Fyrirspurn á Alþingi um biðlista HTÍ
Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, lagði á dögunum fram óundirbúna fyrirspurn til heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, er laut að löngum biðlistum hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.
Með því að klikka á myndina sem fylgir fréttinni má sjá upptökur af fyrirspurninni og svörum ráðherra.
Af þessu tilefni vill HTÍ útskýra frekar stöðu mála hvað biðlista varðar:
Eftirspurn eftir þjónustu eykst hratt
Eftirsókn eftir þjónustu HTÍ hefur vaxið stöðugt undanfarin ár. Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart þar sem Íslendingum fjölgar og hlutfall eldri borgara vex hröðum skrefum. Heyrnarskerðing eykst með aldri og því hefur eftirspurn eftir heyrnarbætandi aðgerðum og tækjum vaxið mikið.
Uppúr síðustu aldamótum voru biðlistar eftir heyrnartækjum orðnir mjög langir og þá var HTÍ eina stofnunin á landinu sem annaðist útvegun heyrnartækja hér á landi. Þá voru biðlistar allt að 9 mánuðir sem þótti afleitt. Með því að leyfa einkareknum fyrirtækjum að koma inn á þennan markað með nýrri löggjöf árið 2006 skánaði ástandið nokkuð, a.m.k. tímabundið. Síðustu árin hafa þannig starfað 3 einkareknir söluaðilar heyrnartækja (Heyrn, Heyrnarstöðin og Heyrnartækni). Eftir sem áður sinnir HTÍ öllum börnum (forgangshópur) og fólki með erfiðari og flóknari heyrnarskerðingar eða heyrnarleysi.
Þrátt fyrir innkomu þessara nýju aðila á markaðinn er svo komið að eftirspurn er ekki mætt. Einkarekin fyrirtæki auglýsa þjónustu sína og vörumerki töluvert og slíkt markaðsstarf, til viðbótar við almennt aukna þekkingu og meðvitund fólks um mikilvægi þess að viðhalda góðri heyrnarheilsu, kallar á aukna eftirspurn.
Bið eftir fyrstu heyrnarmælingu barna og fullorðinna er mjög stutt og börn að 18 ára aldri eiga aldrei að þurfa að upplifa bið eftir þjónustu. En þegar kemur að mælingum og ráðgjöf varðandi heyrnartæki fullorðinna þá er staðan orðin sú að það getur tekið 7-8 mánuði að komast að hjá okkur og fá ný heyrnartæki eða heyrnartæki endurnýjuð. Þetta er ótækt og aðgerða er þörf til að bæta úr þessu.
Skortur á menntuðu fagfólki í heyrnarfræði
Ráðherra nefndi eitt mikilvægt atriði í svari sínu en það er skortur á heyrnarfræðingum hér á landi. Heyrnarfræði er ekki kennd við íslenska háskóla og kröfur um menntun heyrnarfræðinga sem fengið geta starfsleyfi á Íslandi (sbr nýlega reglugerð um heyrnarfræðinga sem löggilda heilbrigðisstarfsmenn) eru nú slíkar að einungis fáir fullmenntaðir heyrnarfræðingar starfa hér á landi (og nær allir hjá HTÍ) og enginn Íslendingur er að stunda slíkt háskólanám, að því er HTÍ er kunnugt um. Þetta hefur gert það að verkum að HTÍ hefur þurft að leita til erlendra heyrnarfræðinga síðustu árin til að fylla upp í þær stöður sem stofnunin hefur. Starfsaldur sumra starfsmanna HTÍ er 30-40 ár og því ljóst að endurnýjunar er þörf auk þess sem stöðin þarf að geta fyllt í skörð þegar fólk veikist eða fer í barneignafrí o.s.frv. Síðustu árin hafa starfað hér nýútskrifaðir heyrnarfræðingar frá Svíþjóð og Noregi, afar hæft fólk sem hefur lagt á sig að læra íslensku þó að það geti gengið misvel fyrir sig.
Heilbrigðisyfirvöld hafa heldur ekki brugðist við þessari fyrirsjáanlegu aukningu í eftirspurn. Heyrnar-og talmeinastöð Íslands hefur ekki fengið nein viðbótarstöðugildi síðustu 26 árin eða síðan að stöðugildum var fjölgað úr 19 í 20 árið 1992 ! (reyndar voru stöðugildi færð niður í kjölfar hrunsins og aðeins komist í fyrra horf frá 2015). Á hverju ári er óskað eftir úrbótum en niðurstaðan er ávallt sú sama: Ekkert viðbótarfé, engar viðbótarstöður og helst vilja heilbrigðisyfirvöld leggja þessa stofnun niður því að yfirvöldum er mikið í mun að fækka fámennum ríkisstofnunum ! Samtök heyrnarskertra, Heyrnarhjálp, og fleiri hafa lengi kallað eftir stefnu heilbrigðisyfirvalda í málefnum heyrnarskertra en fátt verið um svör. Og á meðan lengjast biðlistar og þjónustan versnar.
Skortur á mannafla og aðstöðu en fjölgun verkefna
HTÍ hefur verið staðsett í sama húsnæði á Háaileitisbraut 1 allar götur síðan að stofnunin tók formlega til starfa árið 1979. Húsnæðið er löngu sprungið og alls ekki boðlegt fyrir nútíma heilbrigðisstofnun. Heyrnarmælaklefar eru of fáir og aðstaða starfsmanna í engu samræmi við kröfur um búnað heyrnarstöðvar á því herrans ári 2018 (né heldur síðustu 30 ára).
Stofnunin er einnig á hrakhólum með húsnæði á Akureyri þar sem aðstaðan er lítil forstofa fyrir utan heyrnarmæliklefa á heilsugæslustöðinni í Hafnarstræti.
Árið 2015 keypti stöðin ferðastöð sem fer um helstu þéttbýlissvæði úti á landi vor og haust til að reyna að þjónusta landsbyggðina enda ber HTÍ að þjóna öllu landinu. Höfum við átt gott samstarf við heilbrigðisstofnanir úti á landi hvað það varðar og geysimikil ánægja viðskiptavina úti á landi með þessa auknu þjónustu. Þá ferðast starfsfólk HTÍ um landið til að skima fyrir heyrn nýbura en stöðin reynir að ná til allra barna sem fæðast á landinu. Greining á fyrstu mánuðum er forsenda þess að snemmbær íhlutun geti átt sér stað.
Með framförum í læknisfræði og aukinni tækni hafa bæst við ný verkefni hjá stöðinni sem reynt er að sinna eftir fremsta megni. Kuðungsígræðslur (ígrædd heyrnartækni fyrir þá sem fæðast heyrnarlausir eða missa heyrn vegna sjúkdóma eða slysa) hafa færst í vöxt hér á landi og nú hafa rúmlega 100 manns hlotið slíkar aðgerðir. Mikil vinna fer í undirbúning, aðgerðir og endurhæfingu slíkra sjúklinga.
Mikið skortir á að HTÍ geti sinnt fræðslu- og þjálfunarhlutverki sínu til aðstandenda og umönnunarstétta. Ástand í meðferð heyrnarskerðingar aldraðra á hjúkrunar-og dvalaheimilum um land allt er langt frá því fullnægjandi en stofnunin hefur ekki mannafla eða fjármagn til að sinna þeim þætti sem skyldi.
Á sínum tíma útvegaði HTÍ heyrnarmæliklefa og heyrnarmæla í velflestar heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni en víðast hvar er sá búnaður lítið notaður enda umönnun heyrnarskertra nánast úthýst úr heilsugæslunni fyrir löngu og skimun á heyrn skólabarna var einnig hætt í sparnaðarskyni fyrir mörgum árum, þvert ofan í tilmæli HTÍ. Í dag er búnaður þessi helst notaður af einkafyrirtækjum sem nýta aðstöðu á heilbrigðisstofnunum og í einhverjum tilfellum án endurgjalds.
Skortur á fjármagni og stöðugildum stendur í vegi framþróunar
Almennt hefur stofnunin haldið uppi góðri faglegri þjónustu og viðskiptavinir ítrekað lýst yfir ánægju með þjónustu HTÍ. Starfsfólk hefur unnið óeigingjarnt starf og bætt á sig álagi til að mæta kröfum um aukin afköst. Hins vegar er búið að hagræða eins og mögulegt er og ekki með neinu móti hægt að kreista meiri afköst út úr starfsfólki. Starfsmönnum HTÍ hefur ítrekað verið lofað bjartari framtíð og bættri aðstöðu í gegnum tíðina. Þannig hefur a.m.k. í þrígang farið af stað sameiningarferli við hinar ýmsu stofnanir en ávallt runnið út í sandinn, síðast árið 2016 þegar ljóst varð að þær stofnanir sem sameina átti HTÍ höfðu skyndilega engan áhuga á slíku þó að unnið hefði verið að sameiningu í rúmt ár og lög um sameinaða stofnun væri tilbúin og komin í kynningu fyrir Alþingi.
HTÍ hóf á þessu ári, í samvinnu við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, tilraun með fjarþjónustubúnað sem gerir heyrnarráðgjöfum á heyrnarsviði færi á að afgreiða heyrnartækjanotendur úti á landi í gegnum internetið. Tilraunin lofar góðu og ef að niðurstöður verða jákvæðar mun HTÍ reyna að fjármagna uppsetningu slíks búnaðar á nokkrum stöðum á landinu sem eru fjarri afgreiðslustöðum okkar svo að hægt sé að stilla heyrnartæki og hitta notendur í aðstoðartímum á netfundum á viðkomandi stöðum. Þannig munu sérfræðingar okkar í Reykjavík geta sinnt fólki úti á landi í auknum mæli.
En til þess að geta veitt fullnægjandi þjónustu til jafns við nágrannaþjóðir okkar er nauðsynlegt að Heyrnar-og talmeinastöð Íslands sé veitt svigrúm til að vaxa og dafna í takt við þörf fyrir þjónustuna og framfarir á sínu sviði.
október 2018