Hafa verkjalyf neikvæð áhrif á heyrn kvenna ?
Nýleg bandarísk rannsókn skoðaði langtíma-notkun 54.000 kvenna á þremur algengum tegundum verkjalyfja með tilliti til áhrifa á heyrn. Niðurstöður vekja athygli. Rúm 16% kvenna í rannsókninni voru með heyrnartap af völdum slíkra lyfja og langtímanotkun verkjalyfja eykur líkur á heyrnartapi.
Möguleg tengsl fundust milli notkunar kvenna á 2 af 3 verkjalyfjum sem skoðuð voru. Þau verkjalyf sem virðast valda heyrnartapi við langtímanotkun eru Ibuprofen og Acetaminophen, hvort tveggja mjög algeng verkjalyf. Hins vegar sáust engin áhrif á heyrn við langtímanotkun venjulegs aspiríns (acetylsalicilsýru).
Rannsakendur frá Brigham and Women´s Hospital rannsökuðu 54 þúsund konur á aldrinum 48-73 ára. Heyrnartap af völdum verkjalyfja kom skýrast fram hjá þeim konum sem notuðu verkjalyf reglulega í 6 ár eða lengur. Hjá konum sem notuðu slík lyf einungis 1-2svar í viku í allt að 12 mánuði sást hins vegar enginn marktækur munur á heyrn.
Gary Curham, einn höfunda skýrslunnar, telur að þó að niðurstöður sýni einungis takmörkuð neikvæð áhrif sé ástæða til að hafa þetta í huga, einkum þar sem þessi lyf eru mjög algeng og margir nota þau reglulega og til lengri tíma.
Ágúst 2017