Skip to main content

Foreldramiðuð snemmtæk íhlutun talmeinafræðinga

Evrópudagur talþjálfunar 6. mars þjónusta talmeinafræðinga á öllum æviskeiðum

Máltökuskeiðið er sá tími sem börn tileinka sér móðurmálið sitt. Fyrstu árin skipta sköpum en á þeim tíma eru þau móttækilegust að nema málið. Máltakan hefst í raun í móðurkviði og hafa börn frá fæðingu meðfæddan hæfileika til að veita röddum og andlitum í kringum sig athygli. Þau eru stillt inn á að nema það mál sem þau heyra í sínu nánasta umhverfi.

Ung börn tileinka sér málið á mismunandi hraða en teljast með dæmigerðan málþroska þegar þau fylgja tilteknum þroskavörðum í máltökunni. Dæmigerðar þroskavörður í máli við 18 mánaða aldurinn eru m.a. að benda á helstu líkamshluta, skilja einfaldar athafnir og einföld fyrirmæli án bendinga og látbragðs. Átján mánaða gömul börn segja allt frá 10 orðum upp í 90 orð en mikill einstaklingsmunur getur verið á þessum aldri. Þau geta hermt eftir dýrahljóðum og eru byrjuð að tengja saman orð eins og „meira nammi“ eða „pabbi koma“.

Málþroski er samtvinnaður vitsmuna- og félagsþroska og mikilvæg undirstaða fyrir námsfærni seinna þ.á.m. lestrarfærni og lesskilning. Málþroski er hluti af almennum þroska barna og seinkun í málþroska getur bent til frávika í þroska og heilsu barnsins.

Mikilvægt er að fylgjast með framvindu í máli og bregðast við með viðeigandi úrræðum þegar börn víkja frá dæmigerðum málþroska. Ung börn með frávik í máli geta átt erfitt með að:

  • hlusta á aðra og halda athygli
  • tengjast öðru fólki
  • skilja það sem sagt er við þau
  • læra og nota ný orð
  • tengja tvö orð eða fleiri saman í setningar

Ung- og smábarnavernd heilsugæslunnar hefur það hlutverk að fylgjast reglulega með heilsu og framvindu í þroska barna. Þannig er fylgst með vitsmuna- og tilfinningaþroska, ásamt félagslegum og líkamlegum þroska frá fæðingu til sex ára aldurs.

Heyrnar- og talmeinastöð hefur síðastliðin ár unnið í samstarfi við hjúkrunafræðinga og lækna sem sinna ungbarnaeftirliti með það að markmiði að fylgja þeim 18 mánaða gömlu börnum eftir sem þurfa nánari athugun á málþroska. Ef börn sýna merki um seinkaðan málþroska eða foreldrar hafa áhyggjur við 18 mánaða skoðun á heilsugæslu, vísar hjúkrunarfræðingur til frekari athugunar talmeinafræðings á HTÍ. Á tímabilinu febrúar 2020 til maí 2021 var 128 börnum vísað og af þeim hópi reyndust 38% vera með alvarleg frávik í málþroska og féllu undir viðmið Sjúkratrygginga Íslands um niðurgreiðslu til talþjálfunar. Var þeim börnum vísað á stofur sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga. Biðtími eftir talþjálfun er núna allt að þrjú ár. Að auki voru önnur 40% sem sýndu merki um seinkaðan málþroska sem fylgjast þurfti með.

Í kjölfar tilvísunar bjóða talmeinafræðingar stöðvarinnar upp á foreldramiðaða snemmtæka íhlutun. Börnunum er flestum vísað í heyrnarmælingu samhliða athugun á málþroska. Foreldramiðuð snemmtæk íhlutun felur í sér athugun á málþroska, samtal við foreldra og ráðgjöf um aðferðir í málörvun. Ráðgjöfin felur í sér fræðslu um máltöku og leiðbeiningar um hvernig foreldrar geta skapað ríkt málumhverfi og nýtt tækifærin sem gefast í daglegum samskiptum til að efla málfærni barnsins. Unnið er út frá styrkleikum foreldra og barnsins þar sem útgangspunkturinn er nánasta umhverfi. Barninu er fylgt eftir og vísað í frekari fagleg úrræði í samvinnu við heilsugæsluna og/eða leikskólann ef þörf er á því. Markmið þjónustunnar er að hafa áhrif á þroskaframvindu barnsins með markvissum gagnreyndum aðferðum eins snemma og unnt er á lífsleiðinni.

Ein af helstu breytingum á snemmtækri íhlutun undanfarna tvo áratugi er aukin áhersla á það sem nefna má heildræna fjölskyldunálgun út frá kenningum Bronfrenbrenners (Bronfrenbrenner, 1979). Sýnt hefur verið fram á með fjölmörgum rannsóknum að árangur af snemmtækri íhlutun er að verulegu leyti háður þátttöku foreldra í íhlutun fyrir börn með þroskafrávik og þeim stuðningi sem foreldrum er veittur, beint og óbeint, við umönnun og uppeldi barna sinna.

Foreldrar bera mikla ábyrgð á að skapa gott málumhverfi fyrir barnið sitt í gegnum daglega rútínu. Öflug málörvun er gríðarlega mikilvæg á máltökuskeiðinu og ætti að vera helsta forgangsverkefni allra foreldra ungra barna. Góð málörvun foreldra veitir barninu dýrmætt veganesti til framtíðar.

Grein þessi birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 5. mars 2022 í tilefni af Evrópudegi talþjálfunar //  Eftir Kristínu Theódóru Þórarinsdóttur, Hrafnhildi Halldórsdóttur og Önnu Ósk Sigurðardóttur. Höfundar eru talmeinafræðingar á Heyrnar – og talmeinastöð ÍslandsHöfundar greinar

 

Vista
Vefkökur samþykki og yfirlit
Við notum vefkökur til að betrumbæta notendaupplifun vefsins. Ef þú samþykkir ekki notkun vefkaka getur það bitnað á virkni og notkun hans.
Samþykki allar
Neita öllum
Lesa skilmála
Functional
Forrit sem eru notuð til að veita þér fleiri möguleika eins og til dæmis tengingu við samfélagsmiðla.
Osano
Vefkaka sem geymir tímabundið samþykki þitt á þessari vefsíðu
Samþykkja
Neita
Analytics
Forrit sem skráir og mælir skilvirkni vefsíðunnar. Greinir notkun gesta. Við notum þessar upplýsingar til að betrumbæta upplifun notenda.
Google Analytics
Rýnir í vefumferð á vefnum svo hægt sé betrumbæta hann.
Samþykkja
Neita