Starf talmeinafræðinga á
Heyrnar – og talmeinastöð Íslands


hrafnhildur kristin 


Á talmeinasviði Heyrnar - og talmeinastöðvar Íslands starfa fjórir talmeinafræðingar í 3 ½ stöðu. Helstu skjólstæðingar sem talmeinafræðingar HTÍ sinna eru heyrnarskertir einstaklingar, bæði börn og fullorðnir, og börn fædd með skarð í vör og/eða gómi. Talmeinafræðingar sinna einnig börnum sem standast ekki viðmið í 18 mánaða skoðun og er þeim vísað af hjúkrunarfræðingum heilsugæslustöðvanna. Talmeinafræðingar starfa við ráðgjöf, greiningu og talþjálfun. Bæði heyrnarskert börn og börn með skarð eru í reglulegu eftirliti þar sem þau eru kölluð inn til endurmats eða viðtals. Boðið er upp á talþjálfun fyrir þessa hópa.

Heyrnarskert börn Talmeinafræðingar koma að þjónustu barna með greinda heyrnarskerðingu eða heyrnarleysi. Unnið er náið með heyrnarfræðingum og háls-, nef- og eyrnalæknum stofnunarinnar ásamt öðrum fagaðilum utan hennar. Öllum börnum sem greind eru með heyrnarskerðingu, og hafa hafið heyrnartækjameðferð, er vísað til talmeinafræðings. Skv. viðmiðum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) er snemmtæk íhlutun heyrnarskertra barna afgerandi liður í því hvernig þeim vegnar í málþroska, námi og félagsfærni (World Health Organization, 2016). Heyrn eða aðgangur heyrnrænna upplýsinga til heilans er meginforsenda þess að máltaka á talmáli geti átt sér stað. Mikilvægt er því að hefja snemmtæka íhlutun sem fyrst. Fyrstu árin er ráðgjöfn einna helst foreldramiðuð þar sem lögð er áhersla á mikilvægt hlutverk foreldra sem helsti stuðningur við barnið. Talmeinafræðingar vinna því þétt saman með foreldrum og öðru fagfólki stofnunarinnar að því að skapa bestu skilyrðin til máltöku, bæði með stöðugri heyrnartækjanotkun og vel stilltum tækjum sem og fræðslu og ráðgjöf um málörvun sem hentar barninu. Börn greinast með mismikla heyrnarskerðingu sem getur verið beggja vegna eða einungis öðru megin. Eðli ráðgjafarinnar þarf að taka mið af þessum þáttum. Talmeinafræðingur fræðir t.a.m. um tengsl heyrnar og málþroska. Foreldrar nýgreindra ungabarna þurfa tíma til að aðlagast þeirri tilhugsun að barnið sé með heyrnaskerðingu og að læra að meðhöndla heyrnartækin. Barn sem fæðist með alvarlega heyrnarskerðingu fer strax að missa úr heyrnarþroska sem er gríðarlega mikilvægur grunnur fyrir eðlilega máltöku á talmáli. Mikilvægt er að foreldrar veiti barninu ö%uga málörvun alveg frá fæðingu.


Kuðungsígræðsluteymi Gerðar eru kuðungsígræðslur á Íslandi bæði á börnum og fullorðnum. Kuðungsígræðslutæki (Cochlear implant) er hjálpartæki sem gefur alvarlega heyrnarskertu og heyrnarlausu fólki möguleika á að heyra hljóð. Tækið framkallar hljóðáhrif með því að örva heyrnartaugina með rafmagni (Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, e.d). Talmeinafræðingur er hluti af kuðungsígræðsluteymi sem samanstendur af háls–, nefog eyrnalæknum, eyrnaskurðlækni, heyrnarfræðingum og sálfræðingi. Tímasetning ígræðslu getur haft áhrif á það hvernig þeim vegnar í málþroska, því fyrr því betra (National Acoustic Laboratories, 2019; Niparko o.%., 2010). Yngstu börnin á Íslandi sem farið hafa í CI - aðgerð voru 7-8 mánaða. Talmeinafræðingur metur heyrnræna getu barnsins fyrir aðgerð og fylgir eftir framförum og veitir í kjölfarið ráðgjöf um mikilvægi hljóðaörvunar og kennir foreldrum aðferðir til að hvetja til hlustunar með kuðungsígræðslutækjunum. Kennsluaðferðin „Auditory verbal therapy“ er notuð til viðmiðunar í ráðgjöf til foreldra. Aðferðin felst í því að veita markvissa hljóðaörvun með það að markmiði að nýta þá heyrn sem barnið hefur (Houston, 2012). Mikið er lagt upp úr stöðugri notkun heyrnartækja og að þau séu í lagi. Dæmi um aðferðir fyrir hljóðaörvun ungra barna er m.a. að hvetja barnið til að veita ólíkum hljóðum athygli í umhverfinu, tengja saman hljóð og hljóðgjafa og hvetja barnið til að horfa á andlit þegar talað er. Foreldrar þurfa að hafa góða hljóðvist í huga og vera nálægt barninu eða heyrnartækinu þegar talað er.

Talmeinafræðingar vinna þétt saman með foreldrum og öðru fagfólki stofnunarinnar að því að skapa bestu skilyrði til máltöku, bæði með stöðugri heyrnartækjanotkun, vel stilltum tækjum sem og fræðslu og ráðgjöf um málörvun sem hentar barninu.

Aðrar samskiptaleiðir, eins og táknmál, eru kynntar fyrir foreldrum. Þeim er bent á að leita til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra til að kynna sér táknmál og þjónustuna þar ef um töluverða eða alvarlega heyrnarskerðingu er að ræða. Að nota táknmál sem samskiptaleið er valkostur sem foreldrar ákveða sjálfr og er mörgum börnum mikilvægur stuðningur í námi og samskiptum. Heyrnarskert börn hafa mismikla þörf fyrir sjónrænan stuðning.

Börn með kuðungsígræðslu fara %est á leikskólann Sólborg þó það sé ekki algilt og alls ekki skylda. Talmeinafræðingur HTÍ kemur þangað vikulega og sinnir talþjálfun. Foreldrar koma reglulega með börnin á HTÍ til að fara yfr markmið og hvernig meðferð gengur. Boðið er upp á þjálfun á HTÍ í lotum og einnig fjarþjálfun í sumum tilvikum. Börnin fá stuðning og sérkennslu á leikskólanum. Fundir með sérkennslustjóra eru haldnir reglulega sem og stöðufundir 1-2 sinnum á ári með öðrum eðilum sem koma að barninu.

Heyrnarskert skólabörn 
Skólabörn á aldrinum 6-10 ára eru í reglulegu eftirliti talmeinafræðings. Þau eru kölluð inn árlega til viðtals og endurmats á málþroska. Sum börn fá þjónustu hjá talmeinafræðingum á stofu ef það er val foreldra. Heyrnarskert skólabörn stunda nám í skólum um allt land en kuðungsígræðslubörn stunda mörg nám í Hlíðarskóla. Talmeinafræðingur HTÍ kemur vikulega í skólann og sinnir talþjálfun fyrir þau börn.

Endurhæfng fullorðinna kuðungsígræðsluþega
Talmeinafræðingur sinnir greiningu og endurhæfngu fullorðinna kuðungsígræðsluþega. Lögð er áhersla á hlustun umhverfishljóða, tals og hljóðbóka. Það tekur tíma að venjast nýrri heyrn og aðlagast henni. Skjólstæðingar fá hlustunaræfingar sem gera þarf daglega. Farið er yfir aðferðir sem nýtast til betri talgreiningar í daglegum samskiptum, t.d. í hóp og í mismunandi hljóðumhverfi. Stuðningur fjölskyldu hefur mikið að segja um framfarir og framvindu. Talgreining er metin reglulega með talgreiningalistum til að meta framfarir skjólstæðings í kjölfar aðgerðar. Unnið er að stöðlun forprófaðra talgreiningalista sem teknir voru nýlega í gagnið.


Börn fædd með skarð í vör og/eða gómi

Talmeinafræðingar HTÍ koma að þjónustu barna með skarð í gómi og/eða vör frá 12 mánaða aldri. Áður hafa þau fengið ráðgjöf og þjónustu frá talmeinafræðingi Barnadeildar Landspítala. Unnið er náið með skarðateymi Landspítala en í því teymi eru lýtalæknir, hjúkrunarfræðingur sem jafnframt er teymisstjóri, HNE-læknir, talmeinafræðingur Landspítala og talmeinafræðingar HTÍ. Tannréttingasérfræðingar hafa einnig aðkomu að teyminu en sækja ekki alla fundi. Skarðateymið hittist reglulega, 2-4 sinnum á ári allt eftir þörf og eftirspurn. Aðstaða til að gera nefkoksspeglun og röntgenmyndatöku af hreyfingum mjúka góms er til staðar á Landspítalanum og er framkvæmd af HNE-lækni. Börnin eru boðuð í fyrsta viðtal á HTÍ skömmu eftir fyrsta afmælisdaginn. Foreldrar fá svo ráðgjöf í samræmi við hvar barnið er statt hverju sinni. Oft koma börnin á 4-6 vikna fresti fram að tveggja ára aldri þegar heimsóknir fara að verða tíðari ef þörf er á talþjálfun. Mikilvægt er því að hefja snemmtæka íhlutun sem fyrst eins og með öll börn sem þurfa aðkomu talmeinafræðinga og er ráðgjöf og fræðsla mikilvægur liður í aðkomu þeirra. Í auknum mæli eru börn um eins árs byrjuð í leikskóla 
eða hjá dagforeldri og hafa því talmeinafræðingar alltaf samband við daggæslu til að veita upplýsingar og ráðgjöf og leggja upp íhlutun ef þörf er á. Ef barnið býr utan stór höfuðborgarsvæðisins veita talmeinafræðingar HTÍ ráðgjöf til leikskóla símleiðis og/ eða gegnum fjarfundarbúnað.

stulkaStrax í fyrstu komu er staðan á aðgerðum sem framkvæmdar hafa verið rædd og mikilvægt er að talmeinafræðingar séu meðvitaðir um hvort og hvenær næstu aðgerðir eru á dagskrá enda hefur það áhrif á íhlutun. Einnig þarf að hafa í huga ástand eyrna en börn sem fædd eru með skarð í gómi eru gjörn á að vera með vökva í eyrum (Petercon- -Falzone, Trost-Cardamone, Karnell og Hardin- -Jones, 2017) og leiðniheyrnartap fyrirkemur hjá börnum með skarð í ríkara mæli en þegar ekkert skarð er til staðar (Zajac og Vallino, 2017). Heyrnarmælingar eru framkvæmdar á HTÍ en best er að barnið hafi lokið öllum aðgerðum þegar það er gert. Skoða þarf ástand tanna og bits sem skarð í tanngarði getur haft áhrif á. Staða á tönnum og kjálka getur haft áhrif á framburð barnanna (Zajac og Vallino, 2017).

Ráðgjöf talmeinafræðinga snýr oftar en ekki að því að örva og auka við hljóðmyndun. Foreldrum er kennt hvernig hægt er að örva fjölbreytta hljóðmyndun, babl og orðaforða. Þar sem börnin eru oft sein að mynda fyrstu orðin þarf að fylgjast vel með almennum málþroska og leggja fyrir þau málþroskapróf sem við höfum aðgang að með reglulegu millibili.

Ófullkomin lokun mjúka góms upp við kokvegg eða opið nefmæli er oft fylgifiskur skarðs í gómi. Einnig greinist oft lokað nefmæli hjá einstaklingum fæddum með skarð í gómi eða blandað nefmæli þ.e. bæði opið og lokað (Zajac og Vallino, 2017). Á HTÍ er hægt að mæla hlutfall nefjunar í tali með svo kölluðum nefjunarmæli (sjá mynd1 ) og má gera það um leið og barn getur setið kyrrt á stól og leyfir að búnaðinum sé haldið milli nefs og munns. Sé hlutfall nefjunar í tali yfir viðmiðunarmörkum er teymið virkjað í ákvarðanatöku varðandi talbætandi aðgerðir. Hægt er að senda beiðni um nefjunarmælingu gegnum heimasíðu HTÍ ef áhyggjur eru af opnu/lokuðu nefmæli þó skarð sé ekki til staðar.

Talþjálfun skarðabarna upp að 2 ½ til 3ja ára aldri er oftast miðuð meira að málþroskanum en framburði. Þó eru foreldrar virkjaðir í hljóðaörvun strax í fyrstu komu. Eftir 3ja ára aldur er hægt að byrja markvissari framburðarþjálfun sé þess þörf. Eins og með heyrnarskertu börnin koma foreldrar reglulega með börnin á HTÍ til að fara yfir markmið og hvernig meðferð gengur. Boðið er upp á þjálfun á HTÍ Í lotum og einnig fjarþjálfun í sumum tilvikum. Veitt er þétt ráðgjöf inn í leikskóla barnanna og markmiðum í mörgum tilvikum fylgt eftir þar. Meðan þörf er á þjálfun er hún veitt.

 

 

1) Rose Medical, Speech Therapy and Instumentation http://www.rose-medical.com/nasometry.html


HeimildaskráHeyrnar- og talmeinastöð Íslands. (e.d). Kuðungsígræðsla.
Ígrædd heyrnartæki.
Sótt af https://hti.is/index.php/is/heyrn/kudungsigraedsla.html

Houston, T. (2012). Auditory-Verbal Therapy: Supporting
Listening and Spoken Language in Young Children
with Hearing Loss & Their Families.
Sótt af https://leader.pubs.asha.org/do/10.1044/auditory-verbal--therapy-supporting-listening-and-spoken-language-in-young-children-with-hearing-loss-their--families/full/

National Acoustic Laboratories. (2019). Longitudinal
Outcomes of Children with Hearing Impairment.
Sótt af https://www.outcomes.nal.gov.au/
Niparko, JK., Tobey, EA., Thal, DJ., Eisenberg, LS.,
Wang, N., Quittner, AL. og Fink, NE. (2010). Spoken Language Development in Children Following
Cochlear Implantation. Jama, 303(15), 1498-1506.
doi:10.1001/jama.2010.451


Peterson-Falzone, SJ., Trost-Cardamone, J., Karnell,
MP. og Hardin-Jones, MA. (2017). The Clinician’s
Guide to Treating Cleft Palate Speech - Second Edition.
Elsevier, Bandaríkin.

World Health Organization. (2016). Childhood hearing loss. Strategies for prevention and care.
Sótt af https://apps.who.int/iris/bitstream/handle/10665/204632/9789241510325_eng.pdf?-sequence=1&isAllowed=y

Zajac, DJ. og Vallino LD. (2017). Evaluation and Management of Cleft Lip and Palate; A Developmental Perspective. Plural Publishing Inc, San Diego.