sér alltaf að verða tónlistarmaður þó að hann heyri í raun nær eingöngu með vinstra eyra.
    Paul Stanley hefur lengi unnið náið með stofnunum og góðgerðarsamtökum sem hvetja ungt fólk og tónlistarmenn til að gæta að heyrnarheilsu sinni og hann segist ávallt nota heyrnarhlífar til að vernda þá heyrn sem hann hefur enn og ætlar sér ekki að tapa!

Þessir og margir aðrir tónlistarmenn hafa orðið fyrir heyrnartapi eða fengið eyrnasuð af völdum mikils hávaða sem tengist atvinnu þeirra og hávaða. Saga þeirra ætti að vera víti til varnaðar og hvetja alla til að huga að heyrnarvernd, nota heyrnarhlífar í öllum tilfellum þegar hávaði fer í hættuleg mörk. Enginn vill þurfa að fórna þeim lífsgæðum sem felast í að hlusta á tónlist !

Við skorum á heyrnarskerta íslenska tónlistarmenn að gefa sig fram við okkur hjá HTÍ svo að við getum skrifað heimfærða frétt með sömu fyrirsögn!

 

janúar 2020

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands varar við eftirlitslausri heyrnartækjasölu

 

Vafasöm heyrnartæki?

Nýlega hefur borið á því að einstaklingar auglýsa stíft til aldraðra heyrnartæki til sölu. Auglýsingum hefur verið komið fyrir í sambýlum aldraðra, borið út í póstkassa á elliheimilum, dvalarheimilum og víðar.

Heyrnartækin sem bjóðast eru sögð ódýr og með 2ja ára ábyrgð. Þau eintök tækja sem Heyrnar-og talmeinastöð Íslands (HTÍ) hefur fengið að skoða eru kínversk framleiðsla og eru einfaldir hljóðmagnarar sem settir eru inn í hlustir viðkomandi. Tækin er ekki hægt að aðlaga sérstaklega að heyrnarskerðingu viðkomandi eintaklings.

Heyrnar-og Talmeinastöð Íslands varar heyrnarskerta eindregið við því að kaupa slík tæki án ráðgjafar frá fagaðilum!

Á Íslandi gilda lög og reglugerðir um sölu heyrnartækja og allir aðilar sem bjóða slík tæki þurfa skráningu Velferðarráðuneytis og lúta eftirliti Landlæknis.
HTÍ er ekki kunnugt um að þeir söluaðilar sem hér um ræðir hafi sótt um skráningu yfirvalda eða uppfylli lögbundnar kröfur um starfsemi aðila sem heimilt er að selja heyrnartæki.

Heyrnar-og talmeinastöð Íslands selur heyrnartæki frá helstu framleiðendum heyrnartækja í heiminum (s.s. Widex, Phonak, Siemens) og hefur á að skipa sérmenntuðu starfsfólki, háskólamenntuðum heyrnarfræðingum og sérfræðilæknum í heyrnarsjúkdómum.
Auk HTÍ starfa 3 viðurkenndar, einkareknar stöðvar sem hlotið hafa starfsleyfi yfirvalda til sölu heyrnartækja.

tækin umdeilduaxon2

tækin umdeildu

 

Athugasemd HTÍ: Ofangreind fréttatilkynning HTÍ hefur vakið mikla athygli (sbr t.d. frétt MBL.IS: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/01/god_lausn_eda_ologleg_starfssemi/ ) og í ljósi athugasemda frá þeim seljanda sem málið snýst um er rétt að taka fram að HTÍ selur ekki tæki sem eru tífalt dýrari. Verð á 1 heyrnartæki með niðurgreiðslu liggur á bilinu 33þús-145þús. Þá er um að ræða vönduð, stafræn heyrnartæki sem stillt eru sérstaklega fyrir hvern einstakling og mikil þjónusta fylgir.

 

Fimmtudagur 2.október: Enn bætist við umfjöllun um fréttatilkynningu HTÍ um vafasöm gæði heyrnartækja sem boðin eru til kaups. Sjá umfjöllun á vísir.is: http://www.visir.is/varar-heyrnarskerta-vid-odyrum-heyrnartaekjum/article/2014710029931
í athugasemdakerfi við fréttina gætir nokkurs misskilnings varðandi verð tækja. Sjá fyrri athugasemd hér að ofan. Ekki er rétt að bera saman verð á 20-30 ára gamalli tækni og nýjustu stafrænum heyrnartækjum. Þau tæki sem fréttin fjallar um bjóðast t.d. á vinsælli kínverskri netverslun á ca $8,00 (átta dollara eða tæpar 1000 krónur. Ath! útsöluverð til aldraðra á Íslandi tæpar 29000 krónur). Þau tæki eru sögð geta gefið hljóðstyrk í eyra >120dB sem er stórskaðlegur hávaði við viðvarandi notkun.
HTÍ ítrekar viðvörun sína um að heyrnarskertir leiti til fagaðila um fræðslu og umsögn áður en slík tæki eru keypt.

Hvernig hljómar heyrnarskerðing?

Fullheyrandi fólk á erfitt með að ímynda sér hvernig heyrnarskertir heyra.

Vefsíðan www.hear-it.org er stútull af fróðleik um margvíslegt efni sem tengist heyrn og heyrnarskerðingu.
Á vefsíðunni má meðal annars finna hljóðdæmi um það hvernig mismunandi heyrnarskerðing hljómar. Einnig eru þar dæmi um eyrnasuð (tinnitus) o.fl.

hvernig hljomar skert heyrn

Með því að kilkka á myndina hér að ofan getur þú opnað vefsíðuna í sérstökum flipa og spilað þessar hljóðskrár.

Nýjir sjónvarpsþættir um HEYRN

Heyrnin Þættir Hringbraut


Sjónvarpsstöðin HRINGBRAUT hefur framleitt nýja þætti um heyrnina, heyrnarskerðingu og starfsemi HTÍ. Þættirnir voru unnir í samvinnu við Heyrnar-og talmeinastöð Íslands og það er hinn góðkunni sjónvarpsmaður, Sigmundur Ernir, sem leiðir áhorfendur í gegnum margvíslegan fróðleik um heyrnina með viðtölum við starfsfólk HTÍ og skjólstæðinga stöðvarinnar.

Fyrri hluti þáttanna var frumsýndur þriðjudagskvöldið 28.janúar og síðan verða þeir sýndir næstu daga og vikur.
Við vekjum athygli á því að þættirnir eru textaðir svo að heyrnarskertir og heyrnarlausir geti betur fylgst með því sem rætt er.

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands þakkar Hringbraut samstarfið og einnig þeim skjólstæðingum okkar sem tóku þátt með frábærum viðtölum og spjalli.

 

janúar 2020

Vista
Vefkökur samþykki og yfirlit
Við notum vefkökur til að betrumbæta notendaupplifun vefsins. Ef þú samþykkir ekki notkun vefkaka getur það bitnað á virkni og notkun hans.
Samþykki allar
Neita öllum
Lesa skilmála
Functional
Forrit sem eru notuð til að veita þér fleiri möguleika eins og til dæmis tengingu við samfélagsmiðla.
Osano
Vefkaka sem geymir tímabundið samþykki þitt á þessari vefsíðu
Samþykkja
Neita
Analytics
Forrit sem skráir og mælir skilvirkni vefsíðunnar. Greinir notkun gesta. Við notum þessar upplýsingar til að betrumbæta upplifun notenda.
Google Analytics
Rýnir í vefumferð á vefnum svo hægt sé betrumbæta hann.
Samþykkja
Neita