HTÍ, Heyrnarhjálp og Fjóla hljóta rannsóknarstyrk Odds Ólafssonar
Úthlutun rannsóknastyrkja úr Sjóði Odds Ólafssonar
Þann 30. apríl var úthlutað styrkjum úr Sjóði Odds Ólafssonar til rannsókna á sviði fötlunar og öndunarfærasjúkdóma. Sjóðurinn er nefndur eftir Oddi Ólafssyni frumkvöðli í baráttumálum sjúklinga og öryrkja, fyrsta yfirlæknis Reykjaludnar og fyrsta formanns Öryrkjabandalags Íslands.
Að þessu sinni hlutu fimm vísindamenn og hópar styrki úr sjóðnum:
Monique van Oosten lýðheilsufræðingur hlaut styrk vegna verkefnisins „Hvernig hefur öndun áhrif á einkenni og stjórnun astmasjúkdómsins?“ Björg Þórðardóttir iðjuþjálfi vegna verkefnisins „Heimilisaðstæður fatlaðra og tengsl breytinga á þeim við aukna þátttöku innan heimilis sem utan.“ Gunnar Guðmundsson læknir vegna verkefnisins „Millivefslungnabreytingar í þýði Hjartaverndar.“ Heyrnar- og talmeinastöð Íslands vegna verkefnisins „Staða og áhrif sjón- og heyrnarskerðingar fólks á öldrunarstofnunum á Íslandi – greining á færnimati samkvæmt RAI-gagnagrunni.“ Solveig Sigurðardóttir læknir hlaut styrk vegna verkefnisins „Tíðni og útbreiðsla heilalömunar (CP) meðal 5 ára barna á Íslandi.“
Rannsókn okkar, sem er samvinnuverkefni HTÍ, Fjólu og Heyrnarhjálpar, miðar að því að vinna upplýsingar úr gagnagrunni sem þegar liggur fyrir og nær yfir alla færniþætti aldraðra sem leggjast á stofnanir hérlendis. Skoðaðir verða 2 kaflar sem lúta að sjón og heyrn vistmanna á öldrunar- og hjúkrunarheimilum um land allt. Aðstandendur rannsóknarinnar reikna með að mikilvægar upplýsingar fáist um ástand sjónar og heyrnar þessa stóra hóps en fötlun af völdum sjón-og heyrnarskerðingar er oft stórlega vanmetin.
Guðríður Ólafs Ólafíudóttir stjórnarmaður í sjóði Odds Ólafssonar, Guðný Katrín Einarsdóttir fulltrúi Fjólu félags um samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, Ellen Calmon formaður ÖBÍ, Gunnar Guðmundsson lungnalæknir, Guðmundur Löve framkvæmdastjóri SÍBS formaður stjórnar Sjóðs Odds Ólafssonar, Kristján Sverrisson forstjóri HTÍ, Björg Kofoed-Hansen og Þórður Jónsson fulltrúar Bjargar Þórðardóttur, Vífill Oddsson stjórnarmaður í sjóði Odds Ólafssonar, Sigurður Jóhannesson fulltrúi Solveigar Sigurðardóttur og Monique van Oosten.