Stækka letur

Nýburi heyrnarmældur

Aðferðin sem notuð er við heyrnarmælinguna er einföld, áreiðanleg, tekur stuttan tíma og hægt er að framkvæma hana meðan barnið sefur. Hún er á engan hátt óþægileg fyrir barnið og foreldrar eru viðstaddir allan tímann. Litlu hlustarstykki er komið fyrir í eyra barnsins. Hljóðmerki er gefið á styrk sem samsvarar eðlilegum talstyrk. Þegar innra eyra barnsins nemur hljóðið sendir það frá sér svar og með hjálp tölvu er hægt að skrá svarið. Mælingin tekur örfáar mínútur. Ef svar mælist er það tákn um virkt innra eyra og að öllum líkindum hefur barnið þá eðlilega heyrn.

Hvers vegna að heyrnarmæla nýbura?

Eigi barn að hafa möguleika á eðlilegum málþroska er mikilvægt að heyrnarskerðingin greinist sem fyrst, helst áður en barnið hefur náð sex mánaða aldri. Rannsóknir sýna að fyrsta aldursárið er mikilvægt þroskatímabil hvað varðar máltöku barna. Það er mjög erfitt að skynja eða geta sér til um hvort lítið barn er með skerta heyrn. Þess vegna greinist heyrnarskerðing hjá börnum oft seint. Nýleg íslensk rannsókn bendir til þess að greiningaraldur hér á landi sé óvenju hár, eða um sex ára. Í flestum tilfellum eru foreldrar heyrnarskertra barna eðlilega heyrandi.

Samstarfsverkefni um nýburamælingar handsalað

Því fyrr sem heyrnarskerðingin greinist, þeim mun meiri möguleikar eru til þess að hjálpa barninu, þ.e. auka líkurnar á eðlilegum málþroska. Hjálpin felst oftast í ráðgjöf til fjölskyldu barnsins, heyrnartækjum og þjálfun hjá talmeinafræðingi. Hægt er að setja heyrnartæki á nokkurra vikna gamalt barn, eða um leið og staðfesting á heyrnar-skerðingunni liggur fyrir.Samstarfsverkefni LHS og HTÍ um nýburamælingar handsalað.