jólakvöldverður

Nú brestur á með hátíðahöld og mannfagnaði um jól og áramót þó að fjöldatakmarkanir stilli að einhverju leyti veislum í hóf þetta árið.

Fyrir heyrnarskerta getur þessi árstími verið áskorun og jafnvel valdið einangrun og streitu.

Hér á eftir fylgja nokkur hollráð sem heyrnarskertir ættu að hafa í huga um jól og áramót. Þessi 11 ráð taka á atriðum s.s. hvernig heyrnarskertir geta bætt eigin líðan en einnig hvernig best er að haga tjáskiptum við heyrnarskerta í margmenni og hávaða.

Leyfum heyrnarskertum að njóta þessa skemmtilegasta tíma ársins til jafns við aðra fullheyrandi:

 • Heyrnartækjanotendur: NÝTIÐ TÆKNINA! Heyrnartæki eru sérhönnuð til að gera ykkur lífið léttara í einmitt svona kringumstæðum.
 • Stillið heyrnartækin á það hlustunarkerfi sem passar best við hljóðvistina í veislunni. Það mun auka vellíðan þína og gera þig að virkum þátttakanda.
 • Fangaðu athygli heyrnarskerts viðmælanda ÁÐUR en þú byrjar að tala við hann/hana.
 • Bankaðu létt á öxl og snúðu andlitinu beint að þeim. Jafnvel þó að heyrnarskertir séu með heyrnartæki þá er þeim oft mikill stuðningur í því að geta horft á munn og varir þess sem talar.
 • Passaðu að sá sem talar sé í birtu, það hjálpar við varalestur.Snúðu ávallt andlitinu að þeim heyrnarskerta á meðan þú talar. Talaðu skýrt, ekki of hægt og notaðu eðlilegar varahreyfingar.
 • Svipbrigði og látbragð hjálpar heyrnarskertum mikið.
 • Komdu þér beint að efninu, ekki blanda saman óskyldu umtalsefni. Ekki tafsa eða muldra.
 • Ekki hrópa en talaðu samt skýrt og greinilega. Hávær rödd getur líka verið mjög óþægileg fyrir heyrnartækjanotendur.
 • Hvort heldur heimavið eða á skemmtistöðum/veitingastöðum, þá er best fyrir heyrnarskerta að vera ekki nálægt hljómflutningstækjum eða öðrum hávaða.
  Rými með góðri hljóðvist henta þeim betur. Færðu þig yfir í lágværara rými ef mögulegt svo að hinn heyrnarskerti fái einnig notið samræðna.
 • Leyfið þeim heyrnarskerta að sitja miðsvæðis við veisluborð svo hann/hún sjái vel á andlit allra gesta og sé ekki of langt frá þeim sem tala.
  Gott er að sitja við hringborð ef það býðst, þá sjá heyrnarskertir best á andlit allra borðfélaga sinna.
 • Vertu viss um að heyrnarskerti aðilinn hafi skilið það sem þú segir. Ef ekki, reyndu að endurtaka og umorða sömu setninguna. Ekki hækka róminn og sýndu þolinmæði.
 • Geymið uppvask, diskaglamur og eldhús-hávaða ef það er hægt. Slíkur hávaði getur hindrað heyrnarskerta í að skilja talað mál. Leyfðu óhreina leirtauinu að bíða aðeins, það fer ekki neitt.

Gleðilega HTÍð !