Skip to main content

Dagur Heyrnar - Um mikilvægi nýbura-heyrnarskimunar

Dagur Heyrnar 2021 m greinumí tilefni af Degi heyrnar, þann 3/3

Nýburamælingar á heyrn bjóðast öllum nýfæddum börnum á Íslandi og er samvinnuverkefni Heyrnar-og talmeinstöðvar Íslands (HTÍ) og Barnaspítala Hringsins (BSH), fæðingardeildar á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAK), Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) á Selfossi og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) í Keflavík. Mælingin fer fram þegar börn koma í 5 daga skoðun á fyrrgreindum stöðum. Þeim börnum sem ekki koma í 5 daga skoðun fylgir HTÍ eftir og eins fara börn sem ekki standast nýburaskimun í frekari uppvinnslu og eftirfylgd á HTÍ.

Á hverju ári fæðast 1-2 börn á hver 1000 fædd börn með einhverja tegund af heyrnarskerðingu. Við upphaf grunnskólagöngu er fjöldinn um 3-4 börn á hver 1000 börn og í aldurshópnum 15-18 ára, 5 af hverjum 1000 börnum. Heyrnarskerðing á öðru eyranu eða væg heyrnarskerðing á báðum eyrum eru helstu ástæður fyrir fjölgun milli aldurshópa.

Forsenda málþroska og málskilnings barns er góð heyrn og heyrnarminni heilans. Heyrnin er eitt þeirra skynfæra sem móta barnið, atferli þess og persónuleika. Með heyrninni læra börn málið og notkun þess en einnig að skynja blæbrigði máls.
Á 25. viku meðgöngu er fóstur með fullþroskuð heyrnarlíffæri og getur heyrt. Barn sem fæðist með heyrnarskerðingu er því strax við fæðingu á eftir sínum jafnöldrum í þroska á heyrnarhluta heilans. Öflugasta tímabil í þroska heilans er á fyrstu tveimur aldursárum barns og er því gríðarlega mikilvægt að endurhæfing hefjist sem fyrst eftir greiningu. Fyrir tíma heyrnarskimunar var greiningaraldur mikið heyrnarskertra barna milli 12 og 18 mánaða en börn með miðlungsalvarlegar heyrnarskerðingar upp úr 2-3 ára aldri eða jafnvel seinna. Það er óviðunandi hár greiningaraldur.

Skimun á heyrn við fæðingu með núverandi tækni hófst á Íslandi 2007 á Barnaspítala Hringsins, skömmu síðar á SAK og 2019 á HSU og HSS.
Í dag er foreldrum barna sem fæðast með alvarlega heyrnarskerðingu beggja vegna boðin kuðungsígræðsluaðgerð fyrir barnið. Kuðungsígræðsla er tækni sem gefur heyrnarlausum börnum möguleika á að heyra hljóð og læra talmál til jafns við sína jafnaldra. Forsenda þess að sá þroski verði, er að heyrnarlaust barn greinist sem fyrst eftir fæðingu og fái kuðungsígræðslu fyrir eins árs aldur. Einnig, þegar um er að ræða minna alvarlegar heyrnarskerðingar, er endurhæfing með hefðbundnum heyrnartækjum fyrir 6 mánaðar aldur mjög mikilvæg fyrir málþroskann.

Þrátt fyrir að barn standist heyrnarskimun við fæðingu geta ættgengar og áunnar heyrnarskerðingar komið fram hvenær sem er á lífsleiðinni. Í ung-og smábarnavernd á heilsugæslustöðvum landsins er börnum fylgt eftir fram að grunnskólaaldri. Málþroskapróf eru lögð fyrir börn með reglulegum millibilum en skimun á heyrn hjá börnum á forskóla og grunnskólaaldri var afnumin hérlendis árið 2012, sem er miður. En eins og fram kom hér að framan eykst nýgengi heyrnarskerðingar úr 1-2/1000 við fæðingu upp í 5/1000 fyrir 18 ára aldur og þó sú fjölgun sé að mestu vegna vægrar heyrnarskerðingar getur það samt sem áður haft afgerandi áhrif á málþroska, námsgetu og félagslegan þroska barns. Heyrnarmælingar eru einfaldar í framkvæmd og mikilvægt er að barni sé vísað í heyrnarmælingu, sérstaklega ef foreldrar hafa áhyggjur af heyrn barns, ef um seinkun á málþroska barns er að ræða eða barn sýnir merki um skerta athygli.  

Höfundur:  Eva Albrechtsen, Sérfræðilæknir, Heyrnar-og talmeinastöð Íslands

Eva Albrechtsen

Dagur Heyrnar - Við heyrum með heilanum


Við heyrum með heilanum – eyrun eru einungisaðgangur að hljóðheiminum !

Alþjóðlegur dagur heyrnar er 3. mars – dagurinner haldinn hátíðlegur víðsvegar um heim til að vekja athygli á mikilvægigóðrar heyrnar og áhrifum heyrnarskerðingar á lífsgæði fólks.
Með deginum ereinnig ætlað aðauka meðvitund á neikvæðumáhrifum hávaða á heyrn ogtil aðhvetja fólk til þessaað mæla heyrn ef grunur vaknar um heyrnarskerðingu.

Góð heyrn er mikilvæg svo máltaka barna geti þróast á dæmigerðan hátt. Við heyrum í raun með heilanum og eru eyrun einungis aðgangur hljóðrænna upplýsinga til heilans. Hljóðaörvun þroskar heyrnrænar taugatengingar sem er forsenda þess að tal og mál þroskist eðlilega. Að efla hlustunarþroskafelst í því aðhvetjabarn til aðveitahljóðum og röddum áhuga ogöðlast þannig færni í að greina á milli þeirra hljóða og radda sem þheyrir. Ungabörn byrja fljótt að greina á milli hljóða og beina athygli sinni að þeim hljóðum sem eru í móðurmálinu og stilla sig inn á þau. Þessi hljóðgreining hjálpar þeim að greina tal og læra ný orð. Hlustunarþroski er grunnur fyrir málþroska barna.Börn tileinka sérmálið í gegnumríkt málumhverfisem eflirsmá saman færni þeirra ímóðurmáli sínu.Þeim er ekki kenntmáliðheldur læra þau það ómeðvitað með því að eiga í merkingabærumsamskiptumog hlusta á samskipti annarra, þau læra þaðbæðibeint og útundan sér. Þau efla einnig félagfærni með því að hlusta.
Mikilvægt er að hlúa að góðum skilyrðum til máltöku og hlustunar. Þegar aðgangur að heyrn er takmarkaður vegna langvarandi heyrnarskerðingar þá getur það haft áhrif á málgetu.
Gæta þarf að góðri hljóðvist og samskiptum við börn með heyrnarskerðingu og þá sérstaklega í skólakerfinu

Nýburamælingar á  heyrn eru því afar mikilvægur þáttur í að skima fyrir heyrnarskerðingu svo hægt sé aðbjóða viðeigandi þjónustuog veitabörnum með heyrnarskerðingutækifæri til að nema mál til jafns við önnur börn. 

Höfundur: Kristín Th. Þórarinsdóttir, talmeinafræðingur á Heyrnar – og talmeinastöð Íslands.

Kristin talmfr

 

Dagur Heyrnar 2021 - Heyrnarheilsa fyrir alla!

Dagur Heyrnar 2021 m greinum
3. mars er Alþjóðadagur heyrnar, dagur sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin tileinkar heyrn. Í ár er dagurinn tileinkaður heyrnarheilsu fyrir alla. Þá mun fyrsta alþjóðlega skýrsla um heyrn verða birt en tilgangur hennar er að hvetja stjórnvöld í hverju landi til að móta stefnu innan heilbrigðiskerfisins um heyrnarheilsu.

Góð samskipti eru mikilvæg á öllum stigum ævinnar, þar getur heyrnarheilsa haft mikil áhrif. Ýmsar ástæður eru fyrir heyrnarskerðingu og sumar þeirra er hægt að fyrirbyggja með góðri heilbrigðisþjónustu og fræðslu. Í því samhengi má nefna bólusetningar fyrir sýkingum eins og hettusótt, mislingum, rauðum hundum o.fl, fræðslu um skaðsemi hávaða í umhverfi okkar, hávaðavarnir og hvernig ber að forðast heyrnarskemmandi hávaða.
Aðrar ástæður heyrnarskerðingar er erfiðara að fyrirbyggja og eru arfgengar heyrnarskerðingar stærsti hluti þeirra. Mikilvægt er að hafa heyrnarheilsu í huga allt lífshlaupið, við þurfum að kenna börnum okkar frá unga aldri hversu mikilvæg heyrnin er og hvernig á að passa upp á hana og vera meðvituð um ábyrgð okkar á eigin heyrnarheilsu.

Hávaði í umhverfi okkar er svo algengur að margir eru hættir að taka eftir honum og þeim áhrifum sem hann getur haft á líðan og heilsu. Hávaðinn getur leitt til hægt vaxandi heyrnarskerðingar sem einstaklingurinn verður ekki var við í fyrstu. Styrkur hljóðsins sem fer til eyrans hefur mest að segja um þær skemmdir sem geta orðið en einnig sá tími sem dvalið er í of miklum hávaða. Næmni innra eyrans fyrir hávaða er mismikil á milli einstaklinga, og getur þannig leitt til að þeir tapi ekki jafnmikilli heyrn þrátt fyrir að dvelja jafnlengi í sama umhverfi. Heyrnartap af völdum hávaða getur komið fyrir á öllum aldri, því fylgir oft eyrnasuð sem mörgum reynist jafnvel erfiðara að sætta sig við en heyrnartapið og skerta talgreiningu. Heyrnartap af völdum hávaða er óafturkræft en við hávaða verður skemmd á hárfrumum í kuðungi innra eyrans og þær frumur endurnýja sig ekki. Ennþá er ekki til aðferð til að lækna þennan skaða s.s. með lyfjum. Vonandi verður það hægt í framtíðinni en þangað til eru það fyrirbyggjandi aðgerðir sem gilda. Umhverfishávaði getur haft margvísleg áhrif á heilsu okkar og má þar nefna áhrif á svefn, erfiðleika við að sofna, truflun á djúpsvefni og að hrökkva upp af svefni. Streituáhrif hávaða geta komið fram í aukningu streituhormóna í blóði, hækkun blóðþrýstings, truflun á athygli og minnkaðri framsetningar- og einbeitingarhæfni. Það er því til mikils að vinna að draga úr hávaða í okkar daglega lífi.

Börn eru einnig útsett fyrir hávaða og þurfum við sem eldri erum að standa okkur betur í að huga að andlegri og líkamlegri heilsu barna sem dvelja í hávaða. Vaxtarskeiðið er viðkvæmur tími, heyrn er að þroskast og börnin skilja ekki alltaf þá hættu sem hávaði er. Þau hafa síður stjórn á umhverfi sínu og hegðun þeirra gerir þau oft meira útsett fyrir hávaða og afleiðingum hans. Börn eru í áhættuhópi vegna vanhæfni til að meta aðstæður og verja sig.

Margir hljóðgjafar eins og símar og önnur snjalltæki sem börn og unglingar hlusta á geta gefið frá sér hljóðstyrk sem getur verið heyrnarskemmandi. Foreldrar og aðrir fullorðnir eru mikilvægar fyrirmyndir barna. Þú getur verið góð fyrirmynd fyrir heilbrigða heyrnarheilsu með því að leiðbeina barni hvernig á að umgangast hljóð og njóta t.d. fuglasöngs og annarra hljóða í náttúrinni, tónlistar sem flutt er innan öruggs tónstyrks og ef styrkurinn er of mikill að nota heyrnarhlífar eða færa sig frá hljóðgjafanum. Upplýsum þau um hverjar afleiðingar það getur haft fyrir heyrnina þegar dvalið er í of miklum hávaða. Heyrnarskerðing af völdum hávaða hjá börnum getur haft áhrif á málþroska, námshæfni, kvíða og hegðun. Að vera útsettur fyrir miklum hávaða sem barn og unglingur getur síðar á ævinni leitt til heyrnarskerðingar sem m.a. getur átt þátt í minni félagslegum samskiptum, einangrun og andlegri færni.

Talið er að 50% þeirra sem hlusta á tónlist í gegn um heyrnartól noti hljóðstyrk sem getur verið heyrnarskemmandi. 5–10 % hlustenda er talinn líklegur til að þróa með sér heyrnarskerðingu vegna hlustunar gegn um persónuleg heyrnartól.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Alþjóða fjarskiptasambandið (ITU) sameinuðust árið 2019 um gerð staðals og leiðbeininga, WHO-ITU H.87, fyrir örugga hlustun frá persónulegum hljóðgjöfum (tækjum) með það að markmiði að koma í veg fyrir heyrnarskemmdir af völdum hávaða. Ráðlagt hámark er að fara ekki yfir 80 dB í 40 klst á viku fyrir fullorðna og 75 dB í 40 klst á viku fyrir börn. Til að fá upplýsingar um notkun þarf tækið að geta mælt á hvaða styrk og hversu lengi er hlustað á tækið, einnig er ráðlagt að foreldrar geti sett inn í tækið hámarksstyrk sem börnin mega hlusta á. Leiðbeiningarnar má finna á veg Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar

Verum samtaka um að minnka hljóðmengun í umhverfi okkar og stuðlum þannig að meiri lífsgæðum og betri heyrnarheilsu fyrir alla.

#WorldHearingDay

#safelistening

#hearingcare

#hearathon2021

Höfundur:: Ingibjörg Hinriksdóttir, yfirlæknir Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands

 

 

Heyrnarskerðing

Heyrnarskerðing á sér oftast stað á löngu tímabili. Í byrjun reynist æ erfiðara að heyra lág hljóð sem og hljóð í umhverfi þar sem umhverfishljóð eru mikil. Það að greina talað mál getur einnig orðið erfitt. Viðkomandi heyrir en á í erfiðleikum með að greina það sem sagt er.

Heyrnarskerðing getur leitt af sér einangrun vegna þess að sá heyrnarskerti fer að forðast umhverfi og aðstæður þar sem hann á erfitt með að heyra. Heyrnarskerðingu er sjaldnast hægt að lækna en heyrnartæki geta komið að verulegu gagni og létt viðkomanda lífið.

Áreiðanlegar tölur um heyrnarskerta Íslendinga liggja ekki fyrir en ef miðað er við erlendar rannsóknir má gera ráð fyrir að allt að 10% þjóðarinnar sé heyrnarskert og þar af um 5% (um 16 þúsund manns) séu það mikið heyrnarskertir að þeir hafi gagn af því að nota heyrnartæki. Með hækkandi lífaldri fjölgar í hópi heyrnarskertra þar sem heyrnarskerðingu flestra má rekja til öldrunar.
Árlega fæðast 6 til 10 heyrnarskert börn á landinu. Rúmlega 200 börn á aldrinum 0-18 ára eru undir eftirliti hér á Heyrnar- og talmeinastöð og nota tæplega 170 þeirra heyrnartæki.

eyra  heyrnarskerding

 


Hvernig get ég heyrt betur? Hvaða þjónusta stendur til boða ef heyrnin versnar?

Miklu skiptir að bíða ekki of lengi eftir að þú finnur að heyrn er farið að hraka. Því fyrr sem þú leitar aðstoðar, þeim mun betur er hægt að hjálpa þér aðlagast versnandi heyrn.

Heyrn hrakar oft með hækkandi aldri og af ýmsum öðrum orsökum. Ef hljóðheimur þinn er þegar orðinn verulega skertur eru minni líkur á að þú sættist við þann nýja hljóðveruleika sem heyrnartæki geta veitt þér. Viðbrigðin gætu einfaldlega orðið of mikil.Ef þú bregst snemma við hrakandi heyrn eru líkur á að hægt sé að aðlaga heyrn þína jafnt og stöðugt yfir lengri tíma og viðbrigðin verði minni. Þú munt þá eiga auðveldar með að nýta þér heyrnartæki og önnur úrræði.Hér á eftir fylgir lýsing á því sem gerist ef þú ákveður að leita þér aðstoðar við heyrnarskerðingu:

  • Finndu áreiðanlega þjónustuaðila með sérþekkingu á heyrn og heyrnarskerðingu.
    Þetta geta verið heyrnarstöðvar s.s. Heyrnar-og talmeinastöð Íslands, heyrnarfræðingar og háls-nef og eyrnalæknar. Vertu viss um að þjónustuaðilinn bjóði upp á alla þjónustu og hafi yfir að ráða starfsfólki og tækni sem uppfyllir allar kröfur heilbrigðisyfirvalda. Söluaðilar heyrnartækja skulu hafa starfsleyfi heilbrigðisyfirvalda, slíkt starfsleyfi á að tryggja að þjónustan sem í boði er uppfylli allar kröfur.
  • Pantaðu tíma í heyrnarmælingu og aðstoð
    • Heyrnarfræðingur (og í sumum tilvikum læknir) munu skoða þig og taka sjúkrasögu þína. Þeir leita orsaka heyrnarskerðingarinnar, hvort hún sé af völdum of mikils eyrnamergs, sýkingar, afbrigðilegs vaxtar í eyra, aldurstengds heyrnartaps eða af öðrum orsökum. Heyrnarmæling er síðan framkvæmd til að mæla viðbrögð þín við ýmsum hljóðum á víðu tíðnissviði og á mismunandi hljóðsstyrk. Mæling og viðtal tekur u.þ.b. 1 klst og er algjörlega sársaukalaus. Útkoman hjálpar heyrnarfræðingi að finna lausn sem hentar þér best.
    • Ekki hika við að spyrja allra þeirra spurninga sem á þig leita og geta aukið skilning þinn og þekkingu á heyrn þinni. Því betur sem heyrnarfræðingurinn kynnist þér, umhverfi þínu og ástandi, þem mun betur getum við hjálpað þér.
  • Veldu heyrnartæki eða aðrar lausnir
    Heyrnarfræðingur notar niðurstöður mælingarinnar til að meta hvaða úrræði standa þér til boða og eru líklegust til að gagnast þér og þinni heyrnarskerðingu best. Ekki hika við að leita upplýsinga á eigin spýtur og gera vandlegan samanburð á þjónustu og tækni sem í boði er. Einkum skalt þú gera verðsamanburð því að oft getur miklu munað í verði sambærilegra tækja á markaðnum.
    Heyrnarfræðingur skal einnig upplýsa þig um hver greiðsluþátttaka almannatrygginga er í hverju tilviki. Við hvetjum þig einnig til að kanna hvort að stéttarfélög eða vinnuveitendur taka þátt í kostnaði við heyrnartæki eða aðrar lausnir.
    Mundu, að ekki er víst að dýrustu tækin á markaðnum séu endilega bestu tækin og að dýrustu og flóknustu tækin gagnast ekkert endilega sem lausn við þinni heyrnarskerðingu! Heyrn og heyrnarskerðing er afar persónubundin og sumum gagnast einfaldari tæki jafnvel betur en flókinn hátæknibúnaður.
    Við gefum þér ráð og upplýsingar en endanlegt val á lausn er alfarið í þínum höndum. Vandaðu því valið.
  • Mótataka og hlustarstykki
    Stundum er nauðsynlegt að sérsníða heyrnartæki fyrir þig og þá þarf að taka mót af eyranu og hlustinni svo hægt sé að smíða hlustarstykki sem fellur fullkomlega að hlust þinni. Þá tökum við mót af eyranu og hlustinni, mótið er síðan skannað í þrívíddar-skanna og eftir því móti er síðan smíðað hlustarstykki úr plasti eða sílikoni, sérsniðið að þínum þörfum. Þetta tekur nokkra daga og er gert á meðan heyrnartækin sjálf eru pöntuð.
  • Afhending heyrnartækja og fyrsta stilling
    Þegar heyrnartækin eru tilbúin er þér boðið í viðtal hjá heyrnarfræðingi sem fer vandlega yfir allt sem lýtur að notkun, viðhaldi og hreinsun nýju tækjanna. Tækin eru mátuð, tryggt að þau sitji rétt og valdi engum óþægindum. Þá eru tækin still í gegnum tölvu og stillingin er gerð í samræmi við útkomu heyrnarmælingarinnar til að tryggt sé að tækin bæti sérstaklega þau tíðnisvið sem veikust eru og dragi jafnvel úr óþægindum vegna annarra hljóða sem gera þér erfiðara með að greina þau hljóð sem skipta mestu máli. Miklu skiptir að t.d. talgreining, greining og skilningur á mannsröddum og tali, sé sem best með nýju tækjunum.
  • Heyrnarfræðingurinn lætur þig æfa ísetningu og meðferð tækjanna og hvernig best er að meðhöndla þau, viðhald, þrif o.s.frv. Vertu viss um að þú hafir fengið allar þær upplýsingar sem þú telur nauðsynlegar áður en þú gengur út með nýju heyrnartækin.
  • Að lokum er ákveðinn tími fyrir endurkomu og endurstillingu að loknu reynslutímabili (oftast 3-4 vikur).
  • Endurkoma/endurstilling
    Notaðu nýju tækin sem allra mest til að venjast þeim. Notaðu þau við sem fjölbreytilegastar aðstæður og hlustunarskilyrði til að prófa hvernig þau nýtast þér. Skráðu gjarnan hjá þér athugasemdir í dagbók á meðan á reynslutíma stendur svo að þú munir betur hvað er gagnlegt og hvað þú telur miður fara við daglega notkun. Í endurkomutíma er gott að fara yfir öll slík atriði með heyrnarfræðingnum til að tryggja að vankantar séu slípaðir af og þú sért sátt(ur) við tækin.
  • Heyrnarfræðingurinn endurstillir tækin ef þörf er á og fer yfir alla notkun til að tryggja að tækin nýtist þér sem best. Heyrnartæki eru töluverð fjárfesting og því er það sjálfsögð krafa að þau virki eins vel og mögulegt er hverju sinni.
    Mundu að það er 30 daga skilafrestur á öllum nýjum heyrnartækjum. Þú getur því skilað inn tækjum eða fengið ný tæki til prófunar ef að þú telur að tækin henti þér ekki einhverra hluta vegna.
  • Regluleg þjónusta tækja
    Þú getur ávallt leitað til okkar ef einhverjar spurningar vakna eða ef vandamál koma upp með heyrnartæki. Hægt er að mæta í opna tíma hjá Heyrnar- og talmeinastöð fyrir minniháttar aðstoð og stillingar en stundum þarf að bóka tíma ef talin er þörf á flóknari aðstoð. Hægt er að fá gert við biluð heyrnartæki, jafnvel samdægurs. Athugið að heyrnartæki koma með a.m.k. 2ja ára ábyrgð. Á vefsíðu okkar er hægt að fá upplýsingar um tímapantanir, opnunartíma, ýmsa fylgihluti og þjónustu (www.hti.is ).
  • Lærðu að njóta hljóðheimsins upp á nýtt !
    Það getur tekið dálítinn tíma að venjast heyrnartækjum, einkum ef heyrnartap hefur verið orðið verulegt áður en þú fékkst fyrstu heyrnartækin. Það getur tekið á þolinmæðina að venjast nýjum og ólíkum hljóðheimi sem tækin veita þér. Stilltu væntingum í hóf, engin heyrnartæki geta veitt þér fullkomlega náttúrulega heyrn við öll hlustunarskilyrði.

Þér er velkomið að hafa samband við okkur ef þú óskar frekari upplýsinga og allir söluaðilar heyrnartækja veita fjölbreytta þjónustu við viðskiptavini sína.

 

Gangi þér vel !


     

Nýjir sjónvarpsþættir um HEYRN

Heyrnin Þættir Hringbraut


Sjónvarpsstöðin HRINGBRAUT hefur framleitt nýja þætti um heyrnina, heyrnarskerðingu og starfsemi HTÍ. Þættirnir voru unnir í samvinnu við Heyrnar-og talmeinastöð Íslands og það er hinn góðkunni sjónvarpsmaður, Sigmundur Ernir, sem leiðir áhorfendur í gegnum margvíslegan fróðleik um heyrnina með viðtölum við starfsfólk HTÍ og skjólstæðinga stöðvarinnar.

Fyrri hluti þáttanna var frumsýndur þriðjudagskvöldið 28.janúar og síðan verða þeir sýndir næstu daga og vikur.
Við vekjum athygli á því að þættirnir eru textaðir svo að heyrnarskertir og heyrnarlausir geti betur fylgst með því sem rætt er.

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands þakkar Hringbraut samstarfið og einnig þeim skjólstæðingum okkar sem tóku þátt með frábærum viðtölum og spjalli.

 

janúar 2020

Veldur heyrnarskerðing elliglöpum ?

ID-100307566Langvinnt heyrnartap veldur rýrnun á heilastöðvum

Dr Frank Lin og rannsóknarteymi frá John Hopkins spítalanum og Bandarísku öldrunarstofnuninni (National Institute of Aging) hafa rannsakað samhengið á milli heyrnartaps aldraðra og andlegrar heilsu og heilastarfsemi þeirra. Niðurstöður hópsins benda til þess að heyrnartap flýti hrörnun heilans og geti verið orsakavaldur ýmissa sjúkdóma s.s. Alzheimers, geðsjúkdóma og elliglapa.

Hópurinn notaði gögn úr langtímarannsókn (Baltimore Longitudinal Study of Aging) til að skoða breytingar á heilastarfsemi aldraðra með eðlilega heyrn og samanburðarhóps aldraðra með skerta heyrn. Fyrri rannsóknir hafa áður sýnt fram á tengsl á milli heyrnarskerðingar og breyttrar heilastarfsemi. T.d. virðast svæði heilans sem vinna úr hljóði og heyrnarmerkjum vera minni hjá heyrnarskertum en hjá fullheyrandi einstaklingum. Ekki hafði þó verið sýnt fram á að breytingarnar kæmu til vegna heyrnarskerðingarinnar eða hefður verið til staðar áður en heyrnarskerðing kom til sögunnar.

Rannsóknin                                                     

126 aldraðir einstaklingar, ýmist heyrandi (75) eða heyrnarskertir (51) fóru í heilaskanna og nákvæma heyrnarmælingu árið 1994 og þeim síðan fylgt eftir árlega. Niðurstöður sýna að heyrnarskertu einstaklingarnir sýndu hraðari hörnun heilans (rýrnun heilavefjar) en jafnaldrar með eðlilega heyrn. Þessir einstaklingar sýndu einnig hlutfallslega meiri rýrnun í þeim heilastöðvum sem vinna úr hljóðum og tali.
Dr Lin segir þetta valda áhyggjum þar sem þessi heilasvæði sinni ekki eingöngu heyrn heldur séu einnig mikilvægar starfsstöðvar þegar kemur að minni og skynjun. Þessi svæði heilans komi þannig við sögu í elliglöpum og hjá Alzheimer sjúklingum.

Mikilvægt að meðhöndla heyrnarskerðingu

Rannsakendur leggja áherslu á mikilvægi þess að láta ekki heyrnarskerðingu ómeðhöndlaða. „Við viljum að gripið sé til meferðar á heyrnarskerðingu sem fyrst í ferlinu.“ segir dr Lin, „Ef heyrnarskerðing veldur þessum neikvæðu áhrifum, sem við sjáum á heilaskanna, þá viljum við meðhöndla heyrn einstaklinganna áður en þessar óafturkræfu breytingar á heilanum eiga sér stað.“

Meira en helmingur fólks 75 ára og eldra er með skerta heyrn og með auknu langlífi verður heyrnarskerðing og heyrnartap sífellt stærra vandamál. Afar mikilvægt er að auka lífsgæði þessa hóps með því að meðhöndla heyrnarskerðinguna um leið og hún greinist. Í ljósi rannsóknar dr Lin og félaga er enn brýnni nauðsyn á að tryggja að allir eldri borgarar geti fengið nauðsynlega meðhöndlun á heyrn sinni. Heyrnartæki verða og eiga að vera aðgengileg og innan kaupgetu eldri borgara.

Hvernig hjálpa heyrnartæki?

Næstu skref í rannsókn dr Lin er að kanna hvort að reglulega notkun heyrnartækja og snemmtæk íhlutun í heyrnarskerðingu fullorðinna geti breytt einhverju um þróun elliglapa. Aðspurður að gagnsemi heyrnartækja svarar dr Lin: „Við vitum því miður ekki enn hvort að kjörmeðferð við heyrnarskerðingu með góðum heyrnartækjum og reglulegu eftirliti geti afstýrt þessum breytingum sem við sáum. Það krefst mun stærri rannsóknar og yfir lengri tíma. Við vonumst þó til að næstu rannsóknir okkar geti svarað þessari spurningu.“
Heyrnartæki, ef rétt notuð og stillt eftir heyrn viðkomandi getur auðveldað fólki hljóðvinnslu og talgreiningu. Því er rökrétt að álykta að bætt heyrn með hjálp heyrnartækja gæti dregið úr líkum á þeim breytingum á heila sem rannsóknir dr Lin og félaga sýndu. Vonandi tekst að sýna fram á það í framtíðinni.

Heimildir:
www.asha.org
www.hopkinsmedicine.org

júlí 2015

 

Vista
Vefkökur samþykki og yfirlit
Við notum vefkökur til að betrumbæta notendaupplifun vefsins. Ef þú samþykkir ekki notkun vefkaka getur það bitnað á virkni og notkun hans.
Samþykki allar
Neita öllum
Lesa skilmála
Functional
Forrit sem eru notuð til að veita þér fleiri möguleika eins og til dæmis tengingu við samfélagsmiðla.
Osano
Vefkaka sem geymir tímabundið samþykki þitt á þessari vefsíðu
Samþykkja
Neita
Analytics
Forrit sem skráir og mælir skilvirkni vefsíðunnar. Greinir notkun gesta. Við notum þessar upplýsingar til að betrumbæta upplifun notenda.
Google Analytics
Rýnir í vefumferð á vefnum svo hægt sé betrumbæta hann.
Samþykkja
Neita