Skip to main content

Fréttir

Heyrnarskert ungt fólk - Hvað er í boði?

Fólk getur greinst með heyrnarskerðingu á öllum aldri, allt frá fæðingu til efri ára. Heyrnarskerðingu má flokka gróft í þrjá flokka, væga, meðal og alvarlega skerðingu en slík flokkun segir þó ekki alla söguna. Heyrnarskerðing versnar oftast með árunum en mjög mishratt og mismikið. Alltaf er heyrnarskerðing hamlandi í greiningu á töluðu máli en mismikið þó eftir aðstæðum. Tiltölulega væg heyrnarskerðing getur valdið einum miklum vanda en ekki öðrum. Þar getur skipt máli t.d. í hvernig starfi manneskjan er, hljóðvist í daglegu umhverfi, félagslegar aðstæður og/eða námslegar.

Afar mikilvægt er að tryggja eins og kostur er að börn nái rétt öllu því sem sagt er. Börn hafa fábreyttari orðaforða en fullorðnir en eru jafnframt stöðugt að heyra eitthvað nýtt. Þau eru líka alla jafna í hópum sem skapar klið en umhverfiskliður gerir heyrnarskertum erfiðara fyrir að greina tal. Lífsreynsla og ríkur orðaforði hjálpar heyrnarskertu fólki við að geta í eyðurnar þar sem heyrnin dugar ekki til.

 

Fólk sem greinist ungt eða á skólaaldri er oft í talsverðum vanda. Heyrnarskerðing sést ekki utan á fólki og því vill það oft gleymast að þetta fólk heyrir illa. Í skóla er það grundvallaratriði að kennarar viti af heyrnarskerðingunni og hafi hana alltaf í huga. Því er nauðsynlegt að starfsfólk skóla og bekkjarfélagar séu vel upplýstir og meðvitaðir um heyrnarskerðingu viðkomandi nemanda. Einnig getur skipt sköpum á vinnustað að samstarfsfólk fái upplýsingar og taki þær til sín. Þar getur ýmislegt verið í boði sem hér skal tilgreina:

Glósuhjálp er víða notuð. Þá tengist heyrnarskerti nemandinn einum eða tveimur góðum nemendum í hópnum og þau sammælast um – oft með aðstoð kennara – að glósararnir láti heyrnarskertum félaga sínum glósur sínar í té. Slíkt er auðvelt í dag eftir rafrænum leiðum. Þannig er betur tryggt að nemandinn fái efnið rétt og án mikilla eyða.

 

Búnaður fyrir kennslustofur:
Kennari með hljóðnema sem sendir hljóð bæði í heyrnartæki heyrnarskerts nemanda og í hátalara-súlu

sem gagnast öllum bekknum. Lausn sem auðvelda heyrnarskertum nemendum lífið og sparar rödd kennarans.

 

 

 

 

 

 

 

 

Tæknibúnaður s.s. hátalarakerfi ýmiss konar og FM kerfi eru í boði af ýmsu tagi. Hátalarakerfi er notað sums staðar í kennslustofum og kemur öllum þar til góða. FM kerfi gagnast þeim sem eru með heyrnartæki og móttakara sem tekur við boðum frá sendi/hljóðnema sem kennarinn er með. Einnig getur sami sendir/hljóðnemi verið á borði þar sem unnið er í litlum hópum og nemur hann þá raddir allra við borðið og sendir í tæki heyrnartækjanotandans. Svona búnaður gagnast ekki bara í skólastofum heldur líka víða í atvinnulífinu og innan fjölskyldna. Eitt dæmi um slíkan búnað er Roger kerfi frá Phonak heyrnartækjaframleiðandanum. Á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er boðið upp á fræðslu fyrir fjölskyldur og umönnunaraðila heyrnarskerts fólks um heyrnarskerðingu, hvaða afleiðingar hún hefur og hvað fjölskyldan öll getur gert til að auðvelda samskiptin.

 

 

 

 

 

 

 

 

Hljóðnemar á borði grípa raddir mælenda og útvarpa í heyrnartæki þess heyrnarskerta.

 

 

 

 

 

Snjallsíminn er mikið hjálpartæki fyrir heyrnarskerta með öllum sínum möguleikum til að bæði senda mynd- og textaskilaboð og tala með því að sjá andlit en sjónin er heyrnarskertum líka mikilvægt hjálpartæki.

Hægt er að panta tíma hjá heyrnarfræðingum og læknum HTÍ til að fá fræðslu um sína heyrnarskerðingu og hvað er í boði ef / þegar skerðingin versnar. Hafið samband í síma 581 3855 eða með tölvupósti til:  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Mikilvægt er að fá að vita að þó að heyrnin fari að mestu þá þarf það ekki að þýða heyrnarleysi og líf í þögn. Þvert á móti er í boði hjálp, kuðungsígræðsla, tækni sem þróast hefur síðustu áratugina og gerir nú kleift að endurskapa heyrn í mörgum tilfellum.
Kuðungsígræðsla er, ólíkt heyrnartækjum, tæki sem örvar heyrnartaugina beint í stað þess að magna upp náttúrulegar hljóðbylgjur. Þegar virkni taugaenda í kuðungnum er orðin mjög lítil skiptir engu máli hversu mikið hljóðbylgjur eru magnaðar, boðin berast þá ekki frá umhverfinu til heyrnartaugarinnar og þar af leiðandi ekki til heilans sem túlkar upplýsingarnar. Forsenda þess að geta fengið og nýtt sér kuðungsígræðslu hjá öðrum en nýburum er að viðkomandi hafi nýtt heyrn sína áður og sé með heyrnarminni. Þessi tækni gagnast mjög mörgum til að fá ágæta heyrn og nú þegar hafa liðlega 110 manns farið í slíka aðgerð á Íslandi.

Kuðungsígræðsla: Ef fólk missir heyrn alveg er mögulegt að tengja framhjá heyrnarbrautinni
og örva
heyrnartaugina beint með rafskautum sem þrædd eru í kuðung innra eyrans.

 

Táknmál er ein leið til tjáskipta fyrir þá sem missa heyrn en ekki er nóg að hinn heyrnarskerti fari einn að læra táknmál, öll fjölskyldan og nærumhverfið þarf að læra það einnig til að málið nýtist til samskipta. Það eru ekki margir sem tala táknmál en íslenskt táknmál og íslenska eru þau tvö mál sem töluð eru í landinu. Til að fjölga táknmálstalandi fólki þurfa fleiri að læra það. Og auðvitað er hægt að læra táknmál þó að maður heyri!      

 

Höfundar: Bryndís Guðmundsdóttir heyrnarráðgjafi hjá HTÍ og Eva Albrechtsen læknir á HTÍ.

 

Save
Cookies user preferences
We use cookies to ensure you to get the best experience on our website. If you decline the use of cookies, this website may not function as expected.
Accept all
Decline all
Read more
Functional
Tools used to give you more features when navigating on the website, this can include social sharing.
Osano
Vefkaka sem geymir tímabundið samþykki þitt á þessari vefsíðu
Accept
Decline
Analytics
Tools used to analyze the data to measure the effectiveness of a website and to understand how it works.
Google Analytics
Rýnir í vefumferð á vefnum svo hægt sé betrumbæta hann.
Accept
Decline